Ása Eyjólfsdóttir fæddist í Reykjavík 13. apríl 1918. Hún lést á Hrafnistu í Reykjanesbæ 20. mars 2018.

Foreldrar hennar voru Eyjólfur Jóhannsson skipstjóri, f. 12.2. 1881 í Melshúsum á Seltjarnarnesi, d. 15.1. 1933, og Gíslína Sigríður Gísladóttir húsfreyja, f. 19.7. 1891 í Dalbæ í Gaulverjabæjarhreppi, d. 3.9. 1959. Systkini Ásu voru: Jóhann Kristján f. 1914, Ingibjörg Steinunn, f. 1916, Gísli, f. 1920, Ingjaldur Geir, f. 1921, Gyða, f. 1923, Skúli, f. 1924, og Garðar, f. 1930. Þau eru öll látin.

Hinn 19. desember 1942 giftist Ása Jóni Garðari Guðmundssyni skipstjóra, f. 2.4. 1918, d. 4.1. 1960. Foreldrar hans voru Guðmundur Jónsson útgerðarmaður á Rafnkelsstöðum, f. 18.7. 1892, d. 10.4. 1984, og Guðrún Kristbjörg Jónasdóttir húsfreyja, f. 12.8. 1895, d. 3.5. 1975.

Börn Ásu og Garðars eru: 1) Eygló Dóra, f. 1942, maki Ögmundur Magnússon 2) Guðmundur, f. 1943, maki Brynhildur Guðmundsdóttir. 3) Geir Guðmundur, f. 1945, maki Helga Ingimundardóttir. 4) Guðrún, f. 1946, maki Birgir Þórbjarnarson. 5) Eyjólfur, f. 1949, maki Kristín Magnúsdóttir. 6) Hafdís, f. 1950, maki Einar Jónsson. 7) Jórunn Jóna, f. 1951, maki Hilmar Magnússon. 8) Garðar, f. 1953, maki Kristín Bárðardóttir. 9) Sigurður, f. 1955, maki Lilja Ármannsdóttir. Afkomendur Ásu og Garðars eru 122 talsins.

Ása ólst upp í foreldrahúsum í Efra-Sandgerði og síðar í Þrastarlundi, Sandgerði. Eftir ótímabært fráfall föður síns fór Ása að vinna við ýmis störf. Hún starfaði við verslun, var ráðskona og var hún fyrsta starfsstúlkan á nýbyggðu Rauðakrossskýli í Sandgerði. Einnig vann hún á saumastofum í Reykjavík og við síldarsöltun á Djúpavík og Siglufirði.

Árið 1942 giftist hún Jóni Garðari Guðmundssyni og fluttust þau þá í nýbyggt húsið Vík í Garði. Ása og Garðar eignuðust níu börn og var það hennar hlutskipti að hugsa um börnin og heimilið meðan Garðar stundaði sjómennsku. Árið 1960 lést Garðar í sjóslysi þegar mb. Rafnkell GK 510 fórst. Í kjölfarið flutti Ása með börn sín til Sandgerðis að Austurgötu 11. Eftir að Garðar lést hóf Ása störf við fiskvinnslu og starfaði óslitið við hana til sjötugs. Við starfslok flutti Ása til Keflavíkur og bjó á Kirkjuvegi 1 þar til fyrir tveimur árum er hún flutti á hjúkrunarheimili Hrafnistu á Nesvöllum.

Útför hennar fór fram í kyrrþey 28. mars 2018 frá Safnaðarheimilinu í Sandgerði.

Þú áttir þrek og hafðir verk að vinna

og varst þér sjálfri hlífðarlaus og hörð.

Þú vaktir yfir velferð barna þinna,

þú vildir rækta þeirra ættarjörð.

Frá æsku varstu gædd þeim góða anda,

sem gefur þjóðum ást til sinna landa,

og eykur þeirra afl og trú,

en það er eðli mjúkra móðurhanda

að miðla gjöfum eins og þú.

Í augum þínum sá ég fegri sýnir

en sólhvít orð og tónar geta lýst, –

svo miklir voru móðurdraumar þínir,

þó marga þeirra hafi frostið níst.

