Steinunn Sigurbjörg Úlfarsdóttir fæddist á Vattarnesi við Reyðarfjörð 25. apríl 1931. Hún lést á Fossheimum, hjúkrunardeild Heilbrigðisstofnunar Suðurlands, 1. apríl 2018.

Steinunn var dóttir Úlfars Kjartanssonar, útvegsbónda á Vattarnesi, f. 26. nóv. 1895, d. 22. mars 1985, og Maríu Ingibjargar Halldórsdóttur húsfreyju, f. 16. sept. 1897, d. 29. sept. 1939.

Systkini Steinunnar eru: Kjartan, f. 1917, d. 1917, Halldóra Hansína, f. 1918, d. 2000, Jón Karl, f. 1920, Eygerður, f. 1922, d. 1982, Indíana Björg, f. 1924, d. 2008, Bjarni Sigurður, f. 1926, d. 2013, Aðalbjörn, f. 1928, d. 2009, Kjartan Konráð, f. 1935, Hreinn, f. 1937, d. 2017, María Úlfheiður, f. 1939.

Steinunn giftist hinn 15. sept. 1951 Gísla Vilhjálmi Gunnarssyni, f. 1925, d. 1991. Börn þeirra eru 1) Gunnar, f. 1952, d. 1966. 2) Úlfar, f. 1953. M. 1. Guðbjörg Dóra Sverrisdóttir. Dætur þeirra a) Steinunn Elfa. M. Sveinn Kjartan Sverrisson. Börn þeirra Valur Freyr, Svanbjörg Anna og Birna Karen. b) Bára María. M. Eiríkur Andri Gunnarsson. Sonur þeirra Gunnsteinn Úlfar. M. 2. Elfa Bryndís Kristjánsdóttir. Sonur þeirra Gunnar Theódór. Fyrir á Elfa Ólöfu. M. Birgir Sveinsson, þeirra synir Elfar Franz og Mikael Máni. Kristján Inga og Rúnu Hrönn, dóttir hennar er Dóróthea Dís. 3) Dóttir andvana fædd 1958. 4) Sigdór, f. 1960. M. Guðbjörg Jóhannsdóttir. Þeirra synir a) Jóhann Gunnar. M. 1. Sandra Mjöll Tómasdóttir. Dóttir þeirra Rebekka Sól. M. 2. Guðrún Inga Hannesdóttir. Sonur þeirra Hannes Logi. M. 3. Hildur Ósk Rúnarsdóttir. Sonur þeirra Anton Orri. Fyrir á Hildur Ósk Natan Árna. M. 4. Erla Kristín Jónasdóttir sem á fyrir Lindu Sól, Mikael Inga og Elvar Mána.

b) Vilhjálmur. M. 1. Anna Lind Friðriksdóttir. Dætur þeirra Elsa Malen og María Gló. M. 2. Þóranna Einarsdóttir. Börn þeirra Adam Hrafn og Birta Líf. c) Elvar Örn. M. Sunneva Lind Ármannsdóttir. Börn þeirra Jóhann Berg og Kristín Lind. 5) Konráð Sigþór, f. 1962. M. 1. Margrét Guðmundsdóttir. Sonur þeirra Gísli Vilhjálmur. M. Snæfríður Jónsdóttir. M. 2. Elín Helga Hauksdóttir. Dætur Elínar a) Kristín. M. Guðjón Þorsteinsson. Þeirra börn Þorsteinn Sölvi og Ástrós Helga. b) Guðlaug. M. Jón Theódór Jónsson. Dætur þeirra Sigrún Alda og Elín Harpa. 6) Ragnar Svanur, f. 1965. M. 1. María Harðardóttir. Sonur þeirra Hörður. M. 2. Sigríður Margrét Snorradóttir. Dætur þeirra Sara Margrét og Rebekka Steinunn. 7) Gunnhildur Anna, f. 1967.

Steinunn og Vilhjálmur byrjuðu búskap í Tungu árið 1951. Þau stofnuðu nýbýlið Tunguholt þar sem þau bjuggu til ársins 1966. Þá fluttu þau á Selfoss og hefur Steinunn búið þar síðan. Steinunn vann við ýmis verslunar-, þjónustu- og umönnunarstörf, en lauk sinni starfsævi hjá Sveitarfélaginu Árborg þar sem hún vann á leikskólanum Álfheimum. Steinunn tók virkan þátt í starfsemi kirkjukvenfélags Selfosskirkju, um tíma sem formaður þess.

Útför Steinunnar fer fram frá Selfosskirkju í dag, 13. apríl 2018, kl. 14.

Á páskadag, þann 1. apríl, kvaddi elsku amma Steina þetta jarðlíf.

Henni á ég svo ótal margt að þakka. Þær voru ófáar stundirnar okkar saman. Það var alltaf sama hvernig á stóð, alltaf var opið hús og opinn faðmur hjá ömmu, sama hvort mig langaði að æfa á píanó, fá aðstoð við handavinnu, fá einhvern til að spila við eða bara spjalla, það tók sama hlýjan og þolinmæðin á móti manni.

