Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, þótti koma óskaddaður að mestu út úr fundum með nefndum beggja deilda Bandaríkjaþings á þriðjudag og miðvikudag þegar hann svaraði spurningum þingmanna í alls tæpar tíu klukkustundir.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Mark Zuckerberg, stofnandi Facebook, þótti koma óskaddaður að mestu út úr fundum með nefndum beggja deilda Bandaríkjaþings á þriðjudag og miðvikudag þegar hann svaraði spurningum þingmanna í alls tæpar tíu klukkustundir. Zuckerberg sagði að hann teldi það „óhjákvæmilegt“ að settar yrðu nýjar reglur um starfsemi samskiptamiðla til að vernda persónuupplýsingar notenda en lagði áherslu á að fara þyrfti varlega í þeim efnum. Hann varði einnig viðskiptalíkan Facebook og sagði það nauðsynlegt til að afla fyrirtækinu tekna.

Zuckerberg baðst afsökunar á því hvernig Facebook hefur tekið á vaxandi óánægju notenda samskiptamiðilsins eftir að í ljós kom að hann deildi upplýsingum um 87 milljónir manna með breska fyrirtækinu Cambridge Analytica, sem starfaði meðal annars fyrir kosningaskrifstofu Donalds Trump fyrir forsetakosningarnar í Bandaríkjunum í nóvember 2016.

Tókst að róa fjárfesta

Fréttaskýrandi The Wall Street Journal sagði að Zuckerberg hefði reynt að sigla milli skers og báru þegar hann svaraði spurningum þingmannanna. Hann hefði annars vegar reynt að sefa áhyggjur þingmanna af öryggi persónuupplýsinga, sem samskiptamiðlar safna, og hins vegar áhyggjur fjárfesta sem óttast að strangari reglur um vernd persónuupplýsinga skerði möguleika miðlanna til að afla tekna. Svo virðist sem Zuckerberg hafi tekist að róa fjárfestana, að minnsta kosti um sinn, þar sem gengi hlutabréfa í Facebook hækkaði um alls 5,5% dagana sem hann kom fyrir þingnefndirnar. Áður hafði markaðsvirði fyrirtækisins minnkað um nær 80 milljarða dollara, jafnvirði tæpra 8.000 milljarða króna, frá því um miðjan mars þegar mál Cambridge Analytica komst í hámæli.

Ólíklegra er að Zuckerberg hafi tekist að róa þingmennina. Margir þeirra létu í ljós gremju í garð Facebook en mikil óeining virðist þó vera á meðal þeirra um hvernig herða eigi reglurnar og eftirlit með samskiptamiðlunum.

Fréttaskýrandi The Wall Street Journal , Dan Gallagher, segir að Zuckerberg hafi einnig notið góðs af því að flestum þingmannanna virtist vera meira umhugað um að ganga í augun á kjósendum með því að slá pólitískar keilur en að fá gagnleg svör frá stofnanda Facebook. Þetta hafi gert honum kleift að halda sig að mestu við þau skilaboð sem hann vildi hamra á til að koma í veg fyrir að reglunum yrðu breytt þannig að þær stefndu viðskiptalíkani Facebook í hættu.

Erfið „heimaverkefni“

Fréttaskýrandi The Guardian , David Smith, tekur í sama streng og segir að „miðaldra þingmenn öldungadeildarinnar“ hafi oft sýnt vanþekkingu á samskiptamiðlunum þegar þeir lögðu spurningar fyrir Zuckerberg í um fimm klukkustundir á þriðjudag. Frammistaða þingnefndar fulltrúadeildarinnar hafi verið betri daginn eftir. Spurningar fulltrúadeildarmannanna hafi verið beinskeyttari og Zuckerberg stundum átt í erfiðleikum með að svara þeim.

