Gagnaver Advania í Reykjanesbæ þar sem hluta búnaðarins var stolið.
Gagnaver Advania í Reykjanesbæ þar sem hluta búnaðarins var stolið.
„Við fáum alltaf ábendingar en þær hafa nú ekki leitt til þess að við höfum fundið tölvubúnaðinn ennþá, því miður,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.

„Við fáum alltaf ábendingar en þær hafa nú ekki leitt til þess að við höfum fundið tölvubúnaðinn ennþá, því miður,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum. Frestur til að senda inn ábendingu um staðsetningu tölvubúnaðarins, sem stolið var úr gagnaveri á Suðurnesjum, gegn 6 milljóna króna fundarlaunum, rann út á miðnætti í gær.

Ólafur segir að lögreglunni hafi borist á þriðja tug ábendinga um málið en að engin þeirra hafi leitt að tölvunum.

Hann segir það verða skoðað í dag hvort fundarlaun bjóðist fyrir ábendingar sem berast héðan í frá. Væntanlega séu það eigendur tölvubúnaðarins sem muni taka afstöðu til þess, en það eru þeir sem bjóða fundarlaunin.

Ólafur jánkar því að í raun séu þeir engu nær um staðsetningu búnaðarins, sem er metinn á um 200 milljónir króna. „Það er búið að leggja mikinn kraft í rannsóknina og við getum skapað okkur ákveðna mynd af þessu öllu, nema hvað við vitum ekki hvar þýfið er.“

Einn maður sem handtekinn var vegna málsins er enn í haldi lögreglu og sætir síbrotagæslu. Gæsluvarðhaldið rennur út þann 16. apríl en formleg ákvörðun hefur ekki verið tekin um hvort það verður framlengt.