Þorgerður Guðmundsdóttir (Gerða) fæddist 13. desember 1926 á Vestur-Hamri við Hamarsbraut í Hafnarfirði. Hún lést 5. apríl 2018.

Foreldrar hennar voru Guðmundur Jón Þorvaldsson, f. 7.12. 1900, d. 11.1. 1944, og Friðrikka Bjarnadóttir, f. 21.1. 1905, d. 1.11. 2001. Systkini Þorgerðar eru: Sólborg, f. 9.8. 1925, d. 16.5. 2012, Bjarnfríður, f. 19.2. 1928, d. 11.7. 1999, Lúter, f. 22.3. 1929, d. 12.1. 1941, Guðmundur Kr., f. 21.2. 1931, d. 25.7. 2003, Ingibjörg, f. 14.1. 1934, og Lovísa, f. 16.11. 1939.

Þorgerður giftist 8. september 1951 Þórhalli Halldórssyni, f. 25.6. 1922, d. 21.3. 1998, verkstjóra hjá Eimskipafélagi Íslands. Dætur þeirra eru Guðmunda Birna, f. 1.6. 1952, og Ólöf Dóra, f. 7.8. 1956.

Guðmunda Birna er gift Hafsteini Frímanni Aðalsteinssyni, f. 14.11. 1949, og eiga þau þrjár dætur. 1) Þorgerður Hafsteinsdóttir, f. 18.5. 1970, gift Birni Þorfinnssyni, f. 28.9. 1967, og eiga þau fjóra syni: 1.1) Þórhallur, kvæntur Hörpu Einarsdóttur, synir þeirra eru Einar Birnir og Björn Breki. 1.2) Arnór, sambýliskona hans er Irmý Ósk Róbertsdóttir, dóttir þeirra er Steinunn Mía. 1.3) Fannar og 1.4) Þorfinnur Máni. 2) Hafdís Hafsteinsdóttir Miller, f. 1.10. 1978, gift Justin Shawn Miller, f. 13.7. 1979, dætur þeirra Isabella Freyja og Annabelle Birna. 3) Guðrún Halla Hafsteinsdóttir, f. 25.9. 1980, gift Theodóri Friðbertssyni, f. 12.9. 1981, synir þeirra Leon Freyr, Hafsteinn Þór og nýfæddur óskírður drengur.

Ólöf Dóra er gift Aðalbirni Ara Sigurfinnssyni, f. 30.12. 1957, og eiga þau tvö börn: 1) Elfa Björg Aradóttir, f. 27.2. 1981, gift Herði Má Jónssyni, f. 23.7. 1981, börn þeirra eru Aldís Helga, Hjördís Svava og Nökkvi Hrafn. 2) Ellert Þór Arason, f. 1.4. 1982, kvæntur Hrafnhildi Láru Ragnarsdóttur, f. 4.5. 1981, börn þeirra Aron Hugi, Viktor Muni og Embla Guðrún. Gerða ólst upp á Selvogsgötunni í Suðurbæ Hafnarfjarðar. Hún fór ung að aldri að vinna hjá Sveinbirni Sveinssyni skreðara, ásamt systur sinni Fríðu, og lærðu þær fatasaum hjá honum. Seinna fór hún að vinna í versluninni Framtíðinni og eftir að hún giftist vann hún hjá Kaupfélagi Hafnfirðinga sem verslunarstjóri yfir vefnaðarvörudeild. Samhliða vinnu var hún í Bréfaskóla SÍS, nam þar íslensku og verslunarreikning. Jafnframt sótti hún námskeið í Samvinnuskólanum og lærði útstillingar og framsetningu vöru. Gerða vann í 35 ár hjá Kaupfélaginu og margir Hafnfirðingar þekkja hana sem Gerðu í Kaupfélaginu. Gerða var félagi í Slysavarnafélaginu Hraunprýði og Kvenfélaginu Hringnum.

Útför Þorgerðar fer fram frá Hafnarfjarðarkirkju í dag, 13. apríl 2018, og hefst athöfnin kl. 11.

Elsku amma Gerða, takk fyrir að vera alltaf svona góð. Við söknum þín.

Heimsins þegar hjaðnar rós

og hjartað klökknar.

Jesús gefðu mér eilíft ljós

sem aldrei slökknar.

(Höf. ók.)

Þín ömmubörn,

Þórhallur, Arnór,

Fannar, Þorfinnur Máni, Leon Freyr, Hafsteinn Þór, Einar Birnir, Björn Breki

og Steinunn Mía.

Í dag kveðjum við elsku fallegu ömmu okkar. Amma sem alltaf var svo glöð og góð, glæsileg og vel til höfð á háu hælunum sínum. Amma sem öll börn elskuðu.

Amma sem kenndi okkur svo margt og okkur þykir endalaust vænt um. Amma sem alltaf stóð með okkur, hjálpaði og leiðbeindi.

Við erum svo óendanlega þakklátar fyrir allar yndislegu stundirnar sem við áttum með þér. Við eigum alltaf eftir að sakna þín mikið en getum yljað okkur við óteljandi fallegar minningar.

Þú varst okkur amma svo undur góð

og eftirlést okkur dýran sjóð,

með bænum og blessun þinni.

Í barnsins hjarta var sæði sáð,

er síðan blómgast af Drottins náð,

sá ávöxtur geymist inni.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Guð geymi þig, elsku amma okkar. Þínar

Þorgerður, Hafdís og Halla.