Ómar Elísson fæddist 17. maí 1932 á Brunnastöðum Vatnsleysuströnd. Hann lést á Dvalarheimilinu Höfða á Akranesi 30. mars 2018.

Móðir hans var Guðlaug Guðjónsdóttir húsfreyja, f. í Vorhúsum á Vatnsleysuströnd. 27. febrúar 1909, d. 19. ágúst 1968. Faðir hans var Elís R. Guðjónsson sjómaður og síðar verkamaður, f. í Sanddalstungu í Norðurárdal 27. janúar 1906, d. 21. sept. 1980.

Ómar var elsta barn þeirra, á eftir honum komu þau; Guðrún Margrét, f. 1933, Vilborg, f. 1934, Pétur, f. 1936, Vilhelmína Steinunn, f. 1938, d. 2001, Ingvar, f. 1941, Guðbjörg, f. 1944.

Eftirlifandi eiginkona er Ingibjörg Þorleifsdóttir húsmóðir, f. 1934, frá Siglufirði, dóttir Þorleifs Sigurðssonar trésmiðs, f. á Reykhóli á Bökkum í Skagafirði 28. okt. 1897, d. 16. jan. 1986, og Soffíu Davíðsdóttur húsfreyju, f. á Hvammstanga 7. des. 1904, d. 9. maí 1981.

Ómar og Ingibjörg giftu sig á Akranesi 1955 og bjuggu lengst af á Háholtinu. Börn þeirra hjóna eru fjögur. Guðjón, f. 1956, Sigþór, f. 1957, kvæntur Ragnheiði Þóru, börn þeirra eru Andri Þór og Friðrik Berg, fyrir átti Ragnheiður Sigríði og Benedikt. Þau eiga þau þrjú tengdabörn, sex barnabörn og tvö barnabarnabörn. Soffía Guðrún, f. 1962, gift Sigurbirni Björnssyni, börn þeirra eru Ómar Freyr, Arnar Þór og Ingibjörg Steinunn. Fyrir átti Sigurbjörn dótturina Thelmu Hrund. Þau eiga fjögur tengdabörn og átta barnabörn. Grétar Már, f. 1965, á hann Sigurð Inga, Arnór Bjarka og Guðlaugu Ásrúnu, á hann þrjú tengdabörn og tvö barnabörn. Hann er í sambúð með Halldóru Einarsdóttur.

Ómar var sjómaður alla ævi, byrjaði ungur til sjós en vann stuttan tíma við múrverk í landi, hann vann á síldarskipum, fraktskipum, sementsskipi og endaði sinn starfsaldur sem bátsmaður á Akraborginni.

Útför Ómars fer fram frá Akraneskirkju í dag, 13. apríl 2018, klukkan 13.

Ég kveð þig, minn faðir, nú komin er stund

sem kveið ég svo fyrir að lifa.

En þú ert nú horfinn á feðranna fund

með fögnuði tekið á himneskri grund.

Í söknuði sit ég og skrifa.

(Birgitta H. Halldórsdóttir)

Elsku pabbi, upp koma ýmsar yndislegar minningar um þig og okkar samverustundir saman og eru þær mér dýrmætar núna á þessum erfiðum tímun, þegar ég kveð þig. Ég hef alltaf verið mikil pabbastelpa enda áttir þú bara eina stelpu sem þú gast dekrað við. Það var alltaf gaman þegar ég var lítil og þú komst heim af sjónum í frí eftir að hafa verið í siglingum, þá fékk ég flottar dúkkur, dúkkuvagn, og fleira fallegt, en skemmtilegast fannst mér að fá þig heim því þá vorum við öll saman. Þú varst alltaf svo rólegur og góður pabbi, alltaf að vinna eða dunda eitthvað til að halda heimilinu okkar fallegu, þú fylgdir því líka vel eftir að við lærðum heima og færum eftir fyrirmælum, kæmum vel fram og værum kurteis.

Ég var svo heppin að fá að vinna með þér á Akraborginni þegar ég var unglingur og þá kynntist ég því betur hvað þú varst frábær maður skemmtilegur, mikið snyrtimenni, traustur og duglegur.

Þú varst mikill og góður afi, laðaðir börnin að þér og sinntir fjölskyldunni þinni mjög vel, þú naust þess mikið að vera með barnabörnunum og langafabörnum. Skemmtilegt fannst þér að fylgjast með fótboltanum því þar voru bæði sonur þinn, frændur og barnabörn að spila.

Alltaf komstu og hjálpaðir okkur þegar við þurftum aðstoð, þú varst duglegur að koma í heimsókn til mín eftir að ég fór að búa og eftir að þú hættir að vinna hjólaðir þú svo oft við hjá mér, og áttum við þá gott spjall saman. Þú fræddir mig mikið um ættina og ýmislegt annað skemmtilegt. Þakklát er ég fyrir að hafa fengið að upplifa það að hafa ykkur mömmu hjá okkur á jólunum eftir að ég fór sjálf að búa.

Yndislegar minningar á ég frá því að þú komst með okkur til Costa del Sol, þar naust þú þín mjög vel með okkur fjölskyldunni. Ég gæti endalaust talið upp góðar minningar, ég ætla að rifja þær upp og varðveita þær, ég sakna þess að eiga ekki eftir að fá gott spjall við þig og sjá þig njóta allra barnanna. Ég trúi því að þú sért kominn á góðan stað og þér líði vel. Þú ert mín besta fyrirmynd, með þökk fyrir allt, elsku pabbi minn.

Þín lundin var sköpuð af gimsteinagerð

og gæska úr hjartanu sprottin.

Mig langar að þakka þér farsæla ferð

með friðsælli gleði ég kveðja þig verð.

Nú geymir þig dýrðlegur Drottinn.

(Birgitta H. Halldórsdóttir)

Þín dóttir

Soffía.

Ómar mágur og svili okkar andaðist 30. mars sl. eftir veikindi sem hafa staðið yfir í langan tíma. Ómar var sjómaður nær allan sinn starfsaldur á Lagarfossi, síldarbátnum Sigrúnu AK 71, Sementsflutningaskipinu Freyfaxa og tveimur Akraborgum, sem háseti og bátsmaður, um tíma starfaði hann við múrverk, sem hann greip í þegar hann og ættingjar þurftu á því að halda, þess nutum við líka er við vorum að setja upp sólbekki í Flúðaselinu. Hann var stundum fenginn sem matsveinn um borð sem hann leysti vel af hendi eins og annað.

Hann var afar laghentur og allt lék í höndunum á honum, hús þeirra hjóna ber þess merki hversu vandvirkur og passasamur hann var um eigur sínar, þau fengu viðurkenningu fyrir framúrskarandi viðhald húss og varðveislu byggingarforms á Háholti 29, Akranesi, eins og sagt er á viðurkenningarskjalinu. Bílar þeirra voru líka vel hirtir í gegnum árin. Ekki fóru barnabörnin á mis við það þegar þurfti að lagfæra reiðhjólin þeirra, þá var gott að leita til Ómars afa og fá úrlausn mála, stundum átti hann varahluti í hjólin.

Ómari kynntist ég fljótlega eftir að við Ása, systir Imbu, fórum að vera saman eða upp úr 1963, við ferðuðumst saman um Vestfirði þar sem Sigrún systir þeirra bjó, fórum til Siglufjarðar nokkrum sinnum og á þjóðhátíð á Þingvöllum 1974. Ómar naut sín vel á ferðalögum.

Oft áttum við góða og líflega samveru í Búrfelli í fermingum, afmælum og við að grilla úti í garði, við Ómar náðum vel saman, reyndar áttum við margt sameiginlegt, t.d. að hafa allt vel við haldið, bíla hreina og að reyna að endurnýta sem flesta hluti. Ómar beitti sér í kjaramálum sinna félaga og var trúnaðarmaður þeirra um tíma.

Við Ása og fjölskylda okkar vottum Imbu og fjölskyldu hennar dýpstu samúð við fráfall Ómars mágs og svila okkar.

Benedikt og Áslaug.