Freyja Ingólfsdóttir Ashton fæddist í Reykjavík 5. mars 1960. Hún lést á sjúkrahúsi í Bretlandi eftir erfið veikindi 24. nóvember 2017.

Í Reykjavík hélt Freyja heimili ásamt móður sinni Vigdísi Sigurðardóttur sem lést árið 2000.

Freyja bjó svo í Chasetown, skammt frá Birmingham, ásamt eiginmanni sínum Terence Ashton.

Útför Freyju var gerð frá St. Ann kirkju í Chasetown 14. desember 2017.

Freyja var vinnufélagi okkar til margra ára á skrifstofu Æskulýðsráðs Reykjavíkur og síðar hjá Íþrótta- og tómstundaráði á Fríkirkjuvegi 11. Á skrifstofunni starfaði fámennur en afar samhentur hópur þar sem vinátta og samheldni réð ríkum og vinnufélagarnir deildu gleði og sorgum. Freyja féll vel inn í þennan hóp. Hún naut ekki stórrar fjölskyldu í sínu einkalífi og að mörgu leyti urðu vinnufélagarnir hennar önnur fjölskylda og rækti hún þau tengsl alla tíð. Sem starfskraftur var Freyja forkur duglegur og dagleg störf léku henni á hendi. Umsýsla skjala, ritun bréfa og fundargerða, reikningshald og samskipti við starfsstaði var henni létt verk. Oft komu vinnutarnir en alltaf hafði Freyja undan, ekki í hennar orðabók að kvarta undan miklu vinnuálagi. Freyja var einstök manneskja sem bjó yfir mannskilningi og hugarró.

Á gleðistundum, þegar daglegt amstur var lagt til hliðar, kynntumst við líka annarri hlið á Freyju. Þá gat maður lent á trúnó þar sem dýpri rök tilverunnar voru rædd og krufin. Freyja átti pennavin í Bretlandi, Terence Ashton, en sagan af því hvernig samband þeirra Terrys þróaðist er eins og fallegt ævintýri. Terry kom til Íslands og bjó hjá Freyju sinni og Vigdísi móður hennar í nokkur ár en svo fluttust þau til Bretlands vegna starfa hans eftir að Vigdís féll frá. Freyja kom reglulega heim til Íslands, heilsaði upp á ættingja og vini og leit gjarna við á skrifstofu ÍTR. Að leiðarlokum kveðjum við Freyju með þökk fyrir vináttu og trúnað. Terry sendum við innilegar samúðarkveðjur.

Helga Björnsdóttir,

Gísli Árni Eggertsson.