Gríska körfuknattleiksfélagið Panathinaikos er hætt í Evrópudeild karla, Euroleague, og ætlar að snúa sér að því að keppa í mótum félagsliða á vegum FIBA, Alþjóða körfuknattleikssambandsins, frá og með næsta tímabili.

Gríska körfuknattleiksfélagið Panathinaikos er hætt í Evrópudeild karla, Euroleague, og ætlar að snúa sér að því að keppa í mótum félagsliða á vegum FIBA, Alþjóða körfuknattleikssambandsins, frá og með næsta tímabili. Þetta tilkynnti forseti félagsins, Dimitris Giannakopoulos, eftir að stjórn deildarinnar hafnaði breytingartillögum frá Panathinaikos á stjórnarfundi deildarinnar í gær.

Giannakopoulos vildi fá fram breytingar á rekstri deildarinnar en þegar ljóst var að öll hin fimmtán félögin í deildinni væru mótfallin því gekk hann á dyr.

Panathinaikos hefur verið eitt besta körfuboltalið Evrópu um árabil og hafnaði í fjórða sæti Evrópudeildarinnar í vetur. Þar er nú að hefjast úrslitakeppni átta efstu liðanna þar sem Panathinaikos mætir Real Madrid í átta liða úrslitum.

Stjórn Evrópudeildarinnar tilkynnti í gær að Bayern München frá Þýskalandi hefði fengið tveggja ára keppnisrétt í deildinni frá haustinu 2019, og unnið væri að því að ASVEL Villeurbanne frá Frakklandi myndi einnig koma inn í deildina á sama tíma.

Evrópudeildin er sérstakt fyrirtæki í eigu aðildarfélaganna sem rekið er í óþökk Alþjóða körfuknattleikssambandsins. FIBA Europe hefur komið á fót sinni eigin Meistaradeild en þar er 8-liða úrslitum lokið og undanúrslit eru í byrjun maí. vs@mbl.is