Erla Sigríður Hallgrímsdóttir fæddist í Reykjavík 8. apríl 1975. Hún lést á Landspítalanum við Hringbraut 2. apríl 2018.

Foreldrar hennar eru Hallgrímur Hallgrímsson byggingarverkfræðingur, f. 12. október 1947, og Guðríður Júlíana Guðmundsdóttir hjúkrunarfræðingur, f. 8. júlí 1947. Systkini Erlu Sigríðar eru: 1) Elín, f. 19. mars 1972, maki Steinn Guðmundsson, börn: Þórdís Elín, Hildur og Vilborg Júlíana. 2) Berglind, f. 1. febrúar 1979, maki Helgi Skúli Friðriksson, börn: Birta Júlía, Daníel Freyr og Hilmar Alexander. 3) Guðmundur Sigurvin, f. 14. nóvember 1984.

Dóttir Erlu Sigríðar er Helga Júlíana, f. 10. september 2013, barnsfaðir Jón Bjarni Magnússon.

Erla Sigríður ólst fyrstu tvö árin upp í Hafnarfirði og síðan fluttist fjölskyldan til Reyðarfjarðar en sjö ára gömul flutti hún í Selásinn í Reykjavík. Erla Sigríður útskrifaðist frá MR 1995, lærði félagsfræði við Háskóla Íslands og tók MA-gráðu í félagsráðgjöf frá Háskólanum í Sydney í Ástralíu árið 2003. Erla vann í Árseli með skóla og vinnu í rúm 10 ár frá 1998 og sem félagsráðgjafi með unglingum hjá Félagsþjónustu Reykjavíkur í Mjódd frá 2001, en frá 2011 starfaði hún hjá Barnavernd Reykjavíkurborgar. Hún vann einnig sem ráðgjafi hjá Íslenskri ættleiðingu frá árinu 2011 til ársins 2017.

Erla Sigríður stofnaði sitt fyrsta heimili í Barmahlíð og bjó þar þangað til hún hóf sambúð með Jóni Bjarna Magnússyni. Þau slitu sambúð 2017. Erla hafði nýlega keypt stærri íbúð í Safamýri.

Útför Erlu Sigríðar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 13. apríl 2018, klukkan 13.

Það er þungbærara en orð fá lýst að þurfa að kveðja hana Erlu Sigríði okkar.

Öll viljum við óraskaða tilveru þar sem allir eru á sínum stað, en því miður er það ekki alltaf raunin. Við sjáum ekki né skiljum alltaf tilgang þessa heims og finnst óréttlátt að ung kona sé hrifin burt frá óloknu dagsverki. Ef til vill er einhver æðri tilgangur sem okkur er hulinn, en Erla Sigríður er horfin. Hún tæmdi þann bikar sem henni var réttur.

Allan þann tíma sem Erla Sigríður barðist við veikindin sín sýndi hún mikið hugrekki og stillingu. En það hryggði hana mjög þegar hún áttaði sig á því að hún mundi ekki sjá Helgu Júlíönu sína vaxa úr grasi. Eftir erfið veikindi var hvíldin óumflýjanleg. Eigingirnin hellist þó yfir og það er erfitt að sleppa takinu. Þannig var það einnig með Erlu, hún átti erfitt með að sleppa takinu á lífinu.

Erla hafði brennandi áhuga á lífinu og öllu sem í kringum hana var. Hún var góður vinur enda vinamörg og passaði alltaf upp á að engum væri gleymt. Erlu fannst líka gaman að útivist og hreyfingu. Hún æfði fimleika á yngri árum og seinna meir var hún mjög dugleg að hlaupa og æfa crossfit. Erla Sigríður ferðaðist mikið og eina heimsálfan sem hún átti eftir að heimsækja var Suðurskautslandið.

Öllu ofar var Erla Sigríður móðir. Allt fram til síðustu stundar lýsti andlit Erlu upp þegar Helga Júlíana var nálæg. Hjá systkinabörnum var Erla Sigríður mikils metin, enda elskaði hún þau öll sem þau væru hennar. Þau litu upp til hennar og hún var þeim góð fyrirmynd.

Við eigum mikið af fallegum minningum um Erlu Sigríði sem við munum halda á lofti og geyma alla tíð. Vonandi munu þær hjálpa okkur í gegnum þessa sorgartíð.

Guð styrki Jón Bjarna og Helgu Júlíönu, litla sólargeislann í lífi okkar.

Hvíl í friði, elsku Erla Sigríður okkar.

Mamma, pabbi og systkini.

Erla kom inn í líf okkar þegar hún og Jón Bjarni sonur okkar hófu að stinga saman nefjum árið 2011. Hún var strax mjög frjálsleg í fasi, sjálfsörugg og ófeimin og passaði inn í stórfjölskyldu Jóns Bjarna eins og hún hefði alltaf verið ein af okkur. Hún hafði víða ferðast og heillaði okkur strax með fjörlegri frásagnargleði sinni af ferðum um Rómönsku Ameríku og Suðaustur-Asíu. Hún var víðsýn og greindi skemmtilega frá náttúru og lifnaðarháttum framandi þjóða og smitaði okkur af ferðafýsn. Í framhaldi af frásögn hennar um Víetnam gerðum við alvöru úr ferð þangað árið 2013. Erla kom jafnan færandi hendi úr ferðum sínum, færði okkur t.d. Havanavindla og kaffibaunir frá ferð sinni til Kúbu en ekki fannst henni allt fagurt sem hún sá þar.

Það fylgdi Erlu lífskraftur og þau Jón Bjarni sameinuðust í útivistaráhuga; gönguferðum, hlaupaíþróttinni og heilnæmum lífsstíl. Jafnan þegar þau komu úr gönguferðum og litu inn í kaffi eða mat fylgdi þeim ferskur andblær úr fjallaskörðum eða lyngmóa. Það var eins og samvera úti í náttúrunni færði þeim einnig aukna andagift.

Erla var jafnréttissinni og tók jafnan málstað þeirra sem minna máttu sín. Hún starfaði lengst af sem félagsráðgjafi og í barnavernd þar sem hún naut þess að leiðbeina fólki og aðstoða í lífsins ólgusjó, en gat jafnframt verið ákveðin þegar þurfti að setja skjólstæðingum skýr mörk. Hún kunni sitt fag og var þarna á réttri hillu.

Það var yndislegt að fylgjast með þegar Helga Júlíana fæddist og hve natin Erla var, og þau bæði, við umönnun og uppeldi; enda hefur sú umhyggja borið ríkulegan árangur. Móðurástin var hrein og tær, og allt varð að vera vel úr garði gert fyrir barnið. Erla útbjó tvær ljósmyndabækur um fyrstu ár Helgu Júlíönu, sem eru henni dýrmæt minning.

Erla var vinmörg og átti stóra og umvefjandi fjölskyldu. Hún hafði góða nærveru og átti auðvelt með að blanda geði við alla, jafnt háa sem lága; unga sem aldna. Hún var jafnan mjög þakklát fyrir öll samskipti okkar, ekki síst síðustu árin; hvort heldur það voru myndir af Helgu Júlíönu í tölvupósti eða eitthvað annað. Okkar fólk fylgdist vel með litlu fjölskyldunni frá upphafi. Það bar hag Erlu mjög fyrir brjósti þegar hún veiktist, sendi stuðningskveðjur og góða strauma, og hugurinn var hjá henni í ójafnri baráttu við krabbameinið.

Erlu er sárt saknað. En minningin lifir um góða tengdadóttur í okkar fjölskyldu og við hjálpumst öll að við að halda vel utan um snúllukrúsuna þeirra Jóns Bjarna.

Hugheilar samúðarkveðjur til allra ástvina.

Helga og Magnús.

Nærri fjögurra áratuga vinátta Erlu frá barnæsku, yfir á unglings- og fullorðinsár og í móðurhlutverki hefur mótað okkur allar, vinkonur og bekkjarsystur Erlu úr Árbænum. Þau ráð og sú leiðsögn sem við sóttum til hennar reyndust okkur ávallt vel því hún bjó yfir ígrunduðum skoðunum, mikilli visku og frá henni stafaði traust, sönn alúð og umhyggja.

Víðsýni fékk Erla á ferðalögum sínum út um allan heim þar sem hún kynntist ólíkum menningarheimum og styrkti vinabönd. Hún átti jafnan eina ferð skipulagða fram í tímann, ef ekki tvær, og sú eina sem kom með nægan pening heim úr margra vikna eða mánaða ferðalögum til að kaupa bíl eða sófasett.

Heilbrigt líferni og skipulagt líf einkenndi Erlu sem alltaf átti nægan tíma fyrir vini sína. Hún var mikill þátttakandi og stuðningsmaður í lífi okkar vinkvennanna, samgladdist okkur, fylgdist með og studdi í einu og öllu sama hvað gekk á í hennar lífi.

Fyrir um tíu árum ákváðum við að skrifa niður það sem okkur langaði til að gera saman og upplifa, skipta því niður á mánuði og skiptast á að skipuleggja og koma hópnum saman, undir dyggri stjórn Erlu. Þetta endurtókum við á 2-3 ára fresti og áttum yndislegar samverustundir auk margra daga tilhlökkunar fyrir hvert skipti. Bogfimi, skvísubíó, sushi-gerð, handsnyrting, fondant-kökur, brjóstsykursgerð, gönguferðir, New York-ferð, keila, fjallgöngur, morðgátumatarboð í fullum skrúða, búðarferðir, ljósmyndasamkeppni, skautar, fiskisúpa með mæðrum okkar, golf og þar fram eftir götunum gerði okkur aftur að stelpunum sem kynntust í grunnskóla og léku sér saman.

Erla barðist af fullri hörku hvert einasta augnablik í veikindunum með gleði og jákvæðni að leiðarljósi. Hún kunni að koma líðan sinni í orð og sækja styrk til fjölskyldu og allra vinahópanna sem hún tilheyrði. Við þökkum Óskari lækni fyrir hvatninguna og stuðninginn við Erlu sem hún mat mikils því hann varð nokkurs konar meðlimur í okkar hópi og fundir okkar vinkvennanna réðust oft mikið til af því hvað Óskar var með á prjónunum fyrir Erlu.

Erla lifði fyrir Helgu Júlíönu í fyllsta skilningi og var henni yndisleg móðir og fyrirmynd. Hún bjó yfir takmarkalausri þolinmæði og áhuga á uppeldinu og var okkur vinkonunum fullkomið fordæmi. Birtuna og lífsgleðina sem fylgdi Erlu alla tíð sjáum við í Helgu Júlíönu sem mun búa að þeirri umhyggju og elsku sem Erla umvafði hana með.

Erla gerði heiminn betri og munum við ávallt búa að vinskapnum sem mótaði okkur fyrir lífstíð. Við kveðjum Perluna okkar með mikilli sorg í hjarta og sendum Helgu Júlíönu og fjölskyldu Erlu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Adda Mjöll, Björg Rós,

Ingunn og Pálína.

Ég var svo heppinn að vera bæði frændi og vinur Erlu perlu og höfum við verið til staðar fyrir hvort annað í gegnum súrt og sætt. Skemmt okkur saman og tókum reglulega spjall um lífið og tilveruna, nú eða um allt og ekkert. Við Erla vorum systkinabörn og ólumst upp við það að ómissandi partur af jólagleðinni var þegar spiluð var framsóknarvist með ömmu og öllum skyldmennunum. Áfram hélt þessi siður eftir daga ömmu þar til árið 2010 að systkinin ákváðu að láta staðar numið, amma hefði orðið 100 ára og systkinin öll að eldast. Við systkinabörnin settumst þá niður að tilstuðlan Erlu og sögðum; þau eru hætt en við erum ekki hætt. Við Erla höfum alltaf verið miklar félagsverur og til að tryggja að ættarhittingurinn héldist áfram settum við okkur í tveggja manna nefnd yfir þessu verkefni sem skipist á að vera framsóknarvist og útilega annað hvert ár. Elín, systir Erlu, kom svo inn í nefndina þegar Erla veiktist í fyrra skiptið en Erla var áfram virk eftir því sem þróttur leyfði. Erla var einstaklega dugleg að rækta vini sína, var vinamörg og hún var sannur vinur.

Lífið er stundum ósanngjarnt og stundum er erfitt fyrir okkur fullorðna fólkið að skilja tilgang lífsins og hvað þá börn. Þannig var ég að undirbúa Högnu, 7 ára dóttur mína, undir það sem verða vildi. Kveiktum við á kertum fyrir Erlu þegar ljóst var hvernig baráttan við krabbameinið myndi enda. Sagði ég Högnu að við værum að kveikja á kertum fyrir Erlu frænku. Er Erla frænka dáin? spurði Högna og ég sagði henni að hún færi að deyja á næstu dögum, hún væri mjög veik. „En hún á Helgu, sem er svo ung. Það er svo erfitt að missa mömmu sína þegar maður er svona ungur,“ sagði Högna. Erla dó fjórum dögum síðar.

Já, það er erfitt að missa mömmu, dóttur, systur, frænku, vinkonu og vin. Stundum finnst manni lífið ósanngjarnt en lífið heldur áfram og ljósið er allar þær góðu minningar sem Erla skyldi eftir sem og Helga Júlíana sem ég veit að verður umvafin ást.

Ég votta fjölskyldunni samúð mína.

Lúðvík Kristinsson.

„Þegar þú ert sorgmæddur, skoðaðu þá aftur huga þinn, og þú munt sjá, að þú grætur vegna þess sem var gleði þín.“

(Kahlil Gibran)

Þessi orð úr Spámanninum koma okkur í huga á þessari sorgarstundu þegar við minnumst gleðigjafans, nöfnu okkar Erlu Sigríðar sem í dag er til moldar borin eftir hetjulega baráttu við illvígan sjúkdóm.

Það er sárt fyrir okkur, ættingja og vini, að sjá á eftir þessari glæsilegu og vel menntuðu konu sem á besta aldri var frá okkur tekin á svo grimmilegan hátt.

En mestur er þó missirinn hjá fimm ára dótturinni sem sjá má á eftir elskaðri móður svo skyndilega.

Við minnumst nöfnu okkar með söknuði og þakklæti í huga fyrir allar gleðistundirnar sem hún gaf okkur.

Við sendum Helgu Júlíönu og Jóni Bjarna, foreldrum, systkinum og fjölskyldum þeirra, okkar innilegustu samúðarkveðjur og óskum þeim allra heilla í framtíðinni.

Erla Eiríksdóttir og

Sigurður Hallgrímsson.

Vinátta okkar hófst fyrir tæpum tuttugu árum. Við vorum allar starfsmenn Félagsmiðstöðvarinnar Ársels þar sem starfsandinn einkenndist af gleði, vináttu og virðingu og var Erla þar fremst í flokki.

Þetta var frábær hópur af fólki, sem var saman kominn til að vinna með unglingum, hafa áhrif á þá og hugsanlega ná að sá fræjum til að gera þá enn betri. Þetta var mjög skemmtilegur tími og alveg ótrúlega öflugur starfsmannahópur, sterk liðsheild. Við vorum alltaf að skipuleggja eitthvað skemmtilegt, bæði með unglingunum og svo líka við starfsfólkið eins og utanlands- og sumarbústaðaferðir og í einni slíkri ferð urðu einmitt til einkunnarorð okkar sem oft voru notuð: Við erum úr Árseli, við erum í klíkunni og við erum laaaangflottastar!

Með árunum fór að tínast úr starfsmannahópnum og var þá ákveðið að við myndum halda í vináttuna og rækta hana með því að hittast reglulega. Þetta hefur verið yndislegur tími og við höfum getað fylgst með og tekið þátt í lífi hver annarrar í gegnum súrt og sætt. Við höfum stutt hver aðra, leitað ráða og hvatt áfram, tekið þátt í gleði og sorg. Nú er stórt skarð komið í fallega vinkvennahópinn okkar, perlan okkar er farin frá okkur.

Þegar Erla greindist þá hafði það mikil áhrif á okkur allar. Við stóðum þétt við bakið á Erlu, hittumst allar reglulega og pössuðum upp á hana. Erlu fannst best að fá að vera hún sjálf þegar hún var með okkur, ekkert vera að tala um veikindin heldur bara hlæja, slúðra og hafa gaman. Alveg eins og áður. Hún var ótrúlega sterk og jákvæð fram á síðasta dag, það var til eftirbreytni. Hún trúði á betri tíð og kveikti vonarneista í brjósti okkar allra. Hún fór í gegnum þetta erfiða ferðlag alveg eins og hún var, töffari með hjarta úr gulli.

Sumir hverfa fljótt úr heimi hér

skrítið stundum hvernig lífið er,

eftir sitja margar minningar

Þakklæti og trú.

Þegar eitthvað virðist þjaka mig

þarf ég bara að sitja og hugsa um þig,

þá er eins og losni úr læðingi

lausnir öllu við.

(Ingibjörg Gunnarsdóttir)

Elsku besta vinkona okkar, Erla perla. Mikið sem við eigum eftir að sakna þín. Við þökkum fyrir vináttuna, kærleikann, gleðina, slúðrið og hláturinn. Við hugsum fallega til þín og komum til með að halda þínum heiðri á lofti. Minning þín lifir í hjarta okkar alla tíð. Hugur okkar og kærleikur er hjá elsku mömmugullinu þínu Helgu Júlíönu, systkinum, foreldrum og öðrum ástvinum. Hvíldu í friði, elsku perlan okkar.

Þínar vinkonur

Anna, Ágústa, Ása, Kristrún, Kristín,

Sigrún og Sigurbjörg

Elsku Erla, nú ertu orðin engill allt of snemma, hversu ósanngjarnt getur lífið verið? Mikið hefur verið á þig lagt undanfarið og ég vona að þér líði betur en missir okkar sem eftir lifum er mikill.

Ég datt heldur betur í lukkupottinn fyrir tuttugu árum þegar við Erla gengum inn á sama vinnustaðinn að hefja okkar fyrsta starfsdag á nýjum vinnustað. Strax þennan dag tókst með okkur frábær vinskapur enda manneskja eins og Erla vandfundin. Erla var ekki bara eldri, klárari og mun skynsamari en ég heldur var hún einstök og við skildum hvora aðra svo vel, þurftum stundum ekkert að tala því við skildum hvor aðra. Erla byrjaði fljótt að leggja mér lífsreglurnar og beindi mér á beinu braut lífsins, sagði að ég þyrfti ekkert að sofa á morgnana meðan hún væri í Háskólanum, heldur ætti ég að drífa mig í háskóla og nýta tímann vel. Við Erla gerðum margt saman utan vinnutíma og það er gaman að skoða myndaalbúmin frá þessum árum þar sem Erla er á annarri hverri mynd og gleðin allsráðandi. Við brölluðum ýmislegt saman og fórum í mjög mörg ferðalög, þau sem standa helst upp úr eru skemmtilegar útilegur í Þórsmörk, á Búðum og fleiri fallegum stöðum innanlands, sumarbústaðarferðir svo ekki sé talað um utanlandsferðirnar. Þó að síðari ár hafi samvera okkar ekki verið eins mikil og árin þar á undan var vináttan einstök, alltaf þegar við hittumst eða töluðum saman í síma var eins og við hefðum hist í gær. Erla reyndi nokkrum sinnum að fá mig aftur sem samstarfsmann sinn og hringdi ávallt í mig þegar lögfræðistörf losnuðu í vinnunni hjá henni. Erla var sannur vinur og undanfarna mánuði minnti hún mig reglulega á það að frumburðurinn minn, Tandri Snær, væri svolítið mikið henni að þakka og hún liti svo á að hún ætti alltaf smá í honum. Fyrir þetta og vináttu okkar verð ég henni ævinlega þakklát og mun ég reyna að kenna honum allt sem hún kenndi mér. Minning um Erlu mun lifa að eilífu í hjarta mínu.

Hvíldu í friði, elsku Erla.

Elsku Helga Júlíana, fjölskylda Erlu og aðrir aðstandendur, hugur minn er hjá ykkur á þessum erfiðu tímum.

Þín vinkona,

Ása Bergsdóttir Sandholt.

Komið er að góðra vina kveðjustund, allt of fljótt. Hvern hefði grunað að maður ætti eftir að sitja hér og skrifa minningargrein um sína bestu vinkonu í blóma lífsins. Manni er það óskiljanlegt hvers vegna ung kona veikist og deyr frá ungu barni sínu. Efst er mér í huga þakklæti fyrir einstaka vináttu allt frá unglingsárum og munu dásamlegar minningar ylja mér um hjartarætur um ókomna tíð.

Erla kunni að lifa lífinu og hvernig hún gerði það var til fyrirmyndar eins og allt sem hún tók sér fyrir hendur. Dugnaður, skynsemi, sjálfsagi, skipulagshæfileikar og góðmennska eru orð sem lýsa henni vel. Hún átti ógrynni góðra vina því hún var stórskemmtileg og traustur vinur. Ævintýraþráin leiddi hana til allra heimsálfa utan Suðurskautslandsins og fannst henni ekkert tiltökumál að skella sér í framhaldsnám alla leið til Sydney.

Prakkarastrikin á unglingsárunum voru nokkur en ég held þeim fyrir mig. Þá var stofnaður klúbbur nokkurra góðra vinkvenna sem við köllum Mafíuna og hafa reglulega verið haldnir háleynilegir mafíufundir þar sem mikið var hlegið. Er nú stórt skarð höggvið í hópinn.

Ég á Erlu svo margt að þakka. Í tvo vetur passaði hún elstu dóttur mína vikulega svo ég gæti lokið námi í kvöldskóla sem var ómetanlegt fyrir einstæða unga móður. Erla gantaðist stundum með að hún væri stjúppabbi dóttur minnar og þær voru miklir vinir. Sumarið 1998 dvaldi Erla í Kaupmannahöfn og heimsóttum við mæðgur hana þangað og brölluðum við þá margt skemmtilegt.

Erla var góður námsmaður og menntaði sig í félagsráðgjöf. Með háskólanámi vann Erla í félagsmiðstöðinni Árseli og sagðist hún elska unglinga, þeir væru svo skemmtilegir. Það sýnir glöggt hve barngóð hún var enda starfaði hún síðustu árin hjá Barnavernd.

Ótal góðar minningar skjótast upp í kollinn, svo sem sumarbústaðaferðir og útilegur en eftirminnilegust er heimsókn sem við fórum saman í til Fríðu vinkonu okkar og fjölskyldu í Kaliforníu í desember 2016. Þar áttum við dýrmætar samverustundir.

Erla kynntist Jóni Bjarna og eignuðust þau saman dásamlegu Helgu Júlíönu sem var ljósið í lífi mömmu sinnar. Fjölskylda Erlu stóð þétt við bakið á henni í hennar erfiðu veikindum. Sendi ég þeim öllum sem og vinum Erlu mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Minningin um einstaka vinkonu lifir.

Kolbrún Ósk Ívarsdóttir.

Elsku hjartans Erlan mín, nú kveð ég þig í síðasta sinn í þessu lífi en trúi því að við eigum eftir að hittast aftur. Þegar ég hugsa til baka þá er svo margs að minnast og mikið hægt að segja, en orð á stundu sem þessari eru svo fátækleg.

Við hjá Félagsþjónustunni í Mjódd duttum heldur betur í lukkupottinn þegar þú komst til okkar sem félagsráðgjafarnemi og síðar sem fullgildur félagsráðgjafi. Ég var sú heppna því ég fékk að vera, ekki bara samstarfsfélagi þinn heldur líka vinkona. Það voru ófá skiptin sem við spjölluðum um lífið og tilveruna, við studdum hvor aðra þegar á móti blés og er ekki hægt að hugsa sér betri vinkonu en þig.

Þær voru ófáar samverustundirnar sem við áttum í athvarfinu, við sátum þar og biðum eftir að Jói lögga og Bjössi kæmu með unglingana til okkar. En þar sem unglingarnir í Breiðholtinu voru öll til fyrirmyndar þá var oft ekki mikið að gera. Við nýttum tímann hins vegar vel, við þurftum að borða allt nammið sem við náðum okkur í á nammibarinn og svo var spjallað um allt og ekkert, við trúðum hvor annarri fyrir hinum ýmsu leyndarmálum, reyndum að vera lausnarmiðaðar og valdeflandi hvor fyrir aðra.

Þú varst alltaf svo umhyggjusöm og passaðir upp á Þóruna þína, þú passaðir alltaf upp á að ég væri með og væri upplýst um það sem skipti máli. Þegar þú tókst þá ákvörðun að skipta um vinnu og fara yfir til Barnaverndar þá passaðir þú svo vel upp á að tilkynna mér það af varfærni, því þú vissir svo vel hvað mér fannst um það. Ég var bara eigingjörn og vildi hafa þig alltaf, þú varst orðin stór partur af mér og mínu lífi. Þrátt fyrir þennan aðskilnað okkar í vinnu þá hélst vináttan. Við vorum miklar afmælisstelpur, við héldum alltaf upp á afmælisdagana okkar, fórum á deit í hádeginu, gáfum hvor annarri gjafir og pössuðum að gleðja hvor aðra á þessum dögum okkar. Þú hafðir meira að segja fyrir því að senda gjöf til mín frá Brasilíu þegar þú varst þar og gast ekki fagnað með mér og svo fylgdir þú henni eftir með símtali á afmælisdaginn. Ég man hvað Helgi varð móðgaður þegar ég sagði að þetta símtal hefði verið dýrmætasta gjöfin þetta árið. Þú passaðir svo vel upp á mig, hringdir spes í mig til Frakklands til að tilkynna mér að það væri von á litlu fallegu Helgu Júlíönu, þú lést mig líka vita þegar veikindin komu upp og hélst mér upplýstri því þú vildir ekki að ég frétti neitt frá öðrum en þér. Þú varst svo góð við stelpurnar mínar og héldu þær svo mikið upp á þig, Sólrúnu fannst svo vænt um kransakökuna frá ykkur mömmu þinni á fermingardaginn.

Ég er svo þakklát fyrir tímann sem við áttum saman, piparkökuskreytingarnar um jólin með litlu snúllu og síðasta skiptið sem við hittumst, við kvöddumst svo vel og gafst þú mér svo gott knús áður en ég fór. Allar þessar minningar ylja og maður huggar sig við þær. Takk, elsku Erlan mín, fyrir samfylgdina, við sjáumst síðar.

Elsku Helga Júlíana, fjölskylda og aðstandendur allir, ég bið guð og góða vætti að styrkja ykkur í sorginni.

Þóra G., Helgi,

Jóhanna Rut, Andrea Rán og Sólrún Ósk.

Elsku Erla.

Hér sitjum við í 8-villt-hópnum án þín og finnst erfitt að átta okkur á að þú sért farin frá okkur. Þó að þú hafir átt við erfið veikindi að stríða undanfarin ár þá bar andlát þitt skyndilega að. Við byrjuðum að hittast sem hópurinn 8-villt árið 2008 þegar við störfuðum öll saman á Þjónustumiðstöð Breiðholts og varst það þú sem hélst hvað best utan um hópinn og skipulagðir hver ætti að halda næsta hitting, Erla Excel eins og við kölluðum þig. Það sem hefur einkennt þín samskipti í hópnum er hversu traust og góð vinkona þú ert, alltaf jákvæð og drífandi og samgladdist alltaf með öðrum. Þú varst mikill rokkari í þér og passaðir upp á það að Helga Júlíana fengi að kynnast alvöru tónlist eins og þú kallaðir það. Helga Júlíana var þér allt og þú geislaðir þegar þú talaðir um snúllukrúttið þitt. Að horfa á ykkur tvær saman var eins og að horfa á tvo sólargeisla að njóta lífsins. Hláturinn, gleðin og hamingjan skein frá ykkur mæðgunum.

Að eiga vin er vandmeðfarið.

Að eiga vin er dýrmæt gjöf.

Vin, sem hlustar, huggar, styður,

hughreystir og gefur von.

Vin sem biður bænir þínar,

brosandi þér gefur ráð.

Eflir þig í hversdagsleika

til að drýgja nýja dáð.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku Erla, heimurinn er fátækari án þín. Þú ert og verður alltaf partur af 8-villt.

Bryndís Ósk, Dögg, Íris Ósk, Jóhanna Erla, Jóna Guðný, Kristinn og Sigrún Ósk.

Það er með trega og sorg í hjarta að ég kveð mína elskulegu vinkonu. Allt frá því að leiðir okkar lágu saman fyrst haustið 1999, þar sem við störfuðum í félagsmiðstöðinni Árseli, myndaðist sterkur og traustur vinskapur okkar á milli sem varði allt fram á síðasta dag.

Á stuttum en skemmtilegum tíma náðum við að bralla margt saman; útilegur, tónleikar, sumarbústaða- og utanlandsferðir svo fátt eitt sé nefnt. Á tímabili var það fastur liður í tilverunni hjá okkur að horfa á Friends-þættina saman í litlu íbúðinni á Mánagötunni og misstum við ekki úr einn einasta þátt. Þetta var ómetanlegur tími sem við áttum saman sem ég mun ávallt minnast með mikilli hlýju. Fyrir hugskotssjónum mínum líða ótal góðar minningar um einstaka manneskju og einstaka einlæga vináttu sem aldrei bar skugga á.

Erla hafði alla þá mannkosti sem sönn vinkona þarf að hafa til að bera. Hún var yndisleg vinkona; traust, hæfileikarík, gáfuð, lífsglöð og dásamlega skemmtileg í alla staði. Erla var ákveðin og hafði sterkar skoðanir sem hún var aldrei feimin við að láta í ljós.

Það er þungbært að kveðja nána vinkonu alltof snemma. Erla beið í lægri hlut fyrir sameiginlegum óvini okkar, krabbameininu, eftir hetjulega barráttu þar sem hún gaf aldrei upp vonina. Við studdum ávallt hvor við aðra gegnum súrt og sætt, sigra og ósigra. Ég mun sakna samverustunda með þér og ótal símtala við þig, elsku Erla.

Elsku Helga Júlíana mömmugull og fjölskylda Erlu. Ykkur votta ég mína innilegustu samúð. Megi fallegar minningar um elsku Erlu dvelja með okkur að eilífu.

Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér

hvert andartak er tafðir þú hjá mér

við sólskinsstund og sæludraumur hér

minn sáttmáli við Guð um þúsund ár.

(Halldór Laxness)

Elska þig, þín vinkona,

Ágústa.

Í dag kveðjum við góða vinkonu og móður yndislegrar stelpu.

Elsku Erla, þín verður sárt saknað, það líður ekki sá dagur að við hugsum ekki til þín.

Okkur langar að kveðja þig með þessu fallega ljóði,

Nú ríkir kyrrð í djúpum dal,

þótt duni foss í glúfrasal,

í hreiðrum fuglar hvíla rótt,

þeir hafa boðið góða nótt.

Nú saman leggja blómin blöð,

er breiddu faðm mót sólu glöð,

í brekkum fjalla hvíla hljótt,

þau hafa boðið góða nótt.

Nú hverfur sól við segulskaut,

og signir geisli hæð og laut,

er aftanskinið hverfur hljótt,

það hefur boðið góða nótt.

(Magnús Gíslason)

Við sendum foreldrum, systkinum og öðrum ástvinum Erlu okkar innilegustu samúðarkveðjur, megi Guð styrkja ykkur í þessari miklu sorg.

Minningin um góða vinkonu lifir.

Gyða Gunnarsdóttir

og Hólmfríður

Einarsdóttir.

Elsku, elsku spúsí mín!

Hvað er hægt að segja á svona stundu? Þegar maður er alls ekki tilbúinn að kveðja en aðstæðurnar bjóða ekki upp á annað. Ef það hefði verið einhver sem hefði getað sigrast á þessum veikindum með viljastyrk, lífskrafti og dugnaði þá hefði það verið þú, elsku vinkona, en þessi veikindi reyndust því miður ósigrandi. Nú hefur skarð myndast í líf okkar allra sem verður aldrei hægt að fylla, bara hægt að læra að lifa með, vitandi það að héðan í frá verður lífið alltaf fátæklegra án þín.

En þegar litið er til baka, vá hvað við nýttum tímann okkar vel saman og létum marga drauma rætast! Námstíminn okkar í félagsráðgjöfinni og framhaldsnámið í Sydney þar sem þú bættir við þig mastersgráðu. Öll ævintýrin sem við upplifðum í Ástralíu, þar sem við sáum Daintree-regnskóginn og Great Barrier Reef mætast. Fórum til Tasmaníu sem fól m.a. í sér spítalaferð eftir köngulóarbit. Lestarferðin til Adelaide, sólarupprásin við Uluru, fljúgandi kakkalakkar sem við kölluðum „Fúsa“ til að gera þá vinalegri í fóbíu-meðferðarskyni, strandferðirnar niður á Bondi og heimsókn foreldra þinna þar sem var reglulega dást að verkfræðiundri Anzac-brúarinnar. Og allir yndislegu vinirnir sem við eignuðumst þar, við vorum alveg sammála um að vinalegra fólk fyrirfinnst ekki neins staðar í heiminum! Nema þá helst í Argentínu sem við upplifðum saman nokkrum árum síðar þegar við létum annan draum rætast, að vinna sem sjálfboðaliðar í Suður-Ameríku og ferðast þar um. Þar sem við sáum nokkur af undrum veraldar m.a. Machu Picchu, Nazca-línurnar og Salar de Uyuni. Upplifðum einnig spúsujól með Tryggva á ósnertu eyjunni Ihla Grande og nutum okkur í botn í elsku Argentínunni okkar. Eftir allt þetta ævintýrabrölt þá áttum við samt eftir að upplifa það allra mikilvægasta, að verða ástfangnar og að verða mömmur! Ég man eftir þeim hamingjutíma þegar þið Jón Bjarni voruð að kynnast og svo tveimur árum seinna kom elsku Helga Júlíana ykkar í heiminn, yfirkrúttsprengja sem bræðir öll hjörtu. Ómetanlegur tími sem við náðum saman með börnunum okkar á Grikklandi og á Spáni, enda líta Tristan og Tinni á Helgu Júlíönu eins og litlu systur sína, vilja alltaf fá hana í heimsókn og „passa“ hana. En hún er bara þannig að allir vilja allt fyrir hana gera, alveg eins og mamma sín. Enda held ég að ég geti með sanni sagt að ég þekki ekki elskaðri manneskju en þig, elsku spúsí mín!

Við eigum eftir að sakna þín svo sárt og það er ennþá óhugsandi að geta ekki talað við þig, séð þig eða knúsað þig. Hugur okkur og hjarta eru búin að vera hjá þér og fjölskyldu þinni, sem er búin að standa við hlið þér í gegnum þessi veikindi eins og klettur og hafa ekki vikið frá þér. Þú getur treyst því að elsku Helga Júlíana þín fær ósjálfrátt heila spúsufjölskyldu í arf sem mun gera allt sem hún getur til að vera til staðar fyrir hana og halda minningunni um þig, þessari stórkostlegu manneskju, vinkonu og mömmu sem þú varst, lifandi eins lengi og við lifum.

Þín elskandi alltaf,

Anna Dóra, Tryggvi, Tristan og Tinni.

„Set fire to the rain“. Þegar Erla sagði mér yfir Facebook Messenger að hún hefði greinst aftur með krabbamein sendi ég henni þetta lag. Hún hafði áður sent mér „Fight song“. Síðan þá hefur lagið með Adele verið Erlu lag í mínum huga. Hún stóð sig endalaust vel í að svara rigningu með eldi og við sem fylgdumst með á hliðarlínunni vorum full aðdáunar og lotningu.

Ég hef árangurslaust reynt að muna hvenær ég sá Erlu fyrst. Hún var alltaf þarna í bakgrunninum frá því á háskólaárunum þegar hún og Anna Dóra vinkona urðu góðar vinkonur í félagsráðgjöfinni. Í minningunni frá þessum tíma var Erla glaðleg, orkumikil, félagslynd og traust. Ljóst hár og létt líkamsbygging. Það var bjart yfir Erlu.

Erla var sú fyrsta í vinahópnum til að greinast með krabbamein. Ég frétti af henni í gegnum vinkonurnar en sá ekki mikið af henni. Þar til ég greindist með krabbamein sjálf. Búsett í London fór ég í gegnum mína meðferð þar. En með nútímatækni rétti Erla út hönd sína. Hún hafði hafði þá nýlokið stífri meðferð og var að aðlagast lífinu aftur á nýjan leik. Hún hafði greinst með erfiða tegund af brjóstakrabbameini.

Af ýmsum ástæðum leitaði ég ekki til stuðningssamtaka fólks með krabbamein í London. Kannski var aðalástæðan á endanum sú að ég hafði Erlu. Hún fylgdist vel með og vissi nákvæmlega hvað var í gangi. Þrátt fyrir að við hefðum fengið ólík krabbamein tengdi hún við mína reynslu og var óþrjótandi við að skilja, hvetja og gefa góð ráð. Ég er og mun alltaf vera henni endalaust þakklát fyrir hennar ómetanlega stuðning á þessu erfiða tímabili í mínu lífi.

Við vinkonurnar vorum mjög slegnar þegar Erla greindist aftur síðastliðið vor, einungis ári eftir að hún kláraði upphaflega meðferð. Það var auðvelt að fyllast óskhyggju þegar horft var á þessa hraustu, fallegu konu og ástríku móður. Erla var alltaf dugleg að stunda íþróttir. Á háskólaárunum var hún fyrst allra á fætur til að fara út að hlaupa meðan við hinar sváfum. En 4. stigs krabbamein er ekkert grín. Það er lífsins alvara.

Nú hefur elsku Erla okkar kvatt. Hún gerði það vel eins og allt annað. Með reisn og virðingu og fókusinn á það sem skipti hana mestu máli. Litla gullið hana dóttur sína. Fjölskyldu Erlu sendi ég mínar dýpstu samúðarkveðjur. Erla fékk kannski ekki langt líf en hún gaf meira af sér en margir myndu á heilli mannsævi.

Eva Gunnarsdóttir.

Elsku Erla okkar, fyrir 17 árum útskrifuðumst við úr félagsráðgjöf frá Háskóla Íslands. Útskriftarhópurinn var ekki stór en við kynntumst vel. Við áttum frábær námsár saman. Við brölluðum ýmislegt saman, bæði í náminu og í félagslífinu. Þú varst einstök manneskja og alltaf til í eitthvað skemmtilegt. Þú varst dugleg að vinna með skólanum t.d. í félagsmiðstöðinni og dýrkuðu krakkarnir þig. Útskriftaferðin okkar til Barcelona var dásamleg og fer seint úr minni. Útgeislun þín var einstök, alltaf brosandi og tilbúin að hjálpa öðrum. Þú aðstoðaðir mörg börn og fjölskyldur þeirra á þínum starfsferli og margir eiga þér margt að þakka.

Það var áfall að heyra að þú værir komin með krabbamein, þú stóðst þig eins og hetja og varst búin að sigra á þessum illvíga sjúkdómi, eða það héldum við og sáum fram á að líf þitt með yndislegu dóttur þinni væri framundan. Það var því áfall að heyra að þú hefðir greinst aftur af þessum illvíga sjúkdómi og enn sárara að hann hafi unnið. Við vitum að þér þótti vænt um að fá nöfnuna Erlu Lind Daggardóttur sem fæddist í desember 2017.

Elsku Erla, tíminn með þér núna er liðinn en minningin lifir að eilífu. Að fá að kynnast þér verðum við ævinlega þakklátar fyrir, takk fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman.

Elsku fjölskylda, megi Guð gefa ykkur styrk í sorginni. Minningin um Erlu okkar lifir í hjarta okkar allra um ókomna tíð.

Útskriftahópur í félagsráðgjöf HÍ 2001,

Anna Dóra, Anný, Auður, Brynja, Dögg, Elín, Elísa, Guðlaug Jóna, Helga, Inger Lill Jakobína, Kristín G., Kristín Ó., Sólveig Huld og Þórdís.

Á afmælisdaginn hennar Erlu sit ég hér með tárin í augunum og skrifa minningargrein um hana í stað þess að heyra í henni og óska henni til hamingju með daginn.

Erlu kynntist ég vorið 2003 vegna barnanna minna því þá gerðist hún ráðgjafi okkar, þá nýútskrifuð sem félagsráðgjafi. Leiðir okkar lágu saman næstu átta árin, stundum með hléum, þangað til hún fór til Barnaverndar. Hún útvegaði mér góðan ráðgjafa sem gekk vel þangað til hún rændi honum aftur ef svo má segja. Þegar henni var nú allra náðarsamlegast bent á það sagði hún: Úps! Það var nú ekki fallega gert. Engu að síður lágu leiðir okkar Erlu áfram saman en ekki lengur á faglegum grunni heldur sem vinkonur. Mörgu góðu fólki hef ég kynnst í gegnum tíðina með minn barnahóp, fólki sem hefur stutt vel við bakið á mér en að öðrum ólöstuðum hefur Erla verið einstök. Hún passaði ætíð vel upp á sína skjólstæðinga og var góð manneskja. Sem dæmi um mannkosti Erlu hringdi hún t.d. alltaf á Þorláksmessu til að athuga hvort ekki væri allt í góðum gír fyrir jólin. Eitt sinn kom hún veik á teymisfund vegna eins barnanna, svo mikilvægt fannst henni að mæta og fylgja öllu vel eftir. Svo var mikið hlegið að því að tvo vetur mættu eintómar Erlur og Guðrúnar á fundina. Það var alltaf eitthvað skoplegt að gerast.

Þótt Erla væri löngu hætt að vera ráðgjafinn minn þá héldum við alltaf sambandi, alveg fram undir það síðasta. Við ætluðum að hittast nokkrar saman sem höfum haldið sambandi í gegnum tíðina og vorum við Erla búnar að hlakka mikið til. Vonandi verður bráðlega af þeim hittingi og trúi ég því að Erla verði þá með okkur í anda.

Það væri sannarlega hægt að segja margar skemmtilegar sögurnar af samskiptum okkar Erlu en ég læt hér staðar numið. Hún var einstök manneskja og góðhjörtuð og kveð ég hana með miklum söknuði.

Ég votta litlu prinsessunni hennar og fjölskyldu mína dýpstu samúð.

Guðrún Elísa

Guðmundsdóttir.

Vin sínum

skal maður vinur vera,

þeim og þess vin.

En óvinar síns

skyli engi maður

vinar vinur vera.

(Úr Hávamálum)

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að fá að kynnast Erlu þegar við vorum smástelpur í Árbæjarskóla. Hún er ein af þessum manneskjum sem þú munt aldrei gleyma að hafa hitt. Hún hafði sterkar skoðanir og vildi alltaf hjálpa. Ég kynntist henni í gegnum Öddu vinkonu hennar. Ég dáðist alltaf að henni og hennar lífsskoðunum. Hún var ótrúlega fyndin og skemmtileg og alltaf fjör í kringum hana.

Ég samhryggist innilega dóttur hennar, fjölskyldu og vinum.

Sigrún María

Ammendrup.

Erla hóf störf hjá Barnavernd Reykjavíkur vorið 2011. Áður starfaði hún á einni af þjónustumiðstöðvum Reykjavíkurborgar, í Breiðholti. Erla nálgaðist starf sitt frá fyrstu stundu af fagmennsku, jákvæðni og dugnaði. Hún var félagslega virk og vel liðin af samstarfsfólki, sem margir urðu hennar nánustu vinir. Í gegnum erfið veikindi sín stóð hún keik og gaf lítið eftir. Til fyrirmyndar var hvað Erla lagði mikla áherslu á að halda góðum tengslum við starfsstaðinn og vinnufélagana. Hún vildi vinna meðan hún hafði getu til og tók þátt í félagsstarfi vinnustaðarins fram undir það síðasta. Söknuður okkar vinnufélaganna er mikill og hugur okkar er hjá telpunni hennar litlu, ættingjum og vinum. Við leitum huggunar í eftirfarandi ljóðlínum og kveðjum Erlu okkar.

Vertu ekki grátinn við gröfina mína

góða, ég sef ekki þar.

Ég er í leikandi ljúfum vindum,

ég leiftra sem snjórinn á tindum.

Ég er haustsins regn sem fellur á fold

og fræið í hlýrri mold.

Í morgunsins kyrrð er vakna þú villt,

ég er vængjatak fuglanna hljótt og stillt.

Ég er árblik dags um óttubil

og alstirndur himinn að nóttu til.

Gráttu ekki við gröfina hér-

Gáðu – ég dó ei – ég lifi í þér.

(Höf. ók., þýtt úr ensku)

Fyrir hönd starfsmanna Barnaverndar Reykjavíkur,

Halldóra Dröfn

Gunnarsdóttir

framkvæmdastjóri.