Steinunn Marinósdóttir fæddist á Reyðarfirði 16. júní 1948. Hún lést á heimili sínu í Garðabæ 5. apríl 2018.

Steinunn var dóttir hjónanna Marinós Ó. Sigurbjörnssonar, verslunarstjóra og fulltrúa hjá Kaupfélagi Héraðsbúa á Reyðarfirði, f. 3. mars 1923 á Læknisstöðum á Langanesi, d. 11. júlí 2012, og Margrétar S. Einarsdóttur, húsfreyju og starfsmanns leikskólans á Reyðarfirði, f. 4. maí 1929 á Reyðarfirði. Systkini Steinunnar eru: Einar, f. 1951, d. 2016, var kvæntur Ólafíu Katrínu Kristjánsdóttur; Sigurbjörn, f. 1956, kvæntur Sigríði S. Ólafsdóttur; Marinó Már, f. 1959, sambýliskona hans er Sigríður Lísa Geirsdóttir; Guðný Soffía, f. 1961, gift Haraldi Kristófer Haraldssyni; og Gauti Arnar, f. 1967, kvæntur Huldu Sverrisdóttur.

Steinunn giftist Sigurði Viðari Benjamínssyni rannsóknarlögreglumanni, f. 1945 á Reyðarfirði. Hann er sonur hjónanna Benjamíns Hreiðars Jónssonar rafvirkjameistara, f. 1918, d. 1983 og Birnu Guðlaugar Björnsdóttur húsfreyju, f. 1923, d. 1976. Börn Steinunnar og Sigurðar eru: 1) Þórir Marinó, f. 23. apríl 1968, deildarstjóri hjá Öryggismiðstöð Íslands, börn Þóris eru a) Brynja Lísa, f. 15.janúar 1996, dóttir hennar er Ísabella Sól Davíðsdóttir, f. 9. desember 2016, og b) Sigurður Ingvar, f. 12. ágúst 2009. 2) Einar Björn, f. 21. júní 1969, öryggisvörður hjá Öryggismiðstöð Íslands.

Steinunn ólst upp á Reyðarfirði og lauk sínum barnaskóla þar. Hún lauk gagnfræðaprófi á Akureyri, stundaði síðar nám í kvöldskóla MH og á rekstrarnámskeiðum við Háskólann á Bifröst.

Steinunn vann ýmis störf, lengst af hjá Flugfélagi Íslands og Icelandair.

Útför Steinunnar fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 13. apríl 2018, og hefst athöfnin klukkan 15.

Gleði, dugnaður, hjálpsemi og umhyggja eru orð sem eiga vel við systur mína, hún var stóra systir og elst í systkinahópnum. Hún flutti ung frá Reyðarfirði og var því tilhlökkunin mikil að fá hana í heimsókn eða að heimsækja hana til borgarinnar. Þegar ég fór í framhaldsskóla bjó ég hjá Sigga, Steinunni og strákunum þeirra í tvö ár og var það mjög lærdómsríkur tími fyrir mig að fá að eyða meiri tíma með Steinunni og fjölskyldu hennar en áður.

Þá kynntist ég vel þeim eiginleikum hennar að hugsa vel um sína, leiðbeina og veita ást og umhyggju.

Þegar kom að fyrstu skólaárshátíðinni vantaði stað fyrir bekkinn minn til þess að hittast og borða saman. Þá var Steinunn fljót að bjóða fram heimili þeirra Sigga og sáu þau að mestu um allan undirbúning.

Þannig var líf hennar allt fram á síðasta dag að hún hafði áhuga og bar umhyggju fyrir öllum. Þegar ég svo eignaðist mína eigin fjölskyldu og börn var hún strax stór hluti af lífi þeirra. „Frænka“ eins og börnin mín kölluðu hana var alltaf tilbúin að hjálpa til og sjá um þau. Margt var brallað, bakstur, sláturgerð, sumarbústaðaferðir og ferð til Kaupmannahafnar í jólatívolí. Stundum var bara farið á rúntinn eins og í gamla daga, mannlífið skoðað, spjallað og hlegið.