Um tíma var ég svo heppin að fá að búa hjá ömmu og Gunnhildi á Víðivöllunum. Þá var ég nýfermd og lífið stundum svolítið snúið. Þá eins og svo oft áður og síðar var amma kletturinn minn.

Við amma áttum ýmis sameiginleg áhugamál. Til dæmis tónlist og handavinnu. Hún var óþreytandi að hjálpa mér og leiðbeina í hannyrðum og lagði áherslu á að passa ætti að vera vandvirkur og að helst ætti rangan að vera jafn falleg og framhliðin.

Þær voru líka dýrmætar stundirnar okkar eftir að hún var komin á Fossheima. Þó svo að amma hafi verið orðin veik var faðmurinn alltaf jafn hlýr og góður og vel tekið á móti manni. Amma sýndi alltaf áhuga á öllu sem var í gangi í mínu lífi og var ekki að barma sér þrátt fyrir veikindin.

Það er ekki langt síðan ég tók gítarinn með mér til ömmu og við sungum saman nokkur lög. Það var yndisleg stund.

Ég kveð elsku ömmu með þakklæti fyrir allt og allt.

Bára María Úlfarsdóttir.

Maður kynnist mörgum á lífsleiðinni sem setja mark sitt á líf manns. Steinunn var ein af þeim sem sem mótaði mitt líf. Ég kynntist henni ung, aðeins fimmtán ára gömul. Hún tók mér opnum örmum og bauð mig velkomna í fjölskylduna.

Steinunn var ein af þessum sterku konum með sterkar skoðanir og lét engan segja sér hvað hún ætti að hugsa eða gera. Hún hafði lifað tímana tvenna og reynt margt. Hún missti móður sína ung svo og tvö af sjö börnum sínum. Þegar seinna barnið dó brugðu þau Vilhjálmur búi og fluttu suður ásamt fjölskyldunni. Hún var fljót að taka ákvarðanir og það sem hún ákvað stóð. Þessi ákvörðun hennar leiddi til þess að ég kynntist syni hennar nokkrum árum seinna.

Steinunn var mjög hjálpsöm. Hjálpsemi hennar náði til allra, ekki bara nánustu fjölskyldu. Ef henni fannst einhver þurfa hjálp eða líða skort vildi hún gera það sem hún gat til að bæta úr. Steinunn var einnig dugleg með afbrigðum og úrræðagóð. Á meðan hún bjó í sveitinni fyrir austan rak hún um tíma skóla. Það gerði hún án þess að vera kennaramenntuð. Hún var þó ekki ómenntuð, bara ekki langskólagengin. Enginn sem talaði við hana velktist í vafa um að þarna var fróð kona og sérlega góð íslenskumanneskja.

Fljótlega eftir að ég kynntist Steinunni flutti ég inn á heimili hennar og bjó þar veturlangt. Ég var ung og uppreisnargjörn, hún ráðsett og traust. Við urðum vinir og ég leitaði til hennar með margt, kannski ekki þennan vetur en oft síðar. Hún kenndi mér þolinmæði sem ég átti lítið af á þessum árum. Það gerði hún t.d. með því að að kenna mér margskonar handavinnu. Ég man sérstaklega eftir því þegar hún leiðbeindi mér með að sauma bæði kápu og jakka og lét mig beita allri þeirri færni sem sönnum klæðskera sæmdi. Þar kom nálin og tvinninn meira við sögu en saumavélin sjálf. Þannig var Steinunn, hún gerði allt vel og af nákvæmni sem hún tók sér fyrir hendur. En hún kenndi mér þó trúlega mest í þolinmæði með því að sýna mér, unglingnum, sem þóttist vera fullorðinn, endalausa þolinmæði í einu og öllu.

Fáeinum árum eftir að ég kynntist Steinunni eignaðist ég fyrsta barnið mitt og hún um leið fyrsta barnabarnið sitt, stúlku sem hlaut nafn hennar. Þær voru ekki fáar stundirnar sem sú stutta var hjá ömmu sinni, báðum til ánægju. Og þegar næsta barn fæddist beið hennar sama góða atlætið á heimili ömmu og afa. Þau voru samhentar og góðar manneskjur Vilhjálmur og Steinunn. Samband dætra minna og ömmu og afa var ávallt gott, fallegt og kærleiksríkt.

Samfylgd mín við tengdamóður mína stóð í rúm tuttugu ár, þá skildu leiðir. Við hittumst þó af og til á förnum vegi, í veislum og eins þegar ég heimsótti hana með barnabörnin í suðurferðum þeirra. Þá voru fagnaðarfundir, kærleikurinn hverfur nefnilega ekki þótt leiðir skilji.

Með þakklæti í huga kveð ég Steinunni tengdamóður mína. Börnum hennar, barnabörnum og öðrum aðstandendum sendi ég innilegar samúðarkveðjur.

Dóra.