Vigfús Ólafsson fæddist á Raufarfelli undir Eyjafjöllum 13.4. 1918. Foreldrar hans voru Ólafur Gísli Vigfússon, skipstjóri í Vestmannaeyjum, og k.h., Kristín Jónsdóttir.

Vigfús Ólafsson fæddist á Raufarfelli undir Eyjafjöllum 13.4. 1918. Foreldrar hans voru Ólafur Gísli Vigfússon, skipstjóri í Vestmannaeyjum, og k.h., Kristín Jónsdóttir.

Ólafur Gísli var sonur Vigfúsar Jónssonar, bónda á Raufarfelli, og Kristínar Brandsdóttur frá Miðbæli, en Kristín Jónsdóttir var dóttir Jóns Einarssonar, vinnumanns á Miðbælisbökkum. Bróðir Ólafs Gísla var Guðjón, bóndi á Raufarfelli, faðir Mörtu, húsfreyju í Berjanesi, ömmu Mörtu Guðjónsdóttur borgarfulltrúa og Sólveigar Ingadóttur, héraðsdómara á Selfossi.

Kona Vigfúsar var Ragnheiður Jónsdóttir og synir þeirra Ólafur rafmagnsverkfræðingur og Bergsteinn, sem tók próf frá Sjómannaskóla Íslands, sveinspróf í smíðum og hefur sinnt bókmenntafræði.

Vigfús flutti til Vestmannaeyja með foreldrum sínum er hann var fimm ára og bjó þar lengst af.

Hann tók próf frá Kennaraskóla Íslands 1938, stúdentspróf frá Laugarvatni 1964, en veturinn 1976-77 fékk hann orlof til frekara náms við kennaraháskóla í Noregi.

Vigfús kenndi við barnaskólann í Eyjum til 1959, tók þá við skólastjórn í V-Eyjafjallaskóla á Seljalandi, varð skólastjóri Gagnfræðaskólans á Hellu 1962 og skólastjóri Gagnfræðaskólans í Eyjum 1974-80. Hann var grannholda, sterkur og spengilegur, æfði og keppti í hlaupum á yngri árum, var formaður Íþróttabandalags Vestmannaeyja fyrstu fimm árin, var prýðilegur skákmaður og keppnismaður í skák fyrir Vestmannaeyinga.

Vigfús þótti frábær kennari. Um hann segir Páll Steingrímsson kvikmyndagerðarmaður í minningargrein: „Þessar línur eru skrifaðar til að minnast óvenjulegs leiðbeinanda og sagnamanns sem hreif nemendur með sér og opnaði jafnvel böldnum strákum heima sem skildu þá eftir kjálkasíða í stundarlok með spurn í augum.“

Vigfús lést 25.10. 2000.