Símtöl nær daglega þar sem hún spurði alltaf um börnin mín því hún vildi fylgjast með þeim og var jafn stolt af þeim eins og við foreldrarnir. Ég verð ævinlega þakklát fyrir hjálp hennar og stuðning í gegnum tíðina og ég tala nú ekki um þá hluti sem ég lærði í samskiptum við hana. Ég gleymi því aldrei þegar vantaði aðstoð á Rey Cup þá komu Steinunn og Siggi og gengu í þau verk sem þurfti að vinna og seinna spurði samstarfsfólk mitt oft hvort ég ætti ekki fleiri ættingja eins og þau, slík var hjálpsemin og dugnaðurinn sem þau sýndu. Steinunn sá ekki sólina fyrir barnabörnum sínum, Brynju Lísu og Sigurði Ingvari og ekki var gleðin minni að verða langamma þegar Ísabella fæddist.

Þegar Steinunn veiktist stóð hún sig eins og hetja og sýndi mikið æðruleysi er hún barðist fram á síðasta dag gegn þessum illvíga sjúkdómi. Ég fékk að vera mikið með systur minni síðustu vikurnar í hennar lífi, fylgjast með hugrekki hennar og bjartsýni og þeirri miklu baráttu sem hún háði.

Aldrei var langt í húmorinn og gat hún séð spaugilegar hliðar á lífinu þrátt fyrir erfiða tíma. Það er undarlegt til þess að hugsa að tvö elstu systkinin séu farin frá okkur á svo stuttum tíma. Systir mín var ótrúleg manneskja og hennar verður sárt saknað.

Takk fyrir allar samverustundirnar elsku systir, ég trúi að þú sért nú í góðum félagsskap með pabba og Einari bróður.

Elsku Siggi og fjölskylda, missir ykkar er mikill. Hugur okkar Offa og fjölskyldu okkar er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum og í sameiningu munum við takast á við sorgina og halda minningu elsku Steinunnar á lofti.

Kveðja,

Guðný Soffía.

Í dag kveðjum við elskulega systur og mágkonu Steinunni Marinósdóttur, eða Steinu eins og hún var svo oft kölluð. Það er mikil sorg innra með okkur á þessari stundu en um leið mikið þakklæti fyrir allan þann góða tíma sem við áttum saman. Ómetanlegar minningar sem safnast hafa saman í gegnum tíðina eru dýrmætar og verða ekki teknar frá okkur.

Steinunn, sem var elst okkar systkina, var alveg einstök manneskja. Hún var sífellt að hugsa um ættingjana og velferð annarra, alltaf boðin og búin til að rétta öðrum hjálparhönd. Réttlætiskennd hennar var mikil og væntumþykja í garð annarra óendanleg og gleymdi hún þá gjarnan sjálfri sér.

Eftir að hún flutti suður til Reykjavíkur frá æskuslóðunum á Reyðarfirði áttum við fjölskyldan alltaf öruggt skjól hjá henni og Sigga þegar við áttum leið til höfuðborgarinnar til skemmri eða lengri tíma.

Unga fólkið í fjölskyldunni hafði sérstakt dálæti á Steinu frænku, eins og þau gjarnan kölluðu hana, enda snerist hún eins og skopparakringla í kringum þau og lét allt eftir þeim í góðmennsku sinni og gjafmildi.

Þrátt fyrir að langt væri á milli okkar landfræðilega og heimsóknirnar færri en við hefðum viljað á þessari stundu voru símtölin mörg og skemmtileg. Við erum mjög þakklát fyrir það að hafa hitt Steinu núna fyrir nokkrum dögum, glaða og gamansama þrátt fyrir þessi miklu og erfiðu veikindi sem hún glímdi við síðustu mánuði og vitandi að hverju stefndi.

Það var svo líkt henni þegar við kvöddumst í síðasta skipti að hún hafði áhyggjur af hinum og þessum og við þyrftum að hlúa vel að þeim þegar hennar nyti ekki lengur við.

Með fráfalli Steinunnar hefur myndast skarð sem skilur eftir sig mikið tómarúm og söknuð hjá öllum ættingjum og vinum.

Elsku Siggi, Þórir Marinó, Einar Björn, móðir, systkini og allir aðrir ættingjar.

Innilegar samúðarkveðjur.

Sigríður og Sigurbjörn.

Of fljótt er dagur að kvöldi kominn. Þannig líður mér þessa stundina þegar ég kveð Steinunni systur mína.

