[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2020 Kristján Jónsson kris@mbl.is Ísland á alla möguleika á því að komast í lokakeppni Evrópumóts karla í handknattleik árið 2020. Dregið var í riðla fyrir undankeppnina í gær og verður Ísland með Makedóníu, Grikklandi og Tyrklandi í riðli.

EM 2020

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Ísland á alla möguleika á því að komast í lokakeppni Evrópumóts karla í handknattleik árið 2020. Dregið var í riðla fyrir undankeppnina í gær og verður Ísland með Makedóníu, Grikklandi og Tyrklandi í riðli. Lokakeppnin verður nú stækkuð og liðum fjölgað í tuttugu og fjögur. Af þeim sökum komast tvö lið beint í lokakeppnina og liðið í þriðja sæti gæti einnig átt möguleika á að komast áfram. Íslenska landsliðið er því vægast sagt líklegt til að leika á EM árið 2020 líkt og liðið hefur gert síðustu tíu skipti.

Af þessum þremur liðum þekkja landsliðsmennirnir lið Makedóníu langbest. Íslendingar hafa margsinnis leikið gegn Makedóníu á þessari öld og voru liðin til að mynda saman í riðli í undankeppninni fyrir EM í Króatíu sem fram fór í janúar. Makedónía hafði betur í Skopje 30:25 en Ísland sigraði 30:29 í Laugardalshöllinni

Makedónar hafa löngum verið sterkir á heimavelli og þar myndaðist gjarnan skrautleg stemning á árum áður. Á síðari árum hafa viðurlög við skrílslátum verið hert verulega í handboltanum og ekki eins erfitt að sækja liðið heim í mikilvægum landsleikjum og áður.

Handboltinn nýtur vinsælda í Makedóníu og bestu leikmenn landsliðsins eru þjóðþekktir. Liðið hafnaði í 11. sæti í Króatíu í janúar en þar vann liðið tvo af sex leikjum sínum, gerði eitt jafntefli og tapaði þremur. Makedónar undirstrikuðu metnað sinn með ráðningu Spánverjans Rauls Gonzalez sem landsliðsþjálfara í fyrra. Hann stendur framarlega í faginu og gerði Vardar að Evrópumeisturum í fyrra og mun í sumar taka við stórliði PSG.

Aldrei mætt Tyrklandi

Íslenska karlalandsliðið hefur aldrei áður mætt Tyrklandi í landsleik í handbolta. Þar af leiðandi verður nýr kafli skrifaður í sögu HSÍ í næstu undankeppni.

Tyrkir komust inn í undankeppnina í gegnum forkeppni. Þar valtaði liðið yfir Albaníu 54:12 en vann einnig Írland, Georgíu og Kýpur. Naumasti sigurinn var gegn Kýpur en þar munaði þremur mörkum. Tyrkland og Færeyjar spiluðu úrslitaleik í forkeppninni og þar höfðu Færeyingar betur. Ef til vill gefur það Íslendingum einhverja mynd af styrkleika Tyrkja. Færeyingar standa Íslendingum talsvert að baki en eru heldur ekki neinir byrjendur í handbolta.

Jafntefli gegn Grikkjum

Karlalandsliðið hefur þrívegis mætt Grikklandi í opinberum landsleikjum í handbolta. Merkilegt nokk. Einu sinni áður hafa þjóðirnar verið saman í riðli í undankeppni og var það fyrir HM í Japan 1997. Ísland sigraði með ellefu marka mun á Akureyri 32:21 en þremur dögum síðar urðu óvænt tíðindi í Aþenu þegar liðin gerðu jafntefli 20:20.

Ísland hefur einu sinni mætt Grikklandi undir stjórn núverandi landsliðsþjálfara, Guðmundar Guðmundssonar. Var það árið 2002 en íslenska liðið fór þá í æfingaferð til Grikklands og var þá einmitt á leið til Makedóníu. Íslendingar spiluðu tvívegis við Grikki í Kolindros en einungis annar leikurinn var opinber landsleikur. Ísland hafði þar betur 28:25.

Grikkir voru þá farnir af stað í undirbúning fyrir Ólympíuleikana 2004 þar sem þeir voru gestgjafar. Þar tókst karlaliði þjóðarinnar í handbolta vel upp og komst í 8-liða úrslitin en tapaði þar 33:27 fyrir Króatíu sem fór alla leið og vann gullverðlaun á leikunum. Liðið varð í 6. sæti rétt eins og á HM í Túnis ári síðar en aldrei hefur liðið komist í lokakeppni EM.

Milliríkjadeilur

Fyrir stjórnmálafræðinga er forvitnilegt að sjá með hvaða þjóðum Ísland er í riðli að þessu sinni. Samskipti Grikkja við bæði Tyrki og Makedóna eru stirð svo ekki sé fastar að orði kveðið.

Grískir og tyrkneskir íbúar á Kýpur hafa átt í deilum um áratuga skeið og var landinu skipt upp árið 1974. Kýpur-Grikkir og Kýpur-Tyrkir stjórna hvorir sínum hlutanum.

Grikkir hafa einnig átt í deilum við Makedóníu og snúast þær aðallega um nafn ríkisins Makedóníu. Eftir að ríkið öðlaðist sjálfstæði eftir upplausn Júgóslavíu neituðu Grikkir að viðurkenna nafnið þar sem þegar væri til hérað í Grikklandi sem héti Makedónía. Síðast í febrúar á þessu ári voru fjöldamótmæli í Grikklandi vegna nafnsins og mættu þar fleiri en búa í Reykjavík. Síðast í fyrra sauð upp úr í leik á milli Grikklands og Makedóníu í landsleik U-17 ára. Grikkir gengu af velli og voru sektaðir fyrir.