Samanburður „við hina“ er fremur til gamans en gagns

Núverandi forseti er númer 45 í þeirra röð. Hann er 3. forsetinn ef miðað er við lengd, á eftir Abraham Lincoln og Lyndon Johnson. Hann er númer 1 ef miðað er við eignir forseta. John Kennedy er talinn hafa átt 1 milljarð dollara á núvirði á andlátsstund (en Trump er talinn eiga þrefalt það. Sjálfur segist hann eiga 6 milljarða). John Kennedy er þó talinn hafa verið með meira persónulegt fjármagn á bak við sig sé horft til fjölskylduauðsins sem Joseph faðir hans hafði nurlað saman og ekki alltaf eftir bókinni.

Það kemur á óvart að fyrsti forsetinn var með auðugustu mönnum sinnar samtíðar, því að eignir George Washingtons eru metnar á 525 milljónir dollara á núvirði. Thomas Jefferson átti 212 milljónir dollara. Það liggur ekki fyrir skrá um hvaða forseti teljist gáfaðastur en líklega er Trump ekki í vandræðum með svarið. Kennedy hélt eitt sinn veislu í Hvíta húsinu fyrir þáverandi bandaríska nóbelsverðlaunahafa. Hann sagði í borðræðu að sennilega mætti fullyrða að í annan tíma hefðu ekki meiri gáfur verið til staðar í Hvíta húsinu, nema þá þegar Thomas Jefferson gekk þar einn um ganga.

Ýmsir forsetanna hafa verið kvensamir og jafnvel úr hófi. En máli skiptir hvort litið er til forsetatíðar eða fyrra lífs viðkomandi. Enginn forseti virtist jafn óseðjandi í þeim efnum og Kennedy. En engan fóru fjölmiðlar betur með en hann. Það fékk enginn Bandaríkjamaður að heyra eða lesa annað í „markátakandi“ fjölmiðlum en að Jacqueline fagra ætti tryggasta maka í veröldinni.

En eitt met á Donald Trump örugglega til viðbótar við aurametið. Hann er forseti fyrirsagnanna. Og drýgstan hluta þeirra býr hann til sjálfur. Þess vegna er hann hafður þar núna.