Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir
Magnús Heimir Jónasson Guðrún Hálfdánardóttir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að ráðuneytið muni funda með SÁÁ á næstu dögum til að finna sameiginlega lausn fyrir ungmenni sem glíma við áfengis- og fíknivanda eftir að Arnþór Jónsson,...

Magnús Heimir Jónasson

Guðrún Hálfdánardóttir

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir að ráðuneytið muni funda með SÁÁ á næstu dögum til að finna sameiginlega lausn fyrir ungmenni sem glíma við áfengis- og fíknivanda eftir að Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ, tilkynnti í gær að Vogur myndi hætta að taka við ungmennum yngri en 18 ára. „Við munum funda með SÁÁ um næstu skref. Ég var mjög ánægð að sjá í tilkynningunni að þau eru tilbúin að sinna þjónustunni þangað til við sjáum hvernig við viljum þróa þetta, hvaða fyrirkomulag sem verður á því, en það verður þá einhvern tímann á næstu dögum,“ segir Svandís í samtali við Morgunblaðið. Hún segir líklegt að bæði Landspítalinn og Barnaverndarstofa muni einnig koma að þessum ákvörðunum. Arnþór sagði við mbl.is í gær að það væri erfið ákvörðun að hætta að taka við ungmennum yngri en átján ára en ef ekki væri vilji fyrir því að Vogur veitti þessa þjónustu væri ekki annað í boði. Lögreglan fer nú með rannsókn á því hvort brotið hafi verið gegn 16 ára stúlku á Vogi af eldri einstaklingi og bendir Arnþór á að það sé þannig að ábyrgðin á broti sé aldrei hjá þeim sem verður fyrir því heldur gerandanum. „Það getur enginn komið í veg fyrir þessi brot hvar sem er nema gerandinn,“ segir Arnþór.

Að hans sögn verður miðað við átján ára aldur á ungmennadeildinni á Vogi eftir þetta en þangað til viðeigandi úrræði finnst muni Vogur að sjálfsögðu taka á móti börnum yngri en átján ára. Hann segir hins vegar engan mun vera á sautján ára krakka og þeim sem er nítján ára þegar kemur að vímuefnanotkun. Fyrir þennan sjúklingahóp er ungmennadeildin á Vogi langbesta úrræðið. „Mörg hundruð ungmenni hafa fengið þarna frábæra þjónustu og stigið fyrstu skrefin inn í nýtt líf. Þarna er frábært starfsfólk sem er sérhæft í því sem það er að gera,“ segir Arnþór og bendir á að þau ungmenni sem þar hafi verið hafi átt fullt erindi í meðferð á Vogi.

„En maður getur ekki troðið sér þangað sem maður er ekki velkominn,“ segir hann og bætir við að ekki sé hægt að bjóða starfsfólki á Vogi upp á að sitja stöðugt undir ákúrum sem það á ekki skilið.

Þá sé ekki endalaust hægt að skamma SÁÁ fyrir að ekki skuli vera til úrræði sem allir séu að kalla eftir fyrir ungmenni en eins og staðan sé í dag sé ungmennadeildin á Vogi besta úrræðið fyrir þennan aldurshóp. Ef vilji sé fyrir því að koma sérstökum spítala í gagnið fyrir þennan aldurshóp fagni SÁÁ því að sjálfsögðu.