Það var skammt á milli stórra högga en við misstum Einar, ástkæran bróður okkar, fyrir rúmu ári síðan og núna kveðjum við Steinunni.

Mig langar að minnast Steinunnar með þakklæti fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman.

Það má segja að hennar viðhorf til lífsins hafi ávallt verið að líta björtum augum á lífið og gera alltaf gott úr öllu.

Þegar ég kveð hana þá streyma fram minningar. Minningar bæði úr æsku og til dagsins í dag.

Steinunn var yndisleg systir og vildi allt fyrir okkur að gera og var alltaf boðin og búin að hjálpa öðrum. Greiðvikin í alla staði.

Það var mikið ævintýri fyrir ungan dreng að koma til Reykjavíkur í fyrsta sinn og gista heima hjá Steinu og Sigga vestur á Hjarðarhaga og fara í alla leiðangrana um borgina. Þannig var það svo áfram þegar þau bjuggu síðar í Unufelli og í Hvassaleiti þar sem ég átti alltaf samastað þegar ég kom suður.

Steinunni var alltaf kát og glöð en gat verið föst fyrir þó svo að stutt væri í léttleikann.

Síðustu dagarnir sem ég átti með Steinu verða mér mjög dýrmætir. Það var gott að geta spjallað saman í ró og næði um stórfjölskylduna og framtíðina þó svo að hún gerði sér grein fyrir stöðunni þá stundina en henni var mjög umhugað um að öllum gengi vel í lífsins amstri. Þannig var Steinunn.

Á þessari kveðjustund þökkum við þér, elsku Steinunn, fyrir allt sem þú gafst okkur. Við verðum þér ávallt þakklát fyrir alla þá umhyggju sem þú ætíð sýndir okkur og þær mörgu gleðistundir sem þú færðir okkur.

Hver minning dýrmæt perla að liðnum lífsins degi,

hin ljúfu og góðu kynni af alhug þakka hér.

Þinn kærleikur í verki var gjöf, sem gleymist eigi,

og gæfa var það öllum, er fengu að kynnast þér.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Þessum fátæklegu orðum skal lokið með innilegu þakklæti fyrir samferðina og við Lísa og börn sendum Sigga, Þóri Marinó, Einari Birni, barnabörnum og elsku mömmu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Marinó Már.

Í dag fylgi ég föðursystur minni síðasta spölinn. Skrefin eru þung þó svo að ég reyni að halda í það góða sem lífið gaf mér. Þegar ég heimsótti Steinu nokkrum dögum fyrir andlát sagði hún við mig að taka það ekki nærri mér þótt hún færi, hún yrði eins og vitleysingur í kringum mig. Þetta var henni líkt. Ávallt að hugsa um aðra en hafði minni áhyggjur af sjálfri sér. Þó svo að það eina sem við vitum fyrir víst í þessu lífi er að við sleppum ekki lifandi frá því, þá er höggið þungt þegar þeir sem við elskum kveðja.

Steina frænka var Reykjavíkur mamma mín og góð vinkona. Frá því að ég var lítil þá var heimili Steinu og Sigga okkar fasti punktur í höfuðborginni. Við systur bjuggum svo í Hvassaleitinu hjá Steinu og fjölskyldu þegar við héldum til náms í borginni fyrst fyrir rúmum 20 árum síðan. Þar var vel hugsað um okkur og þar leið mér vel. Steina gerði oft grín að mér og spurði hvort ég væri á skemmtanabraut því ég var mjög upptekin af því að gera flest annað en að lesa bækur. Þegar ég varð svo eldri og kom í bæjarferðir þá var gott að koma í Ásbúðina til Steinu og Sigga og var það nú vanalega mitt fyrsta stopp eftir lendingu. Hjá þeim var minn gististaður og skjól. Alltaf voru þau boðin og búin að taka á móti mér og mínum, alveg sama hvað. Seinna, þegar ég var búsett í í bænum, þá renndi ég gjarnan við í kaffi og spjall, sjónvarpsgláp, hraut í sófanum og lét mér líða vel.

