Víkverja þykir einkennilegur þessi hnífstungufaraldur sem geisað hefur í London á árinu. Víkverji las um þessa óöld í SunnudagsMogganum þar sem ein helsta skrautfjöður Árvakurs, Orri Páll Ormarsson, tók saman ýmsar staðreyndir varðandi málið.

Víkverja þykir einkennilegur þessi hnífstungufaraldur sem geisað hefur í London á árinu. Víkverji las um þessa óöld í SunnudagsMogganum þar sem ein helsta skrautfjöður Árvakurs, Orri Páll Ormarsson, tók saman ýmsar staðreyndir varðandi málið.

Þar kom til dæmis fram að í marsmánuði einum hefðu tuttugu og tveir látist af stungusárum í London. Þar er aðeins verið að ræða um eina borg, einn mánuð og einungis þá sem létust. Gera má ráð fyrir því að fleiri hafi orðið fyrir hnífstungum en sloppið lifandi. Í greininni var bent á að fjöldi þeirra sem myrtir voru í New York í mars var tuttugu og einn.

Hverju sem lögum um skotvopnaeign hjá ríkjum heimsins líður þá er ljóst að mannskepnan finnur leiðir til að drepa og meiða með ýmsum hætti. Ofbeldið og grimmdin hjá þessari tegund sem á að vera sæmilega þróuð er illskiljanleg, nú sem fyrr.

Í sama blað skrifaði umsjónarmaðurinn, Eyrún Magnúsdóttir, pistil þar sem hún benti á að ekki væri boðið upp á almenningssamgöngur við aðstöðu allra íþróttafélaga í borginni. Nefndi hún Valssvæðið á Hlíðarenda sem dæmi.

Hún bendir á að hjá Strætó gleymist þarfir barna og unglinga. Hópar sem einmitt þurfa gjarnan á slíkum samgöngum að halda enda ekki á bílprófsaldri.

Á dögunum kom Víkverji einmitt inn á tímann sem fer í skutlið hjá foreldrum varðandi íþrótta- og tómstundaiðkun barna sinna. Kjörnir fulltrúar á höfuðborgarsvæðinu ættu að geta ráðið við að hafa almenningssamgöngur sem valkost fyrir börn og unglinga. Með minna skutli minnkar umferðaþunginn eins og Eyrún nefnir í pistlinum.