[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Ásvöllum Ívar Benediktsson iben@mbl.

Á Ásvöllum

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Deildarmeistarar Vals knúðu fram oddaleik í undanúrslitarimmu sinni við Hauka og keppnisrétt um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik kvenna með þriggja marka sigri, 25:22, í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í gærkvöldi. Segja má að Valskonur hafi verið sterkari í endataflinu eftir að Haukar voru með tögl og hagldir framan af og í miðtaflinu.

Staðan er þar með jöfn. Hvort lið hefur tvo vinninga. Leikið verður til þrautar á heimavelli Vals á morgun um réttinn til þess að skora ríkjandi Íslandsmeistara Fram á hólm í einvígi um Íslandsmeistaratitilinn.

Talsverðar sveiflur voru í leiknum í fyrri hálfleik. Haukar voru þó heldur með frumkvæðið og höfðu tveggja marka forskot, 10:8, þegar flautað var til loka hálfleiksins.

Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Vals, lét einskis ófreistað til þess að snúa taflinu við í síðari hálfleik. Hann fyrirskipaði sjö manna sóknarleik frá upphafi síðari hálfleiks. Upphafið var brösótt og Haukar náðu í tvígang fjögurra marka forskoti og virtust hafa fengið byr undir báða vængi á 87 ára afmælisdegi félagsins.

Dropinn holar steininn

Dropinn holar steininn. Það þekkja reyndir leikmenn Vals eins og Kristín Guðmundsdóttir og Anna Úrsúla Guðmundsdóttir. Reynsla þeirra vó þungt á lokakaflanum auk stórleiks Morgan Marie Þorkelsdóttur. Hún vaknaði upp af værum blundi og skoraði sex mörk í síðari hálfleik.

Tíu mínútum fyrir leikslok voru Haukar þó enn með tveggja marka forskot, 19:17. Upp úr þessu fór að draga af heimaliðinu. Engu var líkara en það ætlaði sér að verja forskot sitt í stað þess að halda áfram að sækja. Valsliðið sótti jafnt og þétt á og komst yfir sex mínútum fyrir leikslok, 20:19, í fyrsta sinn síðan á nítjándu mínútu. Áfram seig á ógæfuhliðina hjá Haukum meðan Valsliðinu óx ásmegin með hverri mínútunni sem leið. Haukar áttu ekki möguleika á að taka leikhlé á lokakaflanum. Leikur liðsins fjaraði jafnt og þétt út. Valur vann sannfærandi sigur.

Óhætt er að segja að Haukar hafi farið illa að ráði sínu. Leikmenn liðsins virtust hafa yfirhöndina í leiknum þar til að lokakaflanum kom. Þá var engu líkara en þeir hefðu misst sjálfstraustið gegn Valsvörninni.

Elín Jóna Þorsteinsdóttir átti frábæran leik í marki Hauka. Hún varði 19 skot. Því miður fyrir hana dugði það skammt.

Sjö manna sóknarleikur Vals í síðari hálfleik reyndist Haukum erfiður, ekki síst þegar á leið og þreyta fór að segja til sín í ríkari mæli. Línumenn Vals voru oftar en ekki á auðum sjó og ef þeir skoruðu ekki unnu þeir vítaköst. Miklu munaði fyrir Val að hafa jafn leikreynda konu og Önnu Úrsúlu innan síns hóps. Hún vann ófá vítaköstin. Morgan Marie vaknaði til lífsins í síðari hálfleik og sömu sögu má segja um Kristínu Guðmundsdóttur. Hún skilaði auðu í fyrri hálfleik eins og Diana Satkauskaité og Díana Dögg Magnúsdóttir. Satkauskaité er ekki svipur hjá sjón um þessar mundir og virðist eiga talsvert í land að jafna sig af meiðslum. Chantel Pagel fékk boltann í annað augað í upphitun og kom ekkert við sögu í leiknum. Óvíst er með þátttöku hennar í oddaleiknum á morgun.