Synir mínir hændust að Steinu fræknu og báðu oftar en ekki um að fá að kíkja til hennar og helst að vera þar eftir þegar kom að heimferð. Það er nú reyndar ekkert undarlegt því Steina elskaði börn og stjanaði við þau eins og konungborin þau væru. Reyndar var hún þannig við alla sem komu á heimilið. Krásirnar tættar fram og helst tíu tegundir af öllu því sem sett var á borðið. Gjafmild, gestrisin, hjarthlý, fórnfús og traust eru örfá orð af mörgum sem lýsa Steinu sem best.

Söknuðurinn minn er mikill en í sorginni er gott er að ylja sér við góðar minningar og þakka fyrir liðnar stundir.

Með þessum fátæklegu orðum kveð ég kæra frænku og vinkonu sem gaf mér og mínum svo gríðarlega mikið. Sendi hlýjar kveðjur til allra minna í Sumarlandinu.

Allt hið liðna er ljúft að geyma,

– láta sig í vöku dreyma.

Sólskinsdögum síst má gleyma,

– segðu engum manni hitt!

Vorið kemur heimur hlýnar,

hjartað mitt!

(Jóhannes úr Kötlum)

Alma Sigurbjörnsdóttir.

Á örskotsstund hefur tilveran breyst. Aftur hefur dauðinn barið á dyrnar hjá fjölskyldu okkar. Annar farinn til Sumarlandsins. Nú var það Steinunn mágkona mín, systir Einars míns, sem var kallaður til Sumarlandsins fyrir ekki svo löngu og við erum enn döpur. Margrét tengdamóðir mín sér nú á eftir öðru barni sínu. Það er þung byrði.

Steinunn var frænka barnanna minna og barnabarna, frænka allra barna í þessari fjölmennu, líflegu, skemmtilegu fjölskyldu sem hefur alltaf haft gaman af því að vera saman, borða saman, skemmta sér saman. Allir saman, börn og barnabörn líka. Steinunn var Frænka með stóru F-i. Hún elskaði börn og þau hændust að henni. En Steinunn var fyrst og fremst móðir tveggja sona, amma tveggja barna og langamma litlu Ísabellu. Hún dekraði við barnabörn sín og langömmubarnið veitti henni ómælda gleði.

Steinunni var gestrisni í blóð borin og heimili þeirra Sigga stóð öllum opið. Flest systkina hennar, fimm talsins, bjuggu hjá þeim á einhverjum tímapunkti þegar þau fóru að tínast suður í nám. Ættingjar að austan sem áttu leið í bæinn komu við hjá Steinunni og Sigga, alltaf voru heimabakaðar kökur á borðum, matur fyrir alla og vel það.

Steinunn var glaðlynd og hjálpleg, hún vildi allt fyrir alla gera og rétti öllum hjálparhönd.

Við munum öll sakna Steinunnar. Heimurinn er fátækari án hennar og tilveran tómlegri, lífið er fátækara án góðvildar hennar, við erum ráðþrota án hjálpsemi hennar, þögnin er þrúgandi án hláturs hennar. Allt er dapurt án jákvæðni hennar.

Hún hafði sigurviljann og bjartsýnina að vopni en það dugði ekki til.

Elsku Siggi, Þórir, Einar, Brynja Lísa, Sigurður Ingvar og litla Ísabella, og Margrét sem nú sér á eftir dóttur sinni, ég treysti því að þið finnið styrk til að yfirvinna þá miklu sorg sem fyllir hjörtu ykkar.

„Sorgin er nú djúp minning sem aldrei hverfur og við viljum ekki láta af hendi. Hún er hluti af okkur, því hún, ásamt huggun, mun fylla skarð þess sem við misstum. Við erum líka það sem við glötum“

„Og ef tárin taka að streyma brýst fram sól á bláum himni – og býr til regnboga.“

(Gunnar Hersveinn)

Hjartans þakkir fyrir samfylgdina, þín mágkona,

Ólafía Katrín.

Elsku frænka er látin. Mikið skarð er höggvið í fjölskylduna, aftur á stuttum tíma. Við erum því miður reynslunni ríkari en það gerir þetta sannarlega ekki auðveldara. Eftir situr stórfjölskylda sem reynir að átta sig á lífinu.

