Hvalveiðar Undirskriftir gegn hvalveiðum afhentar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þátttakendur vilja gera Faxaflóa að griðasvæði hvala.
Hvalveiðar Undirskriftir gegn hvalveiðum afhentar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Þátttakendur vilja gera Faxaflóa að griðasvæði hvala. — Morgunblaðið/Valli
Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, voru á föstudaginn afhentar 50.424 undirskriftir þar sem hvalveiðum Íslendinga er mótmælt.

Kristjáni Þór Júlíussyni, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, voru á föstudaginn afhentar 50.424 undirskriftir þar sem hvalveiðum Íslendinga er mótmælt. Að söfnuninni stóðu Alþjóða dýravelferðarsjóðurinn (IFAW), Hvalaskoðunarsamtök Íslands og Samtök ferðaþjónustunnar.

Þeir sem tóku þátt í undirskriftasöfnuninni, sem fram fór á vefsíðu IFAW á Íslandi og að mestu leyti á síðasta ári, lýstu yfir stuðningi við eftirfarandi kröfu: „Ég heiti því að borða ekki hvalkjöt og vil að stjórnvöld geri allan Faxaflóa að griðasvæði fyrir hvali.“

Sigursteinn Másson, fulltrúi IFAW á Íslandi, segir að flestir þeirra sem tekið hafi þátt séu erlendir ríkisborgarar og meirihluti þeirra erlendir ferðamenn

Við móttöku undirskriftanna sagði Kristján Þór Júlíusson að hann hefði lagt fram minnisblað fyrir ríkisstjórnina um úttekt á hvalveiðum sem Hagfræðistofnun Háskólans og Hafrannsóknastofnun hefðu umsjón með. Ólíkir hagsmunaaