Með þeirri stækkun sem orðið hefur á lokakeppnum Evrópumótanna í boltagreinum gætu íslensku karlalandsliðin séð fram á enn fleiri ferðir í lokakeppnir. Liðum í lokakeppnum EM í fótbolta og körfubolta hefur þegar verið fjölgað.
Með þeirri stækkun sem orðið hefur á lokakeppnum Evrópumótanna í boltagreinum gætu íslensku karlalandsliðin séð fram á enn fleiri ferðir í lokakeppnir.

Liðum í lokakeppnum EM í fótbolta og körfubolta hefur þegar verið fjölgað. Þau eru orðin tuttugu og fjögur í keppnunum.

Ísland hefur komist tvisvar í röð í lokakeppni í körfunni sem áður þótti óhugsandi.

Í fótboltanum fara tvö lið úr hverjum riðli beint í lokakeppni og þriðja sætið í umspil. Ísland þurfti ekki á umspilinu að halda fyrir EM í Frakklandi sællar minningar. En þriðja sætið verður ef til vill þegið með þökkum á einhverjum tímapunkti í framtíðinni. Til samanburðar má nefna að þegar Danir urðu Evrópumeistarar 1992 voru einungis átta lið í lokakeppninni. Eingöngu elítuþjóðir náðu inn í lokakeppnirnar.

Í handboltanum hefur nú einnig verið tekin ákvörðun um að stækka lokakeppnina. Fyrir farsæla handboltaþjóð eins og Ísland eykur það vitaskuld bara möguleikana á því að karlalandsliðið verði með EM í „áskrift“ eða svo gott sem.

Í riðli Íslands, sem sjá má á síðu 1 í íþróttablaðinu, eru til að mynda tvær þjóðir sem skammt eru á veg komnar í handboltanum: Grikkland og Tyrkland. Íþróttin hefur ekki fest sig vel í sessi í þeim hluta álfunnar. Tvær þjóðir fara beint upp úr riðlinum og í lokakeppnina og liðið í þriðja sæti á meira að segja möguleika á að komast á EM.

Staðan er því einfaldlega sú að takist Íslandi ekki að ná öðru af tveimur efstu sætunum í riðlinum væri íþróttin komin á verri stað hérlendis en menn hafa áður upplifað. Þar sem Ísland hefur verið á stórmótum síðustu árin er engin ástæða til að óttast slíkar hörmungar.