Elsku amma. Eiginmaður, synir, barnabörnin og langömmustelpan. Fjögur systkini Steinunnar sem fyrir svo stuttu síðan voru sex. Afkomendurnir eru margir og því erum við mörg sem grátum Steinunni, eða Frænku eins og hún var alltaf kölluð af öllum börnum í fjölskyldunni. Steinunn varð frænka mín þegar ég var orðin nokkuð stálpuð. Það lýsir henni vel að þegar ég var eitt sinn í pössun hjá Guðnýju systur hennar þegar foreldrar mínir voru á ferðalagi þá settist hún niður hjá mér um 10 ára gamalli og lét mig læra símanúmerið sitt. Þegar ég gat þulið það upp þá sagði hún mér að gleyma því aldrei og að alveg saman hvað gengi á hjá mér þá gæti ég alltaf hringt í hana. Ég man númerið ennþá.

Það er erfitt að átta sig á lífinu þegar fólki sem maður elskar er kippt út úr því. Allt í einu verður tilveran tómleg og heimurinn ósanngjarn. Það er auðvelt að reiðast og það tekur á að halda áfram og sættast við staðreyndir. Þá er svo gott að eiga dásamlegar minningar og þær vantar nú ekki í þessari fjölskyldu.

Þegar ég hugsa um Steinunni þá heyri ég hláturinn hennar, ég sé hana fyrir mér brosandi út að eyrum. Ég finn bragðið af jólakökunum hennar. Ég heyri í henni býsnast yfir lögunum í Júróvisjón en þær horfðum við alltaf á saman ásamt stórfjölskyldunni. Ég verð þakklát, ævinlega þakklát fyrir hana. Þakklát henni fyrir að hafa verið frænka mín.

Hvíldu í friði, elsku Steinunn.

Sigríður Björk Einarsdóttir.

Ótal minningar á ég um yndislega frænku mína sem nú hefur kvatt þennan heim. Minningar um frænku sem alla tíð sýndi mér ómælda ást og athygli. Frænku sem alltaf var til staðar og allir velkomnir á hlýja heimilið hennar hvort sem í Ásbúð eða í Hvassaleiti. Ég mun sakna þess að heimsækja hana óvænt með mömmu, við mættum bara í kaffi og vorum aldrei að trufla og okkar biðu endalausar kræsingar í hvert einasta skipti og alltaf stóð hún í dyrunum og kvaddi þegar við fórum. Þegar ég var barn var hún alltaf til staðar og hún var einn af föstu punktunum í lífinu. Hún hringdi alltaf heim og það skipti ekki máli hver svaraði því hún vildi heyra í fjölskyldunni og spurði mann spjörunum úr. Hún var svo mikil fjölskyldukona og átti mikla ást til að gefa. Hún passaði Ólíver fyrir mig alltaf ef ég þurfti og ef henni fannst langt síðan ég kom í heimsókn sagði hún „Elfur, þú veist hvar ég á heima“. Með því minnti hún mig á að koma. Gjafmild var hún alltaf og gaf mér skemmtilega hluti, skrítinn upptakara, listaglös, mohijto-prik og múmínbolla, allt hluti sem hafa alltaf minnt mig á hana og munu gera enn meira núna. Þessi góða, brosmilda og mér ástkæra kona mun alltaf vera í minningunni og ég sendi henni þakklæti og ást fyrir allt sem hún gaf af sér, til mín og annarra.

Kveðja

Elfur.

Þegar ég hugsa um frænku koma ótal minningar upp í hugann. Frænka var alveg einstök, frænka með stóru F-i hjá allri fjölskyldunni.

Hún var alltaf svo áhugasöm um öll frænkubörnin sín og fylgdist vel með því hvernig gengi og hvað við værum að gera.

Síðustu ár þegar ég og mín fjölskylda bjuggum erlendis og komum í stuttar heimsóknir til Íslands, þá var frænka alltaf mætt um leið að knúsa okkur.

Ég man vel eftir því þegar við vorum yngri og fjölskyldan ætlaði í smá bíltúr. Þá krossaði maður fingur og vonaði að leiðin lægi til frænku og Sigga í Hvassaleitið.

Það var líka mikið sport að heimsækja frænku í vinnunna á flugvöllinn og ósjaldan fórum við systur í Kolaportið eða á kaffihús með mömmu og frænku, sem var alger toppur.

