Atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu, þess efnis að þing Kennarasambands Íslands skori á Ragnar Þór Pétursson, tilvonandi formann KÍ, að leita endurnýjaðs umboðs til þess að leiða félagið, verður afgreidd í dag kl. 14:30 undir liðnum önnur mál.

Atkvæðagreiðslu um þingsályktunartillögu, þess efnis að þing Kennarasambands Íslands skori á Ragnar Þór Pétursson, tilvonandi formann KÍ, að leita endurnýjaðs umboðs til þess að leiða félagið, verður afgreidd í dag kl. 14:30 undir liðnum önnur mál. Kallað var fram í fyrir flutningsmönnum tillögunnar og mikil læti urðu í ráðstefnusalnum á Hótel Nordica í gær þegar lagt var til að tillagan yrði tekin fyrir sem forgangstillaga án umræðu vegna tímaskorts og að um hana yrði leynileg kosning.

Guðríður Arnardóttir, formaður Félags framhaldsskólakennara og mótframbjóðandi Ragnars Þórs í formannskjöri í haust, sagði í samtali við mbl.is að hún hefði haldið að stuðningsmenn Ragnars og Ragnar sjálfur myndu taka tillögunni fagnandi, þar sem hún væri mjög hófstillt. Engum dylst að Guðríður er fylgjandi tillögunni, en hún var þó ekki í þeim hópi kvenna sem lögðu hana fram.

„Ég hef áður sagt að ég mun ekki skapa það fordæmi að ásökun ein og sér dugi til að hrekja fólk úr starfi,“ segir Ragnar. Í bloggi á vef Stundarinnar segist hann „harma það að þessi mikilvægi málaflokkur sé notaður með þessum hætti í valdabaráttu“, en áskorunin var lögð fram í tengslum við umræður á kennaraþingi um byltingar kvenna gegn ofbeldi. „Slíkt fordæmi gæti opnað á atburðarás sem gæti orðið kennarastétt og samfélaginu verulega skaðleg,“ segir Ragnar.

athi@mbl.is