Einn lét lífið og fjórir særðust í hnífaárás í Óperuhverfinu í París á laugardag. Að sögn franskra fjölmiðla var árásarmaðurinn frá rússneska lýðveldinu Tsjetsjeníu, fæddur árið 1997.

Einn lét lífið og fjórir særðust í hnífaárás í Óperuhverfinu í París á laugardag. Að sögn franskra fjölmiðla var árásarmaðurinn frá rússneska lýðveldinu Tsjetsjeníu, fæddur árið 1997. Hann hóf að stinga gangandi vegfarendur um klukkan níu um kvöld að staðartíma. Þá reyndi hann að komast inn á nokkra veitingastaði en var stöðvaður af gestum. Ekki liðu nema fimm mínútur þar til lögregla var komin á vettvang og var hann skotinn til bana.

Hryðjuverkasamtökin sem kenna sig við ríki íslams hafa lýst árásinni á hendur sér og segja manninn hafa verið einn „hermanna“ sinna.

Franska hryðjuverkalögreglan hefur þegar hafið rannsókn málsins og hafa foreldrar árásarmannsins meðal annars verið yfirheyrðir.

Gerard Collomb innanríkisráðherra hrósaði lögreglunni fyrir skjót og yfirveguð viðbrögð og sagði hug sinn vera hjá fórnarlömbum árásarinnar. Í sama streng tók Macron forseti, en hann sagði Frakkland enn einu sinni hafa verið blóðgað, en ekki kæmi til greina að gefa tommu eftir til óvina frelsisins.

230 manns hafa dáið í árásum Ríkis íslams og fylgismanna þess í Frakklandi síðustu þrjú ár, en sú mannskæðasta þeirra var í nóvember 2015 þegar 130 létust. Macron forseti hefur lýst því yfir að barátta við íslamska hryðjuverkamenn sé sitt helsta forgangsmál í utanríkismálum. alexander@mbl.is