Afslöppuð Kór Langholtskirkju í kirkjunni með stjórnanda sinn, Magnús Ragnarsson, fyrir miðju.
Afslöppuð Kór Langholtskirkju í kirkjunni með stjórnanda sinn, Magnús Ragnarsson, fyrir miðju.
Messías eftir G.F. Händel verður flutt í Langholtskirkju í kvöld kl. 20 af kór kirkjunnar, hljómsveit og einsöngvurum, þeim Hallveigu Rúnarsdóttur sópran, Sigríði Ósk Kristjánsdóttur messósópran, Elmari Gilbertssyni tenór og Ágústi Ólafssyni bassa.

Messías eftir G.F. Händel verður flutt í Langholtskirkju í kvöld kl. 20 af kór kirkjunnar, hljómsveit og einsöngvurum, þeim Hallveigu Rúnarsdóttur sópran, Sigríði Ósk Kristjánsdóttur messósópran, Elmari Gilbertssyni tenór og Ágústi Ólafssyni bassa. Stjórnandi kórsins er Magnús Ragnarsson og konsertmeistari Joaquin Páll Palomares.

Þetta mikla tónverk Händels var frumflutt í Dublin árið 1742 og hefur allar götur síðan notið mikilla vinsælda enda eitt af meistaraverkum barokksins. Magnús segir að strax við annan flutning á verkinu hafi Händel gert breytingar á því til að laga það að ólíkum söngvurum. „Hann breytti einhverjum aríum, vildi hafa eina fyrir bassa í stað sópran og svoleiðis og það eru til dálítið margar útgáfur af hverri aríu,“ útskýrir hann. Stundum hafi Händel líka sett inn nýjar aríur og sleppt öðrum.

„Það er merkilegt með þetta verk að það hefur myndast sú hefð að velja á milli kafla. Við flytjum það í heild sinni en það er samt alltaf einhverjum köflum sleppt eða þá bætt við,“ segir Magnús um tónleikana í kvöld. „Þetta er í fyrsta skipti sem ég stjórna þessu en ég hef bæði sungið þetta nokkrum sinnum og æft þetta fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands tvö ár í röð og þá er aldrei sama röð, einhvern veginn, þannig að það getur verið dálítið flókið fyrir hljómsveitina.“

Þarf mikla snerpu

Magnús segir að verkið sé í miklu uppáhaldi hjá kórnum enda stórkostleg tónsmíð og afar krefjandi fyrir kór að syngja. „Það er svo mikil kólóratúr, það renna skalar upp og niður og það þarf að vera mikil snerpa,“ útskýrir hann.

En hversu mikið þurfa einsöngvararnir fjórir að syngja? „Það er misjafnt,“ svarar Magnús, „það mæðir kannski mest á altröddinni en svo eru þau hvert fyrir sig með nokkrar aríur“.

Magnús segir alla einsöngvarana þekkja tónverkið og nefnir að Hallveig sé líklega að syngja það núna í tíunda sinn. Sigríður, Ágúst og Elmar hafi líka sungið í Messías nokkrum sinnum. „Það er svo gaman þegar þetta situr vel og fólk getur farið að leika sér með smáskraut þegar við á,“ segir hann.

Aldrei að vita hvað gerist

Magnús bendir að lokum á skemmtilega staðreynd, að verkið hafi verið frumflutt þennan dag, 13. apríl, árið 1742. Og þá var líka föstudagur, merkilegt nokk, eftir því sem blaðamaður kemst næst við einfalda eftirgrennslan á netinu. Hjátrúin segir að föstudagurinn þrettándi sé óhappadagur en Magnús virðist ekki hafa miklar áhyggjur af því. „Það er samt aldrei að vita hvað gerist,“ segir hann þó kíminn. helgisnaer@mbl.is