Alla leið Eurovisionsérfræðingar Ríkisútvarpsins.
Alla leið Eurovisionsérfræðingar Ríkisútvarpsins. — Skjáskot af RÚV
RÚV leggur jafnan mikið undir, eða tugi milljóna króna, þegar Eurovision er annars vegar. Öllu er tjaldað til.

RÚV leggur jafnan mikið undir, eða tugi milljóna króna, þegar Eurovision er annars vegar. Öllu er tjaldað til. Fyrst er að velja lögin, síðan flytja þau í sjónvarpi, velja keppanda Íslands, undirbúa flutning hans á evrópskri grund og loks er það lokakeppnin, að þessu sinni í Portúgal í næsta mánuði.

Sjónvarpsþátturinn Alla leið er liður í þessum undirbúningi, þar sem farið er yfir öll lögin í Eurovision og þau vegin og metin af tónlistar- og áhugafólki um þessa keppni. Það var óneitanlega mjög sérstakt að sjá hvaða útreið íslenska lagið fékk í fyrsta þættinum. Þar hraunuðu allir yfir lagasmíðina, nema þáttastjórnandinn Felix Bergsson, en söngvaranum unga, Ara Ólafssyni, var hrósað í hástert. Helga Möller bætti um betur og sagði öll lögin í undankeppninni íslensku hafa verið óspennandi.

Ljósvaka finnst lagið, sem Þórunn Clausen samdi, vinna stöðugt á og Ari flytur það frábærlega. Vonandi hefur Felix rétt fyrir sér um að Ari muni fljúga inn í úrslitin í Portúgal, en af hverju RÚV reyndi að slátra eigin framlagi er ómögulegt að segja til um. Geta lagahöfundar átt von á því framvegis?

Björn Jóhann Björnsson