Mikið verk Ólafur Jóhann Sigurðsson vinnur nú að því að gera upp gamlan Bronco í bílskúrnum sínum í Lúxemborg. Þegar vinnan er búin verður bíllinn kominn með sitt upprunalega útlit og þá verður hann e.t.v. sýndur hér heima.
Mikið verk Ólafur Jóhann Sigurðsson vinnur nú að því að gera upp gamlan Bronco í bílskúrnum sínum í Lúxemborg. Þegar vinnan er búin verður bíllinn kominn með sitt upprunalega útlit og þá verður hann e.t.v. sýndur hér heima.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is „Þegar bíllinn loks kom vildi ég helst setjast niður og gráta. Hann var haugryðgaður og í raun alveg búinn.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

„Þegar bíllinn loks kom vildi ég helst setjast niður og gráta. Hann var haugryðgaður og í raun alveg búinn. Kramið var hins vegar gott og hljóðið í vélinni enn betra,“ segir Ólafur Jóhann Sigurðsson í samtali við Morgunblaðið og vísar í máli sínu til jeppa í hans eigu af gerðinni Ford Bronco árgerð 1974, en bifreiðina keypti hann á Íslandi í janúar 2017 og var hún í kjölfarið send út til Lúxemborgar þar sem Ólafur Jóhann býr ásamt fjölskyldu. Vinnur hann nú í því að gera jeppann upp.

Bronco var fyrsti jeppi bandaríska bílaframleiðandans Ford og kom fyrst á götuna 1966. Fram til ársins 1977 var hann framleiddur sem meðalstór jeppi án lítilla breytinga á útliti. Jeppi Ólafs Jóhanns er tvennra dyra, sjálfskiptur og með átta strokka bensínvél. Frammi í bílnum eru tveir körfustólar en aftur í þriggja manna bekkur sem settur var í hér þegar bíllinn var nýr.

Númeraplatan fór aftur heim

„Ég er í raun fjórði eigandi bílsins, en sá fyrsti átti hann í um eitt ár og bjó sá á Seyðisfirði. Því miður veit ég engin skil á þeim manni. Næsti eigandi var hins vegar Sveinn Runólfsson, fyrrverandi landgræðslustjóri, sem átti bílinn í um 20 ár og hefur enn miklar taugar til hans,“ segir Ólafur Jóhann og bætir við að Broncoinn hafi verið með skráningarnúmerið L 121, en einkennisstafurinn „L“ vísaði á þeim tíma til Rangárvallasýslu. Númerið var lengi í eigu fjölskyldu Sveins og skilaði Ólafur Jóhann plötunum til hans áður en bíllinn fór utan. „Hann var auðvitað mjög ánægður með það og hefur sent mér myndir af bílnum frá þeim tíma er jeppinn var í hans eigu. Saga bílsins hefur því smám saman komið í ljós,“ segir Ólafur Jóhann. Þriðji eigandi bílsins var lögmaður úr Stykkishólmi sem átti jörð vestur í Dölum og þar endaði Broncoinn inni í hlöðu.

Jeppar af þessari týpu voru einna helst seldir í Bandaríkjunum, Kanada og á Íslandi. „Þessir jeppar voru því sjaldséðir annars staðar, en þetta eintak er með kílómetramæli, líkt og aðrir jeppar sem seldir voru af umboðinu á Íslandi,“ segir hann.

Ólafur Jóhann segir undirvagn og vélarrúm bílsins nú klár og til standi að mála Broncoinn í upprunalegum grænum lit. „Svo þegar búið er að sprauta jeppann og klára að utan verður hann fluttur til Íslands á verkstæði í Kópavogi þar sem hann verður tekinn í gegn að innan og gerður eins og hann var árið 1974.“