Hjúkrunarfræðingar Skortur á sérhæfðum hjúkrunarfræðingum er alvarlegur að mati Páls Matthíassonar sem tekur undir áhyggjur læknaráðs.
Hjúkrunarfræðingar Skortur á sérhæfðum hjúkrunarfræðingum er alvarlegur að mati Páls Matthíassonar sem tekur undir áhyggjur læknaráðs. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Við tökum undir áhyggjur læknaráðs í þessu efni enda hef ég og aðrir stjórnendur þegar vakið athygli á vandanum,“ segir Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, þegar borin er undir hann yfirlýsing stjórnar læknaráðs Landspítalans um vandræði vegna viðvarandi skorts á legurýmum á gjörgæsludeild spítalans og skorts á sérhæfðu hjúkrunarfólki.

Hafa þessi vandræði leitt til þess að oft þarf að fresta stærri aðgerðum á skurðstofum spítalans. Dæmi er um að hjartaaðgerð sjúklings hafi verið frestað sex sinnum.

Læknaráðið hvetur til þess að núverandi húsnæði spítalans verði stækkað þar sem ljóst þyki að nýr spítali verði ekki tilbúinn til notkunar á allra næstu árum.

Sameina og bæta við

„Ein meginástæða þess að mikilvægt er að hraða uppbyggingunni við Hringbraut er einmitt að sameina þjónustuna, þar með talið að sameina gjörgæslur og fjölga um leið gjörgæslurýmum um meira en 50%,“ segir Páll í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins. „Skortur á hjúkrunarfræðingum og sérstaklega sérhæfðum hjúkrunarfræðingum er mjög alvarlegur. Gjörgæslumeðferðir eru afar flóknar og í raun ætti að nálgast þessa þjónustu sem takmarkaða auðlind sem vandlega þarf að íhuga hvernig við nýtum. Alvarleg slys sem krefjast þessarar þjónustu hafa verið mörg og þung, sem leiðir til þess að spítalinn hefur ekki önnur úrræði en að færa skipulagðar aðgerðir sem krefjast gjörgæslu – jafnvel þótt um lífsnauðsynlegar aðgerðir sé að ræða,“ segir Páll og bætir við þegar hann er spurður um lausnir: „Þetta er snúinn vandi sem ekki verður leystur á einni nóttu en áríðandi að bregðast við með öllum tiltækum ráðum.“

Bráðaaðgerðir ganga fyrir

Frestun á fyrirfram skipulögðum og ákveðnum aðgerðum var einnig til umræðu um miðjan janúar. Þá veitti Margrét Guðjónsdóttir, verkefnastjóri skurðlækningasviðs, þær upplýsingar að stundum þyrfti að fresta skipulögðu prógrammi þegar bráðaaðgerðir væru fleiri en spítalinn réði við, svo sem vegna slysa og hálku. Einnig vantaði rúm til að útskrifa sjúklinga í viðeigandi úrræði og sjúkrarúm vegna skorts á hjúkrunarfræðingum.