Óhapp Birna Rún Eiríksdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson í Sýningunni sem klikkar. Til vinstri má sjá hurðina sem Birna fékk svo óheppilega í andlitið.
Óhapp Birna Rún Eiríksdóttir og Hjörtur Jóhann Jónsson í Sýningunni sem klikkar. Til vinstri má sjá hurðina sem Birna fékk svo óheppilega í andlitið. — Ljósmynd/Grímur Bjarnason
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Þetta leit mjög illa út í gær, ekki síst vegna þess hversu mikið blæddi.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Þetta leit mjög illa út í gær, ekki síst vegna þess hversu mikið blæddi. Mér líður hins vegar vel í dag,“ segir Birna Rún Eiríksdóttir leikkona sem varð fyrir því óláni á Sýningunni sem klikkar á miðvikudagskvöld að fá hurð í andlitið með þeim afleiðingum að hún þurfti að fara á slysadeild til aðhlynningar og læknisskoðunar. Sökum þessa þurftu leikhúsgestir frá að hverfa í hléi og býðst að sjá sýninguna í heild sinni síðar.

„Mér brá eðlilega mjög mikið þegar ég fékk hurðina í alvörunni í andlitið og varð mjög hrædd enda var þetta mikið högg. Vegna sársaukans og doðans var ég hrædd um að nefið hefði brotnað og mér fannst allar tennurnar vera lausar og svo fann ég blóðið renna,“ segir Birna Rún og rifjar upp að á slysadeild hafi tveir læknar metið áverka hennar sökum þess hversu illa þetta leit út við fyrstu sýn. „Sem betur fer kom í ljós að tennurnar höfðu sloppið og nefið var ekki brotið, bara marið. Þannig að ég fæ sennilega vænt glóðarauga. Skurðurinn á vörinni mun jafna sig, en vörin verður tvöföld í nokkra daga. Við ætlum bara að vinna með það í sýningunni. Persóna mín er svo mikil stórleikkona að hún er búin að fá sér bótox, sem er reyndar bara hægra megin,“ segir Birna Rún kímin og tekur fram að ekki hafi þurft að sauma vörina saman. „Skurðurinn var svo nálægt gómnum, þannig að talið var betra að líkaminn lagaði þetta sjálfur í stað þess að sauma. Skurðurinn er þegar búinn að loka sér, þannig að þetta fór allt vel.“

Miður sín að hafa hlegið

Samkvæmt handriti á persónan sem Birna Rún leikur einmitt að fá hurð í andlitið og rotast þannig að sýningarstjórinn, sem Katrín Halldóra Sigurðardóttir leikur, neyðist óundirbúið til að stökkva inn í hlutverkið. Spurð hvað hafi farið úrskeiðis og hvers vegna hún hafi í reynd fengið hurðina í andlitið og ekki bara í þykjustunni segir Birna Rún um misskilning og klaufaskap að ræða sem verði leiðrétt fyrir næstu sýningu, sem var í gærkvöldi. „Ég hef aldrei áður meitt mig í þessu atriði, sem við erum búin að æfa og sýna í margar vikur. Þetta verður lagað svo þetta geti aldrei gerst aftur,“ segir Birna Rún og tekur fram að þrátt fyrir mikinn hamagang í sýningunni hafi sér ávallt liðið vel á sviðinu.

„Allt sem gerist í sýningunni er ótrúlega vel æft og ég upplifi mig alveg örugga í sýningunni,“ segir Birna Rún og tekur fram að hún skilji vel að leikhúsgestir hafi átt erfitt með að meðtaka að eitthvað hafi raunverulega klikkað í sýningu sem auglýst er sem svo að þar klikki allt. Þegar sviðsstjórinn tilkynnti að ekki yrði hægt að klára sýninguna sökum þess að ein leikkonan hefði slasað sig héldu áhorfendur eðlilega að um gabb væri að ræða og hlógu að vandræðaganginum. „Það hafa nokkrir haft samband við mig í dag [fimmtudag] sem voru á sýningunni í gær [miðvikudag] og verið miður sín yfir að hafa hlegið að aðstæðum eftir að ég slasaðist,“ segir Birna Rún og tekur fram að samstarfsfélagar hennar á sviðinu hafi ekki einu sinni áttað sig á meiðslum hennar til að byrja með.

Blóðið spýttist út um allt

„Við erum með gerviblóð baksviðs sem við notum í sýningunni, m.a. blóðpoka sem hægt er að geyma undir vörinni og sprengja á rétta augnablikinu til þess að það blæði út um munninn. Samleikarar mínir héldu því að ég væri bara að gera tilraun með gerviblóðið og höfðu því engar áhyggjur,“ segir Birna Rún og rifjar upp að hún hafi sennilega kyngt um fimm sinnum munnfylli af blóði meðan hún lá í hvarfi bak við legubekk á sviðinu áður en persónu hennar, sem á að hafa rotast af hurðinni, er af samleikurum lyft upp og hún dregin út um gluggann, en samkvæmt handriti þarf nokkrar tilraunir þar sem samstarfsfólkið á í vandræðagangi sínum að missa hana ítrekað.

„Það var svolítið erfitt og þá spýttist heilmikið magn af blóði út um allt og á alla,“ segir Birna Rún og tekur fram að fyrst eftir að hún meiddist hafi hún ætlað að harka af sér og klára sýninguna. „Eftir á sé ég að það hefði aldrei gengið,“ segir Birna Rún og hrósar stjórnendum leikhússins fyrir hversu fagmannlega brugðist var við aðstæðum. „Það er mjög erfitt fyrir leikara að taka ákvörðun um að hætta sýningu í miðjum klíðum, því leikarinn vill alltaf halda áfram. Tíu mínútum eftir að ég var komin út af sviðinu voru bæði Kristín [Eysteinsdóttir borgarleikhússtjóri] og Kári [Gíslason skipulagsstjóri] mætt á svæðið og þau tóku þessa ákvörðun fyrir mig, bæði með mína velferð í huga en líka vegna þess að áhorfendur hefðu ekki fengið réttu sýninguna með mig slasaða,“ segir Birna Rún en Kári fór með hana á spítalann.

Sem fyrr segir var næsta sýning á Sýningunni sem klikkar í gærkvöldi. Aðspurð í gærmorgun hvernig það legðist í hana svaraði Birna Rún: „Ég hlakka alveg ótrúlega til, enda erfitt að hætta í miðjum klíðum. Ég er líka svo glöð að þetta fór ekki verr. Ég er svo glöð að vera með allar tennurnar mínar og að nefið sé ekki skakkt,“ segir Birna Rún og tekur fram að hún gæti ekki óskað eftir betri vinnufélögum. „Þetta er svo góður og skemmtilegur hópur. Meira að segja í gær þegar ég var búin að gráta og jafna mig á mesta sjokkinu þurfti ég að passa mig að hlæja ekki, því þá fann ég svo til í vörinni.“