Fréttaskýrandi BBC , Dave Lee, bendir á að Zuckerberg vékst undan því að svara rúmlega 20 spurningum og lofaði því að hann og aðstoðarmenn hans myndu gera það síðar. Að sögn Lee geta sum þessara „heimaverkefna“ verið mikið áhyggjuefni fyrir Facebook, til að mynda spurning fulltrúadeildarþingmannsins Bens Lujan, demókrata frá Nýju Mexíkó. „Þú hefur sagt að allir geti stjórnað því hvernig farið er með upplýsingar um þá, en þið safnið samt upplýsingum um fólk sem er jafnvel ekki á Facebook og hefur aldrei samþykkt notendaskilmála Facebook,“ sagði þingmaðurinn. Zuckerberg viðurkenndi að fyrirtækið safnar upplýsingum um fólk sem er ekki á Facebook og hefur því ekki samþykkt notendaskilmálana. Hann sagði það gert í „öryggisskyni“ og lofaði að svara því síðar hvers konar upplýsingum fyrirtækið safnaði um þá sem eru ekki á Facebook. Hann lofaði einnig að svara spurningu um hvernig fyrirtækið getur fylgst með Facebook-notendum þegar þeir hafa skráð sig út úr samskiptamiðlinum, að sögn BBC .

Fréttaskýrandi fréttasjónvarpsins CNN , Dylan Byers, segir þessar spurningar vera þær mikilvægustu sem lagðar hafi verið fyrir Zuckerberg á fundunum með þingnefndunum.

Zuckerberg sagði að notendur Facebook veldu það sjálfir að gera upplýsingar um sig aðgengilegar á samskiptamiðlinum. Þótt hann teldi það „óhjákvæmilegt“ að setja nýjar reglur um vernd persónuupplýsinga væri nauðsynlegt að fara varlega í þeim efnum. Hann benti t.a.m. á að þótt það gæti verið auðvelt fyrir stór tæknifyrirtæki að fara eftir reglunum gætu þær verið íþyngjandi fyrir minni sprotafyrirtæki.

Gætu markað þáttaskil

Zuckerberg sagði að það væri „mjög algengur misskilningur“ að Facebook seldi auglýsendum persónuupplýsingar. „Við seljum ekki auglýsendum gögn. Við seljum ekki neinum gögn.“

Fréttaskýrandi CNN telur þetta ekki alveg rétt hjá Zuckerberg og segir að viðskiptalíkan Facebook byggist á verslun með persónuupplýsingar. Fyrirtækið safni slíkum upplýsingum, noti þær til að selja auglýsendum aðgang að ákveðnum markhópum og bjóða þeim þannig auglýsingar sem séu líklegri til að bera árangur en auglýsingar í öðrum miðlum.

Nokkrir fréttaskýrendur telja þó að fundir Zuckerbergs með þingnefndunum geti haft mikla þýðingu fyrir þróun samskiptamiðlanna. „Svör Zuckerbergs sýna að fyrirtækið hefur þroskast á síðustu tíu árum, einkum viðurkenning hans á því að Facebook beri ábyrgð á efni sem deilt er á samskiptamiðlinum,“ hefur fréttaveitan AFP eftir Dannagal Young, prófessor við Delaware-háskóla. „Viðurkenningin á því að fyrirtækið beri ábyrgð á efninu ætti að breyta því hvernig Facebook stjórnar aðgangi að miðlinum og sannreynir staðhæfingar, ásamt því hvernig hægt væri að setja reglur um samskiptamiðlana.“

Jennifer Grygiel, prófessor við Syracuse-háskóla, tekur í sama streng og segir að fundirnir með þingnefndunum geti markað þáttaskil. „Þetta er fyrsta skrefið í þá átt að setja þær reglur sem þarf,“ hefur AFP eftir henni. Hún telur að þingfundirnir hafi sýnt að ekki dugi að láta samskiptamiðlana um að setja reglurnar heldur þurfi ríkisvaldið að gera það og hafa eftirlit með því að reglurnar séu virtar.

Reglur ESB fyrirmynd?
» Mark Zuckerberg benti á að nýjar reglur Evrópusambandsins um vernd persónuupplýsinga ættu að taka gildi 25. maí og sagði að þær gætu að nokkru leyti verið fyrirmynd nýrra reglna í Bandaríkjunum.
» Hann staðfesti að Facebook myndi fylgja sumum af reglum ESB í Bandaríkjunum og víðar í heiminum.