Barnavernd Brotin eiga að hafa átt sér stað þegar drengurinn var á aldrinum átta til 14 ára. Maðurinn lét hann sofa uppi í rúmi hjá sér.
Barnavernd Brotin eiga að hafa átt sér stað þegar drengurinn var á aldrinum átta til 14 ára. Maðurinn lét hann sofa uppi í rúmi hjá sér. — Morgunblaðið/Eggert
Sólrún Lilja Ragnarsdóttir solrun@mbl.is „Ég fór að hugsa út í það hvort hann væri að gera þetta við fleiri og það fékk mig til að kæra hann síðasta haust.

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

solrun@mbl.is

„Ég fór að hugsa út í það hvort hann væri að gera þetta við fleiri og það fékk mig til að kæra hann síðasta haust. Ég vildi ekki að fleiri þyrftu að lenda í því sem ég lenti í með honum,“ segir ungur maður sem í ágúst á síðasta ári lagði fram kæru á hendur fyrrverandi starfsmanni Barnaverndar Reykjavíkur fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn honum þegar hann var barn.

Brotin eiga að hafa átt sér stað á árunum 2004 til 2010, þegar maðurinn var á aldrinum átta til 14 ára. Maðurinn sem braut á honum var einhvers konar stuðningsfulltrúi hans og sem barn dvaldi hann reglulega á heimili á vegum Félagsþjónustunnar í Reykjavík sem maðurinn hafði umsjón með. Maðurinn lét hann sofa uppi í rúmi hjá sér þar sem hann braut gegn honum. Tvö systkini unga mannsins dvöldu einnig á heimilinu og er talið að hann hafi einnig brotið gegn þeim.

Ungi maðurinn, sem nú er rúmlega tvítugur, sagði ekki frá ofbeldinu fyrr en um tveimur árum eftir að því lauk, eða þegar hann var 16 ára gamall. „Ég ætlaði aldrei að segja foreldrum mínum frá þessu. Ég skammaðist mín svo mikið.“

Hann man vel eftir því hvaða tilfinningar hann upplifði á meðan ofbeldið stóð yfir. „Fyrst þegar hann byrjaði á þessu skildi ég ekkert hvað var í gangi, ég var í sjokki. Mér leið illa en ég fór að venjast þessu. Ég hélt í fyrstu að þetta væri eðlilegt, en ég man eftir að hafa spurt sjálfan mig að því þegar ég fermdist hvort þetta væri eðlilegt eða ekki. Smám saman áttaði ég mig á því að svo var ekki. Ég áttaði mig líka á því af hverju hann var að kaupa mig. Hann dekraði við mig, leyfði mér að vera í tölvunni og gaf mér pening fyrir nammi.“

Hélt hann væri einn

Eins og áður sagði lagði ungi maðurinn fram kæru gegn manninum í ágúst á síðasta ári, en hann hafði þó fyrir löngu tekið þá ákvörðun að kæra. „Ég vildi bíða með þetta þegar ég var 16 ára. Ég vildi bíða þangað til ég yrði lögráða og væri búinn að melta þessa hluti.“ Í dag er hann mun sterkari en hann var fyrir nokkrum árum. Hefði hann farið fyrr af stað hefði hann ekki verið tilbúinn að takast á við allt sem fylgir því að kæra kynferðisbrot; að þurfa að rifja ofbeldið upp aftur og aftur og svara erfiðum spurningum. Hann hefur unnið mikið í sjálfum sér með góðri aðstoð.

Í kjölfar umfjöllunar fjölmiðla um málið lögðu fleiri fram kæru gegn manninum, en hann er grunaður um að hafa brotið kynferðislega gegn a.m.k. sjö börnum á tíu ára tímabili. Embætti héraðssaksóknara hefur staðfest að maðurinn verður ákærður, en ákærufrestur rennur út í dag.

Hann bjóst ekki við að fleiri myndu kæra í kjölfarið, enda hélt hann að hann væri sá eini. „Ég reiknaði ekki með þessu. Ég hélt ég væri sá eini. Þegar ég frétti að það væru fleiri, og svona margir, þá breyttist hugarfarið aðeins. Mér fannst ég hafa meiri stuðning en ég átti von á.

Þetta hafði gríðarlega mikil áhrif á mig og hefur breytt mér mikið. Ég er allt annar maður í dag en ég var áður. Það hefur bæði komið slæmt og gott út úr þessu. Ég hef áttað mig á því að ég hef stuðning ef það koma upp vandamál og lít á þetta sem uppbyggingu fyrir bjartari framtíð.“

Viðtalið við unga manninn má lesa í heild sinni á mbl.is.