Sem hetja barst þú harmana og sárin,

huggaðir aðra – brostir gegnum tárin,

viðkvæm í lund, en viljasterk.

Þau bregða um þig ljóma, liðnu árin.

Nú lofa þig – þín eigin verk.

Ég flyt þér, móðir, þakkir þúsundfaldar,

og þjóðin öll má heyra kvæðið mitt.

Er Íslands bestu mæður verða taldar,

þá mun þar hljóma fagurt nafnið þitt.

Blessuð sé öll þín barátta og vinna,

blessað sé hús þitt, garður feðra minna,

sem geymir lengi gömul spor.

Haf hjartans þakkir, blessun barna þinna,

– og bráðum kemur eilíft vor.

(Davíð Stefánsson.)

Elsku mamma, með þökk fyrir allt og allt.

Dóra, Guðmundur, Geir, Guðrún, Eyjólfur, Hafdís, Jórunn, Garðar og Sigurður.

Áður en ég kynntist Ásu mundi ég alltaf eftir, frá því ég var barn, að með mikilli virðingu hafði mér verið sagt frá konu sem væri ekkja og ætti níu börn í rosaflottu, stærsta einbýlishúsinu í Sandgerði. Svo seinna þegar sambýlismaður minn, Geir, kynnti mig fyrir móður sinni, henni Ásu, trúði ég vart mínum eigin augum. Þvert á það sem ég var búin að ímynda mér, var hún lágvaxin, fíngerð og ljúf kona. En það kom fljótt í ljós hvern mann hún hafði að geyma; þrátt fyrir að vera ekki stór vexti, kom hún upp níu börnum, ekkja frá 41 árs aldri. Hún vann við fiskvinnslu eins og algengast var á þeim tíma eftir að eiginmaður hennar fórst og með samstilltu átaki hennar og eldri barnanna tókst henni að koma öllum vel til manns. Ég kynntist aldrei Garðari Guðmundssyni, eiginmanni hennar sem fórst með allri áhöfn á m/b Rafnkeli í janúar 1960. Garðar var einn af aflasælustu skipstjórum landsins þegar hann lést. En tvíburabróðir Garðars, Kristján Valgeir og hans kona Guðný Kjartansdóttir, bjuggu lengst af í húsi beint á móti þar sem ég var alin upp á Njarðvíkurbrautinni í Innri-Njarðvík og þekkti ég vel til þeirrar fjölskyldu.

Ása lét sér fátt fyrir brjósti brenna; duglegri og ósérhlífnari konu hef ég vart kynnst. Það var alveg greinilegt hvað skipti hana mestu máli, það var fjölskyldan sem hún lifði fyrir. Hafandi verið móðir níu barna, eru afkomendur hennar stór hópur, langt á annað hundraðið og hafði Ása góða yfirsýn yfir alla; mundi eftir öllum afmælisdögunum og var vel meðvituð um hvað flestir væru að fást við. Hún var vel minnug alveg fram á síðustu daga ævinnar. Sérlega áhugavert var að heyra hana segja frá gamalli tíð; uppvaxtarárunum í Sandgerði þegar hún eða systkini hennar þurftu að gerast sendiboðar um allt byggðarlagið því á heimili hennar var eini síminn í Sandgerði og þegar hún ung að árum starfaði sem sjúkraliði í fyrsta sjúkraskýli Rauða krossins á Íslandi þar í Sandgerði. Það var auðséð þegar við heimsóttum Ásu á jólunum ásamt hinum systkinum Geirs hversu myndarleg hún var og rausnarleg. Rjóma-, súkkulaði- og brauðtertunum ásamt miklu úrvali af jólasmákökum var vel veitt af og heitu súkkulaði. Uppáhaldsuppskriftin sem hún gaf mér var af „fromage“ sem ég hef alltaf á aðfangadagskvöld og hugsa ég með þakklæti til hennar þá. Við Geir munum sakna góðrar móður og vinkonu og biðjum henni Guðs blessunar.

Helga S. Ingimundardóttir.

