Bókband Einar Sveinn Ragnarsson nemur bókband og stefnir að því að binda inn bækur í höndunum.
Bókband Einar Sveinn Ragnarsson nemur bókband og stefnir að því að binda inn bækur í höndunum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Guðni Einarsson gudni@mbl.is „Handbókband er bara listgrein. Það er allt svo fallegt við það. Lyktin og að snerta skinnið; gera þetta allt frá byrjun.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

„Handbókband er bara listgrein. Það er allt svo fallegt við það. Lyktin og að snerta skinnið; gera þetta allt frá byrjun. Sauma sjálfur arkirnar og skila svo af sér fallega gylltri bók,“ sagði Einar Sveinn Ragnarsson, fertugur nemi í bókbandi. Hann dreymir um að geta unnið við að binda inn bækur í höndunum á tímum þegar bókband er að mestu orðið vélvætt.

Einar er fjórði ættliðurinn í beinan karllegg sem leggur stund á bókband. Faðir hans, Ragnar Gylfi Einarsson bókbindarameistari, rak m.a. Bóklist og kenndi bókband. Afi hans var Einar Helgason, bókbindarameistari og kennari við Iðnskólann. Langafi Einars var Helgi Tryggvason, einn þekktasti bókbindari landsins á sinni tíð, bókasafnari og bókakaupmaður, sem kenndi mörgum bókband. Flestir sem vinna við bókband hér á landi í dag lærðu hjá föður eða afa Einars, að hans sögn. En hvers vegna ákvað hann að læra iðnina?

„Ég var búinn að fikta við bókband og leika mér við það hjá pabba. Svo kom að því að ég ákvað að ná mér í réttindi,“ sagði Einar. Hann lýkur námi í bókbandi frá Tækniskólanum í vor og þarf svo að komast á samning í 48 vikur. Einar hefur farið í verknám á vegum skólans í nokkur fyrirtæki og kynnst vélvæddu bókbandi. Nú er hann í verknámi hjá Stefáni Jóni Sigurðssyni, yfirbókbindara í Þjóðarbókhlöðunni, þar sem handverkið er í hávegum haft. Þess má geta að Stefán var nemandi og samkennari afa Einars. En þarf Einar Sveinn að læra fagið, er honum það ekki í blóð borið?

„Jú, maður þarf alltaf að læra. Ég reyni að sanka að mér allri þeirri þekkingu sem ég get fengið frá pabba. Kannski er ég kominn með þetta svolítið í puttana,“ sagði Einar. Faðir hans á öll bókbandsverkfæri og hafa þau safnast frá gengnum kynslóðum. Einar nefndi afa sinn, afabróður og vinafólk afa síns í því sambandi. Þeir feðgar, Einar og Ragnar, settu upp lítið „dundverkstæði“ þar sem Einar fæst við að binda inn bækur í frístundum.