Í austurvegi Leikmenn Arsenal fagna í Moskvu í gær.
Í austurvegi Leikmenn Arsenal fagna í Moskvu í gær. — AFP
Arsenal er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir 2:2-jafntefli á móti CSKA Moskvu á útivelli í gær. Arsenal vann fyrri leikinn 4:1 og fer því áfram með samanlögðum 6:3-sigri.

Arsenal er komið í undanúrslit Evrópudeildarinnar í fótbolta eftir 2:2-jafntefli á móti CSKA Moskvu á útivelli í gær. Arsenal vann fyrri leikinn 4:1 og fer því áfram með samanlögðum 6:3-sigri. Rússneska liðið byrjaði mun betur og komst í 2:0 með mörkum Fedors Chalovs og Kirills Nabakins, en Danny Welbeck og Aaron Ramsey sáu til þess að Arsenal vann einvígið örugglega.

„Við vorum í vandræðum í fyrri hálfleik en það gekk betur þegar við settum fimm í vörnina. Við verðum að vera einbeittir núna og sjá hvað við fáum í undanúrslitum,“ sagði Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, sem viðurkennir að hann vilji ekki fá Atlético Madrid í undanúrslitum.

„Það væri gott að losna við Atlético, því það er sterkasta liðið á pappír, en við sjáum hvað við fáum.“

Franska liðið Marseille er einnig komið áfram eftir 5:2-sigur á Leipzig frá Þýskalandi á heimavelli. Fyrri leikurinn endaði með 1:0-sigri Leipzig, en Frakkarnir voru í miklu stuði á heimavelli. Red Bull Salzburg er svo komið áfram eftir 4:1-sigur á Lazio. Lazio vann fyrri leikinn 4:2 og komst yfir á 55. mínútu. Þá tók Salzburg við sér og jafnaði fljótlega og skoraði svo þrjú mörk á fjórum mínútum um miðjan síðari hálfleikinn og fór áfram, 6:5-samanlagt. Atlético Madrid fór einnig áfram, þrátt fyrir 1:0-tap gegn Sporting á útivelli. Spánverjarnir unnu fyrri leikinn 2:0 og fara áfram með 2:1-samanlögðum sigri. johanningi@mbl.is