Sá guli goggaður Theodór kann handtökin og innbyrðir golþorsk.
Sá guli goggaður Theodór kann handtökin og innbyrðir golþorsk.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Theodór Snorri Ólafsson fæddist í Vestmannaeyjum 14.5. 1933 og ólst þar upp. Hann var í Barnaskóla Vestmannaeyja og lauk vélstjóraprófi frá Vélskólanum 1950: „Ég var svo ungur þegar ég sótti um inngöngu í skólann að ég þurfti að fá undanþágu.

Theodór Snorri Ólafsson fæddist í Vestmannaeyjum 14.5. 1933 og ólst þar upp. Hann var í Barnaskóla Vestmannaeyja og lauk vélstjóraprófi frá Vélskólanum 1950: „Ég var svo ungur þegar ég sótti um inngöngu í skólann að ég þurfti að fá undanþágu.“

Theodór fór 14 ára á sumarsíld fyrir Norðurlandi, á bátnum Vonin VE 113, og síðan á vetrarvertíð á sama bát og var þar í fimm ár, fyrst háseti og síðan vélstjóri. Hann var vélstjóri hjá Helga Benediktssyni, útgerðarmanni í Eyjum, í önnur fimm ár og fór þá í tvígang til Svíþjóðar þegar sóttir voru bátar sem Helgi hafði látið smíða þar.

„Við sóttum bátinn Frosta VE fyrir Helga, árið 1955, en hann strandaði á Landeyjasandi úti af jörðinni Siglunesi, í febrúar árið 1956. Allir komust þó heilu og höldnu í land. Síðan sóttum við bátinn Gullþóri til Svíþjóðar og á honum var ég eina vertíð.“

Theodór hóf útgerð í Eyjum, ásamt Hilmari Rósmundssyni, mági sínum, árið 1959: „Við Hilmar gerðum út bátinn Sæbjörgu og vorum þrisvar aflahæstir í Eyjum og einu sinni yfir landið. En þessu fylgdu miklar útilegur. Við sóttum fast sjóinn og það mæddi á eiginkonunni með öll börnin heima.

Sæbjörg sökk úti af Vík í Mýrdal árið 1963. Við komumst allir í björgunarbát og vorum hirtir upp eftir töluvert volk.“

Í ársbyrjun 1973 keyptu þeir bátinn Gjafar sem þá var nýuppgerður: „Sá bátur kom til Eyja 22. janúar 1973 og lá þá fyrir neðan Vinnslustöðina. Sex klukkustundum síðar hófst gosið og við tókum náttúrulega þátt í því að ferja fólk í land. Ég man að hundrað manns fóru í lestina en svo margir voru á dekki að 430 manns stigu á land þegar báturinn kom að bryggju í Þorlákshöfn. Síðan fórum við fimm ferðir til að bjarga veiðarfærum og öðrum verðmætum.

Gjafar var happafleyta að þessu leyti þegar mest reið á, en ekki að öðru leyti. Við vorum síðan þrjár vikur á loðnu sem gekk ágætlega en á útstíminu frá Grindavík strandaði báturinn í innsiglingunni þar.

Árið síðar festum við kaup á Sæbjörgu VE - 56 en hann var lengdur í Danmörku 1974 og bar þá 700 tonn. Við gerðum hann út í tíu ár, áfallalaust, en í desember 1984 brotnaði keflablásari svo báturinn varð vélarvana og strandaði í Hornsvík, fyrir austan Hornafjörð. Þar varð einnig mannbjörg en við vorum dregnir í land í línustól.

Þarna misstum við bátinn, fengum ekki leyfi til kaupa á nýjum bát og urðum þess vegna einnig af kvótanum á nýju kvótaári 1985. Ég hef þess vegna aldrei verið kvótagreifi.“

Theodór var einn af stofnendum Eyjaíss, 1986, sem sá bátunum fyrir ís, og vann þar til 1988. Hann var síðan vélstjóri hjá Ísfélaginu til 1995 er hann lét af störfum.

„Ég get ekki neitað því að hafa nokkrum sinnum komist í krappan dans við Ægi. En í öll þessi skipti urðu mannbjörg. Það skiptir mestu þegar upp er staðið “

Fjölskylda

Eiginkona Theodórs er Margrét Eirikka Sigurbjörnsdóttir, f. 10.2. 1934, húsfreyja. Foreldrar hennar voru Sigurbjörn Metúsalemsson, f. 1906, d. 2000, bóndi og vitavörður á Vestur-Stafnesi á Reykjanesi og k.h., Júlía Jónsdóttir, f.1906, d. 1979.

Börn Theodórs og Margrétar eru

1) Þorbjörg, f. 1959, þjónustufulltrúi í Hveragerði en maður hennar er Haukur Logi Michelsen múrarameistari og eru börnin Theodór Aldar, f. 1978, Hrefna, f. 1984 , og Elvar Aron, f. 1993; 2) Sigurbjörn M., f. 1960, vélstjóri í Eyjum; 3) Hafþór Theodórsson, f. 1961, stýrimaður í Eyjum en kona hans er Hanna R. Björnsdóttir, félagsráðgjafi og sonur þeirra er Jóhann Birnir, f. 1991; 4) Júlíanna, f. 1962, starfsmaður á dvalarheimili aldraðra í Eyjum en maður hennar er Ingólfur Ingólfsson, veiðieftirlitsmaður eru dætur þeirra Margrét Rós f. 1982 og Alma f. 1988; 5) Bára, f. 1966, sérkennari í Sundsvall í Svíþjóð en maður hennar er Tommy Westman viðskiptafræðingur og er dóttir þeirra Embla Mira f. 1997; 6) Björk, f. 1971, viðskiptafræðingur í Reykjavík, og 7) Harpa, f. 1975, húsfreyja í Eyjum en maður hennar er Örvar Guðni Arnarson fjármálastjóri og eru börnin Salka Sól, f. 2001, Klara, f. 2005, og Högni, f. 2010.

Hálfsystir Theodórs, sammæðra: 1) Rósa Guðmunda Snorradóttir, f. 1927, d. 2015, húsfreyja í Eyjum og Garðabæ. Alsystkini Theodórs: 2) Sigurveig Þórey, f. 1935, d. 1935; 3) Snorri Sigurvin Ó. Vestmann, f. 1938, sjómaður í Hveragerði; 4) Ingi Steinn, f. 1942, sjómaður í Eyjum; 5) Ellen Margrét, f. 1943, húsfreyja á Flúðum, og 6) Þór Guðlaugur. f. 1947, vélstjóri í Mosfellsbæ.

Foreldrar Theodórs voru Ólafur Guðmundsson Vestmann, f. 1906, d. 1970, sjómaður í Eyjum og k.h., Þorbjörg Guðmundsdóttir, f. 1905, d. 1960, húsfreyja..