Guðný Harpa Kristinsdóttir húsfreyja fæddist á Akureyri 21. janúar 1947. Hún andaðist á Sjúkrahúsi Vestmannaeyja 29. mars 2018.

Foreldrar Guðnýjar voru Hulda Ingibjörg Pétursdóttir, f. 7. júní 1917, d. 15. maí 1994, og Kristinn Karlsson, f. 22. október 1919, d. 22. nóvember 1992.

Systkini Guðnýjar eru Geir Ómar Kristinsson, f. 30. ágúst 1950, Ásdís Petra Kristinsdóttir, f. 18. nóvember 1951, Kristinn Birgir Kristinsson, f. 12. júlí 1955, og Yngvi Örn Kristinsson, f. 16. október 1956.

Eftirlifandi eiginmaður Guðnýjar er Páll Árnason, f. 21. júlí 1945. Frá fyrra sambandi átti Guðný með Bjarna Ragnari Haraldssyni soninn Kristin Karl Bjarnason, f. 9. mars 1966. Guðný og Páll áttu soninn Guðmund Árna Pálsson, f. 29. júlí 1973, hann er kvæntur Maríu Höbbý Sæmundsdóttur, börn þeirra eru Andri Páll, Arnar Ási og Guðni Sigurður.

Guðný og Páll bjuggu lengst af sinni hjúskapartíð á Auðsstöðum við Brekastíg 15b í Vestmannaeyjum. Í Eyjagosinu bjuggu þau tímabundið í Hafnarfirði.

Guðný vann í ýmsum þjónustustörfum á yngri árum en Smárakaffi var alltaf efst í huga hennar. Eftir að hún flutti til Vestmannaeyja vann hún lengst í Vinnslustöðinni og Lifrarsamlaginu.

Guðný var virkur meðlimur í Hvítasunnukirkjunni í Vestmannaeyjum og á Aglow-fundum í safnaðarheimili Landakirkju.

Útför Guðnýjar fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 13. apríl 2018, klukkan 11.

Guðný er flestum Eyjamönnum minnisstæð, hún fluttist til Eyja og hóf búskap með Páli Árnasyni múrara. Ég sé ljóslifandi myndina þegar hún trítlar niður Skólaveginn og það small í hælunum í stuttum hröðum skrefunum og hún hélt báðum höndum fast um verskið í fangi sér. Hún fór hratt yfir þótt hún væri ekki há í loftinu eða skreflöng. Stoppaði við vegginn á Hlíðarenda og kastaði mæðinni, leit snöggt til hvorrar handar svona rétt til að kanna hvort einhver væri til að spjalla við. Þegar hún hafði náð andanum tók hún aftur sprettinn og leit inn í nokkrar búðir. Hún elskaði búðir, alls konar glingur og smáhluti og safnaði þeim á heimili sitt. Af smekkvísi valdi hún hvern hlut áður en hún gerði kaupin. Hún vildi mikið af fallegum hlutum í kringum sig og bjó fjölskyldunni heimili að hennar hætti.

Guðný var trúuð kona sem sótti árum saman samkomur í Betel í Eyjum. Það gaf henni hugarró að hafa Drottin að leiðtoga lífs síns og varð henni til hjálpar þegar dökk skýin hrönnuðust upp í lífi hennar og sál. En myrkrið varð aldrei svo mikið að það birti ekki til og stóð fjölskyldan við bak hennar þótt gæfi á bátinn.

Það var mikil gleði þegar sonur hennar Guðmundur Árni og María Höbbý dóttir okkar hétust hvort öðru, giftu sig og eignuðust drengina, barnabörnin okkar Guðnýjar. Þeir voru lífsneistar hennar og sólargeislar. Stutt símtöl í Frostaþingið þar sem glaðlegar raddir bræðranna bræddu hjarta ömmunnar sem átti ekki meiri gleði til en líf ömmustrákanna sinna. Þeir komu líka reglulega í heimsókn til ömmu og afa í Eyjum og þá var kátt á Auðsstöðum. Ég man þegar ég sótti þá snemma morguns fyrir Herjólfsferð. Þeir höfðu komið sér fyrir í stofunni innan um alla fínu munina hennar ömmu. Þeir höfðu tekið með sér gesti og stofan var smekkfull af peyjum og allt dótið hennar ömmu var eins og meðalkjarnorkubomba hefði hitt stofuna í Auðsstöðum. Guðný var æðruleysið uppmálað og ég held að henni hafi verið alveg sama hvernig umgengnin var eftir peyjana. Það giltu aðrar reglur á heimilinu þegar svona kraftapeyjar voru á staðnum og minni- eða meiriháttar sprengjuárásir ekki mál til að æsa sig yfir. Og litli putti spilamann, nafni ömmu sinnar, Guðni Sigurður, hafði ótakmarkaðar heimildir til að láta að sér kveða á hvern þann hátt sem hann kaus. Hún hló skærum hlátri þegar hann lét til sín taka og söng af lyst. Tónlistina og listhneigðina sækja drengirnir til Guðnýjar og Palla og sú náðargjöf mun fylgja þeim alla ævi og minna þá á ömmuna góðu sem leyfði þeim allt.

Í dag eru það þessar stundir sem standa upp úr og fjölskyldan minnist þegar við kveðjum góða konu sem þurfti oft að takast á við lífið sem ekki var henni alltaf létt. Guðný hefur mætt skapara sínum og mun vaka yfir Palla, drengjunum sínum tveimur og ömmustrákunum sem kveðja góða ömmu sem var þeim kær.

Við fjölskyldan erum þakklát fyrir samfélagið sem við áttum saman, fyrir tengdasoninn sem Guðný gaf dóttur okkar, drengina þeirra og stundirnar góðu sem við áttum öll saman. Við vottum fjölskyldu Guðnýjar samúð á kveðjustund.

Ásmundur Friðriksson og fjölskylda.

Elsku vinkona mín Guðný Harpa hefur kvatt þennan heim. Ég er svo þakklát fyrir allar þær góðu minningar sem ég á frá því að ég kynntist henni sem er orðnir nokkrir tugir ára.

Guðný Harpa var einlæg persóna og vildi alltaf gleðja mann. Þegar við hittumst var eins og hún hafi ekki séð mig í langan tíma. Þannig var hún, mat vináttu mikils.

Við áttum margt sameiginlegt. Báðar mjög trúaðar og settum traust okkar á Drottin Jesúm.

Söngur átti stóran sess í lífi Guðnýjar og oft þegar komið var saman var sungið „Er frelsarann sá ég við vatnið“, uppáhaldslag Guðnýjar. Þegar ég leit við í heimsókn til hennar var alltaf eins og þjóðhöfðingjar væru á ferð. Allt sem hún gerði bar með sér einstaka smekkvísi: hvernig hún lagði á borð og veisluföngin sem báru með sér að fagurkeri var þar á ferð.

Og hvað hún elskaði barnabörnin sín. Alltaf ljómaði hún þegar hún talaði um „hjörtun hennar ömmu sinnar“. Hún bar fjölskyldu sína fyrir brjósti.

Við Simmi höfum átt góðar stundir með Guðnýju og Palla. Fastur liður til margra ára var að fá þau bæði á jólum og páskum í mat til okkar. Gleðistundir þegar Palli greip í píanóið og Guðný gædd skemmtilegri frásagnargáfu með tilheyrandi bakföllum og hlátri. Guðný var litrík persóna og stóð fast á sínu. Sterkur karakter. Hún var sannur vinur og bera margar gjafir sem hún gaf mér vitni um smekkvísi og vináttu. Hún hitti alltaf í mark með sínum gjöfum.

Það var sárt að sjá þessa elsku veikjast á haustdögum 2017. Hún sem alltaf var svo duglega að ganga og fara út á meðal fólks, sækja allskonar viðburði og samkomur, gat nú allt í einu ekki komist úr rúmi.

Það gerðu ekki margir sér grein fyrir hversu veik Guðný Harpa var. Hún bar það ekki á torg og var ekki að kvarta í sína nánustu og vini. Hún var ótrúlega dugleg og æðrulaus þessa síðustu mánuði sem hún var að berjast við þennan sjúkdóm sem leiddi hana til dauða. Krabbameinið tók hana á stuttum tíma.

Guðný Harpa átti trúarfullvissu. Hún hlakkaði til þess dags þegar allar þrautir enda og hún mætti frelsara sínum. Ég trúi því að nú sé hún á þeim afangastað sem hún hlakkaði til að komast á.

Ég kveð þessa einstöku og yndislegu vinkonu mína með söknuði og bið Guð um að hugga, blessa og styrkja Palla, Kidda, Gumma, Maríu, Andra Pál, Arnar Ása og Guðna Sigurð.

Þin vinkona að eilífu,

Unnur Ólafsdóttir.