Magnús Heimir Jónasson mhj@mbl.is Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur segir það vel hugsanlegt að mörg atkvæði „falli dauð“ í komandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík vegna þess hve framboðslistar eru margir að þessu sinni.

Magnús Heimir Jónasson

mhj@mbl.is

Ólafur Þ. Harðarson stjórnmálafræðingur segir það vel hugsanlegt að mörg atkvæði „falli dauð“ í komandi borgarstjórnarkosningum í Reykjavík vegna þess hve framboðslistar eru margir að þessu sinni. Þá er átt við að atkvæði nýtist ekki til að koma að fulltrúa í borgarstjórn.

„Ef það eru margir litlir flokkar, sem eru rétt undir því að ná manni inn þá gæti þetta orðið umtalsvert af dauðum atkvæðum. Í alþingiskosningum hafa venjulega innan við 5% atkvæða verið dauð en í kosningunum 2013 voru dauð atkvæði 12% sem var óvenjulega mikið. Í kosningunum í fyrra voru það aftur á móti innan við 2% atkvæða sem voru dauð,“ segir Ólafur.

Í Reykjavík eru 16 listar í framboði og eftir fjölgun borgarfulltrúa verða borgarfulltrúar í Reykjavík 23. Ólafur segir að þessi fjölgun borgarfulltrúa hafi áhrif á fjölda dauðra atkvæða. Listi þarf 2,6 til 4,2% til að ná manni inn.

„Þó að nokkrir listar fái minna fylgi og kannski margir undir einu prósenti þá er ekki víst að dauðu atkvæðin verði neitt rosalega mörg og ekki endilega miklu fleiri heldur en í alþingiskosningum. Það er mjög ólíklegt að listi nái inn manni með 2,6% atkvæða sem er reiknað lágmark. Það er líklegast að listi þurfi 3,5 til 4% til að ná inn. Miðað við kannanir virðist um það bil helmingur framboðanna líklegur til þess að fá engan mann. Hins vegar hafa sumir litlu flokkarnir verið að bæta við sig og þeir hafa margir ekki fengið eins mikla kynningu og eldri flokkarnir og þess vegna er ekki útilokað að litlu flokkarnir bæti við sig í kosningabaráttunni og einhverjum þeirra takist að skríða inn,“ segir Ólafur.

Ólafur segir að meirihlutamyndun í Reykjavík geti orðið erfiðari ef mörg nýju framboðanna nái einum manni inn. „Að öðru jöfnu þýðir fjöldi framboða mögulega að það þurfi fleiri flokka í meirihlutann sem gæti verið flóknara eða snúnara, en það veltur á því hvað stærri flokkarnir fá mikið. Það eru núna fjórir flokkar í meirihlutanum og það gæti mjög vel gerst að það væri hægt að mynda fjögurra flokka stjórn jafnvel þótt einhverjir litlir flokkar fengju einn mann kjörinn hver.“