Barátta Darri Hilmarsson og Emil Barja mætast í fjórða sinn með KR og Haukum í undanúrslitum karla í Vesturbænum annað kvöld.
Barátta Darri Hilmarsson og Emil Barja mætast í fjórða sinn með KR og Haukum í undanúrslitum karla í Vesturbænum annað kvöld. — Morgunblaðið/Hari
Það vantar ekki fjörið og spennuna í undanúrslitunum á Íslandsmóti karla. Liðin sem enduðu í fyrsta og öðru sæti eru sem stendur 1:2 undir og þurfa að fara á erfiðan útivöll og sækja sigur til að fá oddaleik á heimavelli.

Það vantar ekki fjörið og spennuna í undanúrslitunum á Íslandsmóti karla. Liðin sem enduðu í fyrsta og öðru sæti eru sem stendur 1:2 undir og þurfa að fara á erfiðan útivöll og sækja sigur til að fá oddaleik á heimavelli.

ÍR-ingar fara norður á Sauðárkrók í kvöld en ÍR-ingar hafa unnið þar tvisvar í vetur og því ættu leikmenn liðsins að hafa bullandi trú á sigri í kvöld. Allir þrír leikirnir í þessari rimmu hafa unnist á útivelli en það hlýtur samt að fara koma að því að heimasigur fari að líta dagsins ljós.

Leikar eru farnir að æsast hjá Haukum og KR og hitinn eykst með hverjum leiknum. Haukar voru betri í fyrstu tveimur leikjunum en voru ofboðslegir klaufar að kasta frá sér leik númer tvö þar sem þeir voru sjálfum sér verstir. Þau eru orðin nokkur atvikin þar sem menn hafa fengið á lúðurinn og síðasta atvikið var þegar Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, fór í andlitið á Emil Barja í baráttu um frákast. Þar á undan hafði t.d. Kristófer Acox fengið olnbogann á Finni Magnússyni í sig.

Þá hafa mörg viðtölin eftir leikina verið áhugaverð, sem krydda þessa seríu vel og mikið. Þessi sería verður eins og kaupfélagsstjórinn vildi hafa steikina sína, vel steikt með miklum pipar. Ef einhverjir lesendur skilja ekkert hvað ég er að tala um núna þá er ráð að horfa á meistaraverkið Nýtt Líf við fyrsta tækifæri. Það má enginn fara í gegnum lífið án þess að horfa á þá kvikmynd alla vega tuttugu sinnum.

Komu Haukunum á óvart

KR-ingar virtust koma Haukum aðeins á óvart í leik númer þrjú þegar þeir tóku besta mann Hauka, Kára Jónsson, úr umferð og hinir fjórir varnarmennirnir dekkuðu ákveðin svæði. Kári skoraði engu að síður 21 stig en KR spilaði sinn besta sóknarleik í þessum leik. Brynjar Þór fann taktinn í seinni hálfleik eftir að hafa misst af fjórum leikjum vegna meiðsla.

Aðrar gleðifréttir fyrir KR-inga eru að Kendall Pollard er allur að koma til. Hann er ekki kominn í toppstand en standið á honum er töluvert betra en það var til að byrja með. Hann átti tvö flott varin skot í síðasta leik og ef maður reiknar tölfræðina hans út frá því ef hann myndi spila allar 40. mínúturnar þá er hann með 30 stig og 17 fráköst að meðaltali.

KR-ingar eiga síðan geitina (besta íslenska leikmann allra tíma), Jón Arnór Stefánsson, inni og spurning hvort hann verði með á morgun. Hversu viðeigandi er það að hann búi í götu í Reykjavík sem heitir Geitland?

Haukar hafa alla burði til að mæta í Vesturbæinn og jafna einvígið og fá oddaleik á heimavelli. Þeir hafa verið betri aðilinn í tveimur leikjum af þremur þrátt fyrir að vera 1:2 undir. Paul Jones virðist vera orðinn betri eftir að hafa spilað meiddur í leik númer tvö. Manni finnst stundum eins og hann mætti reyna meira sjálfur því KR-ingar eiga í vandræðum með hann.

Stóluðu of mikið á Carmen

Hjá konunum er annarri undanúrslitarimmunni lokið þar sem Haukar sópuðu Skallagrími úr keppni 3:0. Haukar líta svakalega vel út og áttu ekki í vandræðum með Skallana. Skallar stóluðu mikið á Carmen Tyson-Thomas sem skoraði til að mynda 40 stig af 64 stigum liðsins í leik númer tvö sem fram fór í Borgarnesi. Gæði og liðsheild Hauka var hreinlega of mikið fyrir Borgnesinga sem væntanlega munu safna liði í sumar fyrir næsta vetur. Þessi mikli körfuboltabær á nú karla- og kvennalið í efstu deild sem er ansi vel gert.

Valur þarf að stjórna hraðanum

Á móti má Ingvar Guðjónsson, þjálfari Hauka, vera ánægður með liðið sitt þessa dagana.

Haukastelpur bíða eftir að sjá hvort þær mæta Keflavík eða Val í úrslitum en staðan er 2:1 fyrir Val sem vann fyrstu tvo leikina en Keflavík vann þriðja leikinn og hélt seríunni opinni.

Valsstelpur geta klárað þetta í kvöld á heimavelli. Þær eru með þetta í eigin höndum og nú reynir á andlegan styrk til að klára dæmið. Valur gerði vel að stöðva Brittany Dinkins í liði Keflavíkur í fyrstu tveimur leikjunum en það héldu henni engin bönd í leik númer þrjú. Ef Keflavík nær sínum hraða leik, sem Dinkins stjórnar svo vel, þá er Keflavíkurliðið svakalega gott. Það er því lykilatriði fyrir Val að hægja vel á þeim og stjórna hraðanum. Keflavík hefur hefðina fram yfir Val og liðið hefur verið að vinna titla undanfarið en Valskonur eru með gæðin til að klára þessa seríu í kvöld. Valsstelpur vilja ekki fara til Keflavíkur í oddaleik.

Sérfræðingur Morgunblaðsins Benedikt Guðmundsson benediktrunar@hotmail.com Benedikt Guðmundsson er reyndur körfuboltaþjálfari og fyrrverandi íþróttafréttamaður sem er sérfræðingur Morgunblaðsins í körfubolta. Í dag fer hann yfir stöðu mála í úrslitakeppni karla og kvenna um Íslandsmeistaratitilinn.