Í dag eru liðin hundrað ár frá fæðingu Ásu móðurömmu minnar en hún lést fyrir fáeinum dögum. Það kom mér á óvart hversu flatt það kom upp á mig þegar ég áttaði mig á því að amma ætti ekki langt eftir. Amma, þessi ótrúlega sterka og magnaða kona, var í huga mínum einhvern veginn ódauðleg. Amma var mér mikil fyrirmynd enda var hún engin venjuleg kona, hún var sannkölluð hversdagshetja. Frá því að ég man eftir mér hef ég hugsað um ömmu af mikilli virðingu og þakklæti og hefur hún haft mikil og sterk áhrif á mig sem konu. Hún tókst á við verkefni sín af miklu æðruleysi og þrautseigju. Hennar stærsta verkefni í lífinu hefur líklega verið að standa frammi fyrir því rúmlega fertug að verða ekkja, móðir níu barna á aldrinum fjögurra til sautján ára. Ég hef svo oft hugsað til þess hvernig henni skyldi hafi liðið, hvernig henni tókst að ganga fram af þvílíkri festu og æðruleysi eins og hún gerði og koma öllum barnaskaranum til manns, innræta þeim gott gildismat, heiðarleika og hjálpsemi. Amma lét engan segja sér fyrir verkum og má segja að ekkert hefi verið gert af hálfum huga. Uppeldi barnanna var í föstum skorðum og höfum við frændsystkinin oft fengið að heyra sögur af því hvernig hún stýrði mannskapnum af mikilli lagni, hafði reglu á hlutunum og gaf skýr skilaboð um framkomu og siðferði. Í dag á amma 122 afkomendur í beinan legg, afkomendur sem eiga henni svo margt að þakka.

Amma var einstaklega gjafmild og rausnarleg, ósjaldan vorum við sem heimsóttum hana leyst út með gjöfum og ávallt fórum við pakksödd frá henni því amma vissi fátt betra en að gefa gestunum sínum að borða en settist sjaldnast sjálf til borðs. Amma hafði einstaka næmni fyrir fólki, var áhugasöm um fólkið sitt, þekkti hvert og eitt okkar vel og vissi einhvern veginn alltaf hvað allir voru að bardúsa. Hún fann til með þeim sem minna máttu sín, sendi gjafir, bænir og hlýjar hugsanir til þeirra sem stóðu höllum fæti því hún vissi sannarlega hvað það var að standa frammi fyrir sorginni þrátt fyrir að bera þær ekki á torg eða ræða almennt um erfiðleika í lífi sínu. Amma hafði gott skopskyn og fannst gaman að slá á létta strengi en aldrei þó þannig að það færi úr böndunum enda hógværðin uppmáluð. Þegar amma hrósaði fólkinu sínu þá var innistæða fyrir hrósinu því amma var sönn í einu og öllu, heiðarleg og hreinskiptin. Þetta eru eiginleikar sem ég tek mér að hjarta og verð ánægð ef ég kemst með tærnar þar sem amma hafði hælana.

Þrátt fyrir háan aldur fylgir fráfalli þessarar mögnuðu konu mikil sorg og eftirsjá. Hún lifði merkilegu lífi, löngu lífi og með henni fer mikil vitneskja og saga. Hún var einhvers konar sameiningartákn stórrar fjölskyldu, var sterkur hlekkur í langri keðju fjölmenns hóps afkomenda, sú sem hafði yfirsýnina og stjórnina. Það er óhætt að segja að amma hafi sett mark sitt á hvert og eitt okkar og ég veit að við sem eftir lifum munum halda minningu hennar í heiðri og miðla henni áfram til komandi kynslóða enda ærin ástæða til.

Minningin um Ásu Eyjólfsdóttur lifir.

Anna Hulda Einarsdóttir.