Frænka var alltaf svo jákvæð, kát og hjálpsöm og voru allir velkomnir til hennar og Sigga hvort sem það var í kaffi eða til lengri dvalar. Alltaf tók hún á móti fólki opnum örmum. Frænka var mikill húmoristi og ég sé hana alveg fyrir mér segja skellihlæjandi söguna af Guðmundi. Þessi Guðmundur var ég lítil, þegar Siggi fór með mig í klippingu og kom með mig til baka með vel klipptan drengjakoll af því ég hafði aðspurð sagt rakaranum að ég héti Guðmundur. Frænka sagði þessa sögu oft og hló jafn innilega í hvert skipti.

Nýleg og kær minning um frænku er þegar ég, Elfa og Skírnir komum í heimsókn í Ásbúð. Frænka bað Sigga að kaupa uppáhaldskökuna mína og gaf Elfu nýja ævintýrabók. Svona stjanaði hún alltaf við okkur. Elfa knúsaði frænku í bak og fyrir og vildi bara kúra hjá henni í sófanum sem frænka kunni vel að meta. Bókina höfum við lesið hvert einasta kvöld síðan og þá verður manni hugsað til frænku.

Söknuðurinn er sár, elsku frænka, en ég er þakklát fyrir allar góðu minningarnar sem við eigum um þig

Kveðja,

Arna.

Þegar mikilvægar manneskjur hverfa á vit feðra sinna og mæðra virðist mér lífið sjálft tapa svolitlu af litadýrð sinni og fegurð. Frænka var ein af þessum manneskjum sem lituðu mína veröld með skærum fallegum litum.

Frænka var ríkulega gædd hæfileikum og eiginleikum sem fjölskylda hennar öll fékk að njóta. Hún var glaðlynd, góðhjörtuð og hafði alltaf tíma fyrir fólkið sitt. Hún sýndi mér ávallt einlæga væntumþykju og hafði áhuga á öllu því sem ég tók mér fyrir hendur.

Frænka var höfðingi heim að sækja, bauð alltaf upp á eitthvað gott með kaffinu – oft nýbakaða jólaköku eða hjónabandssælu. Heimsóknirnar urðu líka oftast langar því við höfðum svo margt að ræða.

Eitt er víst, að við fáum mismikinn tíma á þessari jörð. Elsku frænka mín hefur kvatt þetta jarðlíf nú þegar farfuglarnir tínast til landsins með boð um bjartari daga. Ég bið því vorboðann ljúfa fyrir kveðju til frænku.

Vorboðinn ljúfi, fuglinn trúr, sem fer

með fjaðrabliki háa vegaleysu

í sumardal, að kveða kvæðin þín,

heilsaðu einkum, ef að fyrir ber

engil, með húfu og rauðan skúf, í peysu;

þröstur minn góður, það er stúlkan mín.

(Jónas Hallgrímsson)

Elsku frænka, takk fyrir allt og allt – ég mun sakna þín alltaf.

Þín bróðurdóttir,

Margrét Soffía Einarsdóttir.

Í dag kveðjum við kæra vinkonu, Steinunni Marinósdóttur, eða Steinu eins og við kölluðum hana. Við fimm kynntumst og unnum saman á innanlandsflugi Flugleiða fyrir rúmum 30 árum og höfum haldið hópinn síðan. Við unnum mislengi saman og engin okkar vinnur þar nú, en þar myndaðist vinátta okkar sem hefur haldist síðan.

Okkur finnst skemmtilegt að fara í ferðalög saman og við höfum ekki tölu á því hvað við höfum farið í margar utanlandsferðir. Að vinna fyrir flugfélag gerði okkur kleift að komast í ferðalög á góðum kjörum og það nýttum við okkur óspart. Eftir að því tímabili lauk fundum við aðrar leiðir til að komast út í heim á hagstæðum kjörum.

Við lentum í ótrúlegustu ævintýrum á þessum ferðalögum okkar og þreyttumst ekki á að hittast á milli ferða og rifja þau upp og hlæja út í eitt. Það var af nógu að taka. Stundum gátu liðið mánuðir og einstaka ár á milli þess að við hittumst en það skipti engu máli því það var alltaf eins og við hefðum hist í gær. Vinátta okkar hefur verið góð og samskipti einkennst af væntumþykju og gleði.

Steina var skemmtilegur félagi og hafði smitandi hlátur. Hún hafði ríka frásagnargáfu og átti til að krydda örlítið frásagnir sínar til að gera þær meira spennandi. Hún hafði líka gaman af að segja frá og hló þá gjarnan svo mikið sjálf að hún mátti vart mæla. Hún hafði notalega nærveru, var létt í lund og alltaf til í ný ævintýri. Hún vann lengst af í fjölbreyttum störfum tengdum ferðaþjónustu þar sem hæfileikar hennar nýttust vel.

Steina var mikil fjölskyldukona. Henni var annt um allt sitt fólk, lagði sig fram um að hlúa að þeim og gera þeim gott. Hún átti stóra fjölskyldu, eiginmann, syni og barnabörn og eitt langömmubarn. Við vottum þeim öllum, systkinum hennar og móður dýpstu samúð.

Nú hefur Steina kvatt eftir erfið veikindi. Það eru ekki nema rúmir fjórir mánuðir síðan við vinkonurnar vorum í síðustu ferðinni okkar saman. Steina var þá orðin veik, en ekki vonlaus um að sigrast á þessum ófögnuði. Við fórum til Chicago en þangað höfðum við ekki farið saman áður. Hún stóð sig eins og hetja, tók þátt í öllu og kvartaði aldrei þó svo að engum hefði dulist að hún væri að heyja erfiða baráttu. Við vinkonur hennar í frúarfélaginu eigum eftir að sakna hennar sárt; glettna bliksins í fallegu augunum hennar, dillandi hlátursins, velviljans og væntumþykjunnar sem hún bar til okkar.

Við kveðjum hana með miklum trega í dag en við geymum minningarnar um hana í hjarta okkar því hún var, er og verður í okkar liði.

Anna Jóna, Bára,

Halla og Gréta.

Það leita á hugann leifturmyndir liðins tíma þar sem þær ljúfustu ljóma skærast. Svo fór mér er ég fregnaði andlát mannkostakonunnar Steinunnar Marinósdóttur. Andlát hennar kom ekki á óvart, en aðdáunarrík barátta hennar var slík allt fram til hinztu stundar að enn vonaði maður að sláttumaðurinn slyngi hikaði um stund við. En vágesturinn grimmi hrifsaði bróður hennar fyrir skömmu og mikið er á Margréti móður þeirra lagt að horfa þannig upp á sína kæru afkomendur hverfa yfir móðuna miklu. Henni eru einlægar samúðarkveðjur sendar. En að svo mörgum er sannur harmur kveðinn við fráfall hennar Steinunnar, svo dýrmæt sem hún var sínum nánustu.

Minningamynd ein verður þetta, svo mæt sem hún þó er. Þegar ég kom til kennslu heima á Reyðarfirði voru þau yngstu mér hugstæðust allra. Þar var að hefja nám lítil hnyðra, einstaklega falleg og prúð og fljótt kom hennar gjöfula greind og hinar góðu námsgáfur í ljós. En ofar öllu í minningunni er bjart bros hennar og smitandi hlátur, öll hennar framkoma sýndi vel hennar ljúflyndu eiginleika, enda varð námsdvölin hennar heima gjöful henni, samnemendunum og ekki sízt kennaranum unga sem naut kennslunnar bezt þegar slíkir afbragðsnemendur áttu í hlut. Eðliskostina átti hún ekki langt að sækja, foreldrar hennar mikið ágætisfólk góðra og traustra eiginleika.

Hún reyndist enda traust í öllum sínum lífsferli og mikilli önn, heimili hennar mun hafa borið þess fallegt vitni hversu góð húsmóðir hún var og hversu hún var góður og fórnfús uppalandi í hvívetna.

Gamli kennarinn hennar fyrstu árin man vel þetta hlýja bros hennar, kurteisina og námsgáfuna, að allt sem hún gerði var einlægni vafið og hiklaust segi ég að hún hafi verið slíkur nemandi sem allir kennarar óska sér allra helzt.

Sigurði manni hennar og sonum svo og öllu hennar góða fólki sendum við Hanna samúðarkveðjur. Þau öll hafa svo mikils misst. Megi minningin um sanna sæmdarkonu verma og veita birtu á veginn fram á við. Blessuð sé hin kæra minning Steinunnar Marinósdóttur.

Helgi Seljan.