Zuckerberg sat fyrir svörum, en þau voru sum sérkennileg

Það er skýrt núna að við gerðum ekki nóg,“ sagði Mark Zuckerberg, stofnandi og stjórnandi samfélagsmiðilsins Facebook, fyrir framan þingnefnd Bandaríkjaþings. Zuckerberg sat lengi fyrir svörum og meðal þess sem hann var spurður að var hvernig síðan nálgaðist þá ábyrgð sem fylgdi því að á henni væru geymdar persónuupplýsingar milljóna manna, en Cambridge Analytica-málið hefur leitt í ljós að þær lágu nánast á glámbekk.

Og jafnvel sú lýsing nægir ekki til þess að ná utan um það hversu skeytingarlaust fyrirtækið var um þessar upplýsingar, því að raunin á bak við starfsemi Facebook og annarra áþekkra miðla er að persónuupplýsingar þær sem notendur veita miðlunum sjálfviljugir í té, en án þess endilega að vita hvernig þær verða notaðar, verða þá þegar um leið hálfgerð eign og söluvara fyrirtækisins. Enda er raunin sú að þessir miðlar soga til sín umtalsvert magn auglýsinga, jafnt hérlendis sem erlendis.

Reynsla síðustu ára sýnir að full ástæða er fyrir fólk að gæta sín í samskiptum við slíka miðla, en um leið þarf að setja þeim skorður um meðferð persónuupplýsinga. Ekki síst er brýnt að notendur átti sig á því hvað felist í raun í því þegar þeir ákveða að skrá sig á slíkan miðil.

Fjölmargir hafa nýtt sér þessa miðla til þess að kynnast öðru fólki eða komast á ný í kynni við gamla félaga og vini sem árin höfðu skilið í sundur. Enn aðrir nota miðlana til þess að tjá sig og koma upplýsingum á framfæri. Og það er þetta hlutverk, sem Zuckerberg lagði áherslu á þegar hann var að verja sig og hlutverk Facebook.

En dökku hliðarnar eru til staðar. Algrími þau sem stjórna síðunum hafa sýnt að þau eru býsna fljót að sigta út hvaða skoðanir fólk umber og hvað það vill sjá minna af, með þeim afleiðingum að fólk nær að einangra sig furðufljótt frá þeim skoðunum sem því mislíkar. Um leið ýta samfélagsmiðlarnir óhjákvæmilega undir aukna sundrung í samfélaginu.

Og Faceboook gengur lengra, því að Zuckerberg viðurkenndi að þeir starfsmenn Facebook sem velja og hafna efni væru með vinstri slagsíðu, sem hljómar ekki vel þegar yfirlýst markmið stofnandans og stjórnandans er að tengja fólk og bæta samfélagið en ekki að einangra fólk í eigin skoðunum og einhliða áróðri.