Í dag, 13. apríl, hefði amma mín og nafna Ása Eyjólfsdóttir orðið 100 ára gömul, hún var búin að segja okkur í fjölskyldunni að hún ætlaði ekki að halda upp á það með okkur ættingjunum sínum. Hún ætlaði að fagna því með Garðari eiginmanni sínum sem hún missti fyrir tæpum sextíu árum. Hún ætlaði að fagna með honum á grænni grundu. Hvernig skyldu endurfundir þeirra hafa verið eftir öll þessi ár? Já, hún amma mín var orðin ekkja fjörutíu og eins árs gömul með níu börn og voru hún og Garðar afi að byggja hús í Sandgerði fyrir sig og börnin sín þegar Garðar afi féll frá á besta aldri. Hún hélt sínu striki og hélt vel utan um börnin sín og vann myrkranna á milli til að geta séð fyrir sér og sínum. Eldri börnin hennar hjálpuðu til við heimilishaldið og aðstoðuðu móður sína við að láta hlutina ganga upp og seinna meir hjálpaðist allur hópurinn að við heimilisstörfin. Það fór nú ekki mikið fyrir henni ömmu minni, hún gerði bara það sem þurfti að gera og gerði það vel. Amma var róleg og yfirveguð og hún gerði hlutina eins og hún vildi, hún var ákveðin og fór vel með það. Hún var ekki mikið fyrir athygli og ég hef oft hugsað um það hvað hún var flott og góð fyrirmynd. Hún var kona sem hefði átt að fá fálkaorðu fyrir dugnað sinn og eljusemi. Kom öllum börnunum sínum til manns og gott betur. Sjórinn spilaði stórt hlutverk í lífi ömmu, sjórinn gaf og sjórinn tók. Amma vann við fiskvinnslu þar til hún var sextíu og sjö ára og ætlaði hún að hætta þá. En henni leiddist að hafa ekki neitt að gera þannig að hún fór aftur í frystihúsið og vann þar til sjötugs. Það var oft mikið fjör í kringum ömmu með alla þessa afkomendur sína sem voru orðnir eitt hundrað og tuttugu og tveir þegar hún kvaddi okkur. Hún vildi ekki tala mikið um þennan stóra hóp sinn, en hún var stolt af hópnum sínum. En hafði það bara fyrir sig.

Amma bjó lengst af í Sandgerði og þegar ég var lítil stelpa vann ég á sumrin í frystihúsinu eins og Ása amma og fyrsta sumarið mitt fékk ég að gista hjá henni virku dagana og fór heim í Keflavík um helgar. Þetta var mjög góður tími og gott að fá að vera hjá henni og það var dekrað við mann. Við amma áttum alltaf mjög gott skap saman og var alltaf gott að koma til hennar. Amma var ákaflega gjafmild kona, henni fannst gaman að geta gefið eitthvað, hún var alltaf að lauma einhverju að manni og á seinni árum að dætrum mínum. Amma sagði að þeir sem væru gjafmildir fengju það til baka. Amma flutti til Keflavíkur í Hornbjargið og átti hún þar mörg góð ár með því góða fólki sem þar bjó og átti hún góðar vinkonur í því húsi. Hún sá um sig sjálf þar til fyrir tveimur árum. Þá fór hún á hjúkrunarheimilið Hrafnistu á Nesvöllum og þar átti hún góðan tíma, þar til yfir lauk.

En nú er komið að kveðjustund, elsku amma mín og nafna, ég er stolt af að heita í höfuðið á þér.

Blessuð sé minning þín og hafðu þökk fyrir allt og allt.

Þín nafna

Ása Guðmundsdóttir.

Elsku langamma.

Það var alltaf svo gaman að heimsækja þig í Hornbjargið og svo á Nesvelli. Þú varst alltaf svo góð við mig og gjafmild. Það var alltaf til nammi sem ég gat nælt mér í hjá þér.

Ég sakna þín mjög mikið og ég mun aldrei gleyma þér.

Amma kær, ert horfin okkur hér,

en hlýjar bjartar minningar streyma

um hjörtu þau er heitast unnu þér,

og hafa mest að þakka, muna og geyma.

Þú varst amma yndisleg og góð,

og allt hið besta gafst þú hverju sinni,

þinn trausti faðmur okkur opinn stóð,

og ungar sálir vafðir elsku þinni.

Þú gættir okkar, glöð við undum hjá,

þær góðu stundir blessun, amma kæra.

Nú hinstu kveðju hjörtu okkar tjá

í hljóðri sorg og ástarþakkir færa.

(Ingibjörg Sigurðardóttir.)

Garðar Guðmundsson.