Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar koma fram áherslur í samgöngu- og umhverfismálum.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Vinstri grænna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknar koma fram áherslur í samgöngu- og umhverfismálum. Þar segjast stjórnarflokkarnir vilja gera betur en Parísarsamkomulagið um losun kolefnis gerir ráð fyrir og stefna að kolefnishlutlausu Íslandi í síðasta lagi árið 2040. Kolefnishlutleysi verður aðeins náð með varanlegum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Segjast stjórnarflokkar ætla að meta allar stærri áætlanir í ríkisrekstri út frá loftslagsmarkmiðum. Loks má lesa í stjórnarsáttmálanum að áfram þurfi að byggja upp almenningssamgöngur um land allt og að stutt verði við borgarlínu í samstarfi við Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Þessi stjórnarsáttmáli var kynntur síðasta dag nóvembermánaðar sl. eða fyrir um fjórum mánuðum. Vekur það því furðu að í mikilvægasta plaggi sömu stjórnar, fjármálaáætlun næstu fimm ára, sem rædd er á Alþingi þessa daga, er ekki gert ráð fyrir neinu viðbótarframlagi til almenningssamgangna. Eingöngu er minnst einu sinni á hið mikilvæga verkefni Borgarlínu, með þeim orðum að vilji sé til að eiga samstarf við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu um Borgarlínu og verði ráðist í viðræður á árinu um það. Ræða skal málið núna, en fyrir fjórum mánuðum ætlaði sama stjórn að styðja við Borgarlínu. Að efla almenningssamgöngur um allt land er algjört grundvallaratriði ef draga á úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þetta er stærsta áskorun nútímans, stærsta verkefni nútímastjórnmálamanna og þar, þrátt fyrir fögur fyrirheit, er stærsti einstaki orsakavaldurinn, sjálfur einkabíllinn, enn í lykilhlutverki hjá ríkisstjórninni.

Varanlegur og verulegur samdráttur á losun gróðurhúsalofttegunda verður ekki af sjálfu sér heldur með fullri meðvitund og ákvörðun stjórnvalda. Það verður að fara í markvissar aðgerðir vegna þessa og því veldur það einnig verulegum vonbrigðum að sjá hvernig þessi sama ríkisstjórn hefur tekið ákvörðun um að draga úr fyrri áformum um hækkun kolefnisgjalds. Rannsóknir sýna að hækkun kolefnisgjalds virðist vera áhrifamesta leiðin til að minnka losun kolefnis. Þannig var á fjármálaáætlun síðustu ríkisstjórnar kynnt að kolefnisgjald skyldi hækkað um 100% frá 1. janúar 2018. Núverandi ríkisstjórn með Vinstrihreyfinguna – grænt framboð í broddi fylkingar féll hins vegar frá þessum nauðsynlegu grænu sköttum og hækkunin varð því aðeins 50% og áætluð hækkun er rétt um 20% á næstu fimm árum.

Viðbrögð við loftslagsvá eru ekki gæluverkefni heldur eitt brýnasta verkefni hverrar ríkisstjórnar. Við lifum á þannig tímum að ef við Íslendingar tökum ekki ákveðnari skref í baráttu okkar gegn losun kolefnis þá getum við gleymt öllum skuldbindingum okkar um kolefnishlutleysi árið 2040.

Höfundur er þingman Samfylkingarinnar. Helgavala@althingi.is

Höf.: Helga Vala Helgadóttir