Það sem ég furða mig hvað helst á er þó sú staðreynd að stærstur hluti fólks lokar augunum fyrir slæmum umhverfisáhrifum landbúnaðar.

Upplýsingarnar sem mögulegt er að afla sér á veraldarvefnum eru svo gott sem endalausar. Samhliða auknu upplýsingaflæði eykst krafan um að hver einstaklingur taki upplýstar ákvarðanir. Þessar ákvarðanir geta snúið að stjórnmálum eða umhverfismálum eða í raun hverju sem er. Þær upplýsingar sem hver og einn getur aflað sér ættu nefnilega að sjá til þess að við gætum tekið bestu ákvörðunina hverju sinni. Auðvitað er mikið af fölskum upplýsingum á vefnum en það er líka á ábyrgð hvers og eins að gera greinarmun þar á.

Nægar upplýsingar eru til um það hversu stórt vandamál gróðurhúsalofttegundir eru í heiminum, og flest vitum við innst inni að best væri t.d. að leggja einkabílnum og byrja þess í stað að taka strætó, hjóla eða ganga. Sjálf á ég bíl og afsaka þann lífsstíl minn hvað helst með því hversu langt ég bý bæði frá Háskólanum og frá vinnustaðnum, jú og því hversu langt vinnustaðurinn er frá Háskólanum. Ég veit samt að ég gæti lifað bíllausum lífsstíl en eins og staðan er í dag er ég ekki tilbúin að fórna dýrmætum tíma mínum í almenningssamgöngur.

Það sem ég furða mig hvað helst á er þó sú staðreynd að stærstur hluti fólks lokar augunum fyrir slæmum umhverfisáhrifum landbúnaðar. Vissuð þið t.d. að gróðurhúsaáhrif frá landbúnaði í heiminum eru a.m.k. jafn mikil ef ekki meiri en gróðurhúsaáhrif samgöngukerfisins í heild sinni. Fyrir utan það þá er hvað helst við landbúnað að sakast þegar kemur að eyðingu regnskóga, dauðum hafsvæðum og útrýmingu dýrategunda. Upplýsingar um áhrif landbúnaðar á jörðina verða sífellt aðgengilegri á netinu, sem og upplýsingar um slæma meðferð á dýrum og heilsufarslegan ávinning þess að sniðganga dýraafurðir. Ef þér er annt um jörðina en ert ekki tilbúin/n að gefa einkaökutækið upp á bátinn þá er þetta tilvalin leið til að leggja þitt af mörkum.

Ég fagna þeirri þróun að sífellt fleiri kjósa að taka upplýstar ákvarðanir sem eru þeim sjálfum, samfélaginu og heiminum öllum til góða. Bresk rannsókn leiddi nýlega í ljós að 7% bresku þjóðarinnar telja sig vera vegan. Heimur batnandi fer.

Þorgerður Anna Gunnarsdóttir thorgerdur@mbl.is