Vilhjálmur Bjarnason
Vilhjálmur Bjarnason
Eftir Vilhjálm Bjarnason: "Það er ekki óeðlilegt að mat sé lagt á það hvað atvinnurekstur og starfsfólk leggja af mörkum til samfélagsins."

Það er misskilningur að hetjuskapur eigi nokkuð skylt við þann málstað sem barist hefur verið fyrir. Þannig berjast ráðherrar að jafnaði fyrir málefnum ráðuneyta sinna. Þó kemur fyrir að ráðherrar berjist gegn málstað og málaflokki sem þeir telja að tilheyri sínu ráðuneyti.

Þegar ráðherrar halda framhjá sínum málaflokki þá er það álíka afsakanlegt og að halda framhjá danskri konu. Það gerist því miður oft að ráðherrar fara út af spori.

Þráhyggja

Í þau fjögur ár, sem sá er þetta ritar hefur til þessa setið á Alþingi, voru eilífar deilur um gjaldtöku af ferðaþjónustu. Atvinnugreinar greiða ekki gjöld. Það eru viðskiptavinir, sem greiða gjöld. Atvinnugreinar í ferðaþjónustu búa við almenn starfskilyrði sem Alþingi setur. Þau starfskilyrði taka mið af samkeppnisaðstæðum. Það eru til önnur flugfélög en Icelandair og WOW Air, sem fljúga yfir Norður-Atlantshaf. Þýskir ferðamenn horfa til austurs og suðurs þegar valkosturinn í norður er metinn. Ísland er einn kostur af mörgum, sem ferðamenn geta valið úr. Stjórnvöld eiga að gera landið aðlaðandi, ekki aflaðandi fyrir ferðamenn.

Tekjur ríkisins af ferðamönnum

Ráðherrar tala oftar en ekki svo að ferðaþjónusta skili engum tekjum til ríkissjóðs. Svo er alls ekki.

Þá eru til þingmenn sem vilja selja Flugstöð Leifs Eiríkssonar í Keflavík. Um skynsemi þess má lengi deila. Kannski kann sú deila að leiða til þess að Flugstöðin verði að rúst í draumalandinu. Grunur minn er sá að hver sá stjórnmálaflokkur sem fer í herferð til að selja FLE, tapi þeirri orrustu. Hvað hefur ríkissjóður lagt af mörkum til uppbyggingar Flugstöðvar Leifs Eiríkssonar? Sennilega ekkert! Á móti framlagi Bandaríkjamanna, sem hernaðarhluta flugstöðvarinnar, komu lántökur íslenska ríkisins. Þau lán yfirtók FLE OHF. FLE hefur greitt af þeim lánum eftir vígslu og síðan hefur öll uppbygging alfarið verið fjármögnuð af eigin fé og með lántökum, sem rekstur FLE hefur endurgreitt. Það er síðan eðlilegt að ISAVIA, sem er eigandi FLE, greiði arð í ríkissjóð. Arðsemi opinberra hlutafélaga er eðlileg en arður ekkert annað sá hluti ávöxtunar fjármuna, sem úthlutað er til eigandans.

Svo virðist sem bílaleigubílar skili um 5 til 6 milljörðum í eldsneytisgjöld í ríkissjóð. Fer það allt til vegamála? Samgönguráðherra vill leggja á sérstakt komugjald til landsins, væntanlega til vegamála. Hver eru tengslin? Þrátt fyrir að þær atvinnugreinar, sem mynda ferðaþjónustu séu í nokkurri uppbygginu og fái því mikinn innskatt endurgreiddan í virðisaukaskattsuppgjöri, þá skilar ferðaþjónusta í heild nettó á milli 35-40 milljörðum í ríkissjóð. Til samanburðar skilar sjávarútvegur, það eru veiðar og vinnsla á afla, engum virðisaukaskatti í ríkissjóð. Svo er einnig um orkufrekan iðnað sem framleiðir útflutningsvörur. Allar eiga þessar atvinnugreinar það sammerkt að þetta eru útflutningsgreinar.

Skattspor og þráhyggja

Það er ekki óeðlilegt að mat sé lagt á það hvað atvinnurekstur og starfsfólk leggja af mörkum til samfélagsins. Sennilegt má telja að Icelandair hf. og starfsfólk þess leggi af mörkum sem nemur 35 milljörðum í opinber gjöld á síðasta ári. Það eru um þreföld framlög ríkissjóðs í beingreiðslur til bænda, til að viðhalda eymd í sveitum.

Miðað við skattspor Icelandair og hlutdeild fyrirtækisins í ferðaþjónustu má ætla að heildargreiðslur ferðaþjónustu séu sem næst 90 milljarðar.

Þráhyggjan er sú að ráðherrar eru alltaf að upphugsa einhver lúabrögð til að finna nýjar álögur á ferðaþjónustu.

Það kann að vera að rétt sé að innheimta þjónustugjöld þar sem þjónusta er veitt. Einfaldasta þjónusta sem veitt er, er leiga á bílastæði. Þjónustugjaldið á að endurspegla kostnað við veitta þjónustu en á ekki að vera fjárplógsstarfsemi.

Ferðaþjónusta og áhætta

Ferðaþjónusta er ekki laus við áhættu frekar en annar atvinnurekstur. Nægir þar að nefna að ferðaþjónusta er háð þróun efnahagsmála í öðrum löndum. Aðrir augljósir þættir eru vextir af lánsfé og olíuverð. Augljósast er þó að náttúruhamfarir geta lagt atvinnugreinina í rúst. Þó var það svo að gos í Eyjafjalljökli snerist upp í næstbestu markaðssetningu sögunnar.

Náttúruhamfarir af mannavöldum vegna misviturlegra ákvarðana ráðherra og þingmanna eru engu betri en þær hamfarir sem eiga sér uppruna í náttúrunni sjálfri. Þeir sem valdið hafa, hafa aðeins eina skyldu og hún er sú að skapa almenn skilyrði til að smáathafnamenn geti starfað í atvinnurekstri.

Væntingar um frið við stríðslok

Við lok síðari heimsstyrjaldarinnar voru miklar væntingar um frið í heiminum og aukinn skilning milli manna. Þær væntingar byggðust á því að forystumenn hins frjálsa heims höfðu sýnt merki þess að þjóðir ættu að vinna saman, efla heimsviðskipti og auka kynni sín með friðsamlegum hætti. Aukin kynni verða með ferðalögum.

Það var í þeim tilgangi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn voru stofnaðir árið 1944. Það sama ár var stofnuð Alþjóðaflugmálastofnunin, ICAO. Ísland er stofnaðili að þessum þrennum samtökum, sem stofnuð voru til að efla frið.

Í sáttmála Alþjóðaflugmálastofnunarinnar eru ákvæði þess efnis að þjóðirnar skuldbindi sig til þess að leggja ekki hömlur á ferðir milli landa með gjaldtökum.

Öll hugsun um komugjöld og náttúrpassa ganga beinlínis gegn þeirri hugsun sem lögð er til grundvallar í sáttmálum stofnana sem stofnaðar voru til að efla frið í heiminum.

Ráherra, syndir og skattar

Þær voru aldir að menn trúðu því að Búlandstindur væri ljótur og andstyggilegur staður eins og Mývatn hefði orðið til af því að fjandi mé á móti sólinni en draugar sendir í Gullfoss. Svo sagði Skáldið.

Ráherrar eru mannlegar verur. Það virðist sem þeir þrái hina mestu sælu, en hún er sú að syndga. Næstmesta sælan er ásetningurinn til að syndga. Að þessu leyti eru ráðherrar eins og dýrlingar því þeir þrá að syndga.

En þegar öllu er á botninn hvolft sér maður að mannkynið er aumt, eins og þegar maður lítur á það eins og það er í raun og veru. Ráðherrar verða ekki miklir stjórnmálamenn af því eina að finna upp gjöld, sem eru í raun dulbúnir skattar.

Höfundur var alþingismaður.