Sýningastjórar Þorgerður Þórhallsdóttir og Sunna Ástþórsdóttir stýra myndlistarsýningunni ásamt tveimur öðrum.
Sýningastjórar Þorgerður Þórhallsdóttir og Sunna Ástþórsdóttir stýra myndlistarsýningunni ásamt tveimur öðrum.
Sýningin Við mið // at present verður í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í dag kl. 17 og er hún samstarfsverkefni Listasafns Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands.

Sýningin Við mið // at present verður í Listasafni Sigurjóns Ólafssonar í dag kl. 17 og er hún samstarfsverkefni Listasafns Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskóla Íslands. Á henni má sjá ný verk unnin af meistaranemum í myndlist við Listaháskóla Íslands en meistaranemar í listfræði við Háskóla Íslands fara með sýningarstjórn.

Verkin eru fjölbreytt og víðfeðm og spanna ólíka efnismeðferð, að því er fram kemur í tilkynningu og eiga öll sameiginlegt að vera sköpuð sérstaklega inn í rými safnsins. Þau eru innblásin af skúlptúrverkum Sigurjóns, safninu sem tileinkað er honum og staðháttum á Laugarnesinu þar sem safnið er.

Um sýninguna segir m.a. í tilkynningu að á henni standi ekkert í stað, verkin tengist handan tungumálsins og gestum sé boðið að skyggnast inn í þá sköpun og tjáningu sem eigi sér stað í hinu efnislega. „Hér er samvinnan og hið óljósa samtal í forgrunni sem teygir anga sína bæði aftur í tímann og fram á við,“ segir í tilkynningunni og að titill sýningarinnar ávarpi þrjú stef í senn, þ.e. „við“ sem sé heildin sem við séum öll hluti af, hrærumst í og snertum; „mið“ sem sé gróska fundarstaðarins og samtalið sem skapast við það að leita á ný mið og „viðmið“ sem sé fortíðin sem lifir áfram og núið sem sé stöðugt að verða til.

Sýningarstjórar eru Ásgerður Júníusdóttir, Ragnheiður K. Sigurðardóttir, Sunna Ástþórsdóttir og Þorgerður Þórhallsdóttir.