Guðmundur Magnússon gudmundur@mbl.is Samkvæmt gildandi stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í geðheilbrigðismálum átti aðgengi fólks að sálfræðingum á heilsugæslustöðvum að vera orðið 50% í lok síðasta árs.

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Samkvæmt gildandi stefnu og aðgerðaáætlun stjórnvalda í geðheilbrigðismálum átti aðgengi fólks að sálfræðingum á heilsugæslustöðvum að vera orðið 50% í lok síðasta árs. Nú þegar komið er fram á vor 2018 er aðeins einn sálfræðingur fyrir fullorðna kominn til starfa á höfuðborgarsvæðinu. Þetta segir Anna Gunnhildur Ólafsdóttir, framkvæmdastjóri Geðhjálpar.

Aðgengi að sálfræðingum á heilsugæslustöðvum á að vera orðið 90% í lok árs 2019. Anna segir að stjórnvöld þurfi að spýta í lófana ef það á að ganga eftir.

Hún segir mikilvægt að sálfræðiþjónusta sé niðurgreidd en svo er ekki í dag. Talsvert er um að einstaklingar ráði ekki við þann kostnað að leita sér aðstoðar. Það getur ráðið úrslitum fyrir sjúkling að hafa sterkt bakland ættingja og vina til að fá þjónustu við hæfi. Fram kom í Morgunblaðinu í gær að móðir ungrar konu með geðraskanir þurfti að greiða úr eigin vasa næstum eina milljón króna fyrir þjónustu og lyf. Stærsti hluti kostnaðarins var vegna sálfræðimeðferðar.

Geðlæknar starfa innan heilbrigðiskerfisins og er þjónusta þeirra niðurgreidd. Þeir anna hins vegar ekki eftirspurn. Þá hefur kostnaðarhluti fólks með geðraskanir hækkað um 30% að meðaltali með nýlegum breytingum á lögum um sjúkratryggingar.

„Við erum sífellt að þrýsta á stjórnvöld í þessum efnum,“ segir Anna. Hún segir að það hafi sannað sig að fjármagn til geðheilbrigðismála skipti ekki aðeins sköpum fyrir fólk með geðraskanir heldur sé það samfélagslega arðbært að veita sálfræðiþjónustu gegn lágri eða engri greiðslu.