Þormóður Haraldsson fæddist í Reykjavík 6. september 1932. Hann andaðist á Landspítalanum 31. mars 2018.

Foreldrar hans voru þau Haraldur Axel Pétursson, safnhúsvörður og fræðimaður, f. 15. ágúst 1895 á Arnarstöðum í Hraungerðishreppi, d. 1. janúar 1982, og kona hans, Margrét Þormóðsdóttir, f. 7. nóvember 1896 í Holtakotum í Biskupstungum, d. 29. apríl 1988.

Systkini Þormóðs: 1) Pétur Þórir, f. 17. október 1922, d. 1. maí 1924. 2) Pétur, kaupmaður og fræðimaður, f. 3. júlí 1925, d. 28. júlí 1993, kvæntur Halldóru Hermannsdóttur, f. 1929, kaupkonu. Börn þeirra eru: a) Sigríður, f. 1953, kennari, gift sr. Hreini S. Hákonarsyni, fangapresti þjóðkirkjunnar, og eru börn þeirra fjögur. b) Haraldur, f. 1955, d. 1972, menntaskólanemi. c) Margeir, f. 1960, héraðsdómslögmaður og stórmeistari í skák, kvæntur Sigríði Indriðadóttur kennara og eiga þau eina dóttur. d) Vigdís, f. 1962, læknir, gift Ævari Aðalsteinssyni, múrara og tómstunda- og félagsmálafræðingi, og eiga þau tvær dætur. 2) Guðbjörg Haraldsdóttir Bay, fyrrv. sjúkraliði, f. 16. janúar 1928, búsett í Holbæk í Danmörku, gift Axel Bay, prentmyndasmið, f. 1922, d. 1990. Synir þeirra eru: a) Haraldur Jóhannes, f. 1950, félagsfræðingur, kona hans er Linda Andersen prófessor, og eiga þau þrjá syni. b) Pétur, f. 1952, kennari, og á hann tvær dætur. c) Hans Henrik, f. 1963, tónlistarmaður, kona hans er Susanne Bechmann tónlistarmaður og eiga þau tvö börn.

Sambýliskona Þormóðs var Ágústa Jónsdóttir, f. 17. janúar 1920, d. 2. janúar 1989. Hún var dóttir Ágústu Gunnlaugsdóttur, f. 1888, d. 1951, og Jóns Kornelíusar Péturssonar, f. 1889, d. 1925. Þormóður og Ágústa voru barnlaus.

Þormóður lauk námi frá Gagnfræðaskóla Reykjavíkur og vann hjá póstinum á yngri árum. Síðan vann hann við Búrfellsvirkjun og lauk starfsævi sinni hjá ullarverksmiðjunni Álafossi.

Þormóður var áhugamaður um samfélagsmál og fylgdist vel með þjóðmálaumræðu.

Útför hans fer fram frá Áskirkju í dag, 13. apríl 2018, og hefst athöfnin kl. 13.

Við minnumst Þomma frænda okkar með hlýhug og söknuði. Hann var ávallt hress þegar hann bar að garði og hlýr þegar hann kvaddi; skemmtilegur viðræðu, öllum mönnum fróðari, áhugasamur um menn, málefni, lífið og tilveruna.

Með þessum orðum kveðjum við kæran frænda með þökk fyrir samfylgd og vináttu.

Við þökkum samfylgd á lífsins leið

þar lýsandi stjörnur skína

og birtan himneska björt og heið

hún boðar náðina sína

en alfaðir blessar hvert ævinnar skeið

og að eilífu minningu þína.

(Vigdís Einarsdóttir)

Halldóra (Dóra), Haraldur, Jóhanna og Pétur.

Þormóður Haraldsson lést laugardaginn fyrir páska eftir stutta sjúkrahúslegu. Hann hafði átt við veikindi að stríða en í hjarta sínu var hann nokkuð viss um að þau yrðu yfirstigin. En eigi má sköpum renna, eins og orðtakið segir.

Þegar Þommi – en svo var hann ætíð kallaður í fjölskyldunni – hætti að vinna fyrir aldurs sakir var hann á vissan hátt dálítið einn á báti. Sína ágætu sambýliskonu, Ágústu Jónsdóttur, hafði hann misst árið 1989, en þau höfðu búið saman hátt í þrjátíu ár.

Seinni hluta starfsævinnar vann Þommi á Álafossi þar sem hann kunni vel við sig og var ánægður. Í samráði við Þomma var ákveðið að við myndum hafa reglulegt símasamband við hann eftir að hann hætti að vinna, því að fátt segir af einum. Samtölin við hann voru skemmtileg og aldrei kom maður að tómum kofunum hjá honum þegar hvers kyns málefni bar á góma. Hann var ættfróður eins og hann átti kyn til, vissi deili á mönnum í þjóðlífinu, kunnum sem ókunnum; sagði sömuleiðis frá skemmtilegum atvikum og eftirminnilegum. Oft hugsaði maður með sjálfum sér að þetta og hitt þyrfti að skrá niður eftir honum en asi nútímans olli því að það var ógert látið.

Þommi var ótrúlega fróður um alla staðhætti á Íslandi. Það var gaman að ferðast með honum um landið hvort heldur lengri eða styttri ferðir. Við ferðuðumst með honum bæði um Vestfirði og Austurland. Hann undirbjó sig mjög vel fyrir allar ferðir og var eins og hann hefði komið þar oft áður enda þótt hann væri að koma á staðina í fyrsta sinn. Hann fylgdist alla tíð vel með þjóðmálum og öllu því sem var að gerast. Þess vegna var það honum mikil upplifun að fara með okkur að Kárahnjúkavirkjun á sínum tíma. Honum þótti stórmerkilegt að sjá þessar mestu og umdeildustu framkvæmdir í sögu Íslands.

Í sumar fór hann með okkur til Danmerkur til að vera viðstaddur skírn í fjölskyldunni, hann var langafabróðir barnsins. Honum þótti ferðin skemmtileg og notaði tækifærið til að heimsækja Boggu systur sína sem hefur búið í Danmörku hátt í sjötíu ár. Hann heimsótti hana annað hvert ár um árabil og þau töluðu saman í síma á sunnudögum árum saman.

Drjúgan hluta ævi sinnar glímdi hann við áfengissýki sem var honum fjötur um fót og olli sjálfum honum og aðstandendum hans miklum ama. En síðustu árin lifði hann reglusömu lífi þar sem allt var í nokkuð föstum skorðum. Mikilvægur liður í því var að fara í hádegismat á Vitatorgi og ræða málin við borðfélaga.

Þomma var kappsmál að mæta í síðdegiskaffi á hverjum föstudegi hjá Halldóru mágkonu sinni. Þar hitti hann allt sitt nánasta fólk og tók þátt í fjörlegum vikuloksumræðum. Hans verður saknað við það borð.

Börnum okkar og barnabörnum sýndi hann ætíð mikla ræktarsemi og hafði áhuga á öllu sem snerti unga fólkið í fjölskyldunni. Hann var í afmælum og fjölskylduboðum, frændinn sem hafði ekki hátt en fræddi þau um margt.

Guð blessi minningu Þormóðs Haraldssonar.

Sigríður Pétursdóttir,

Hreinn S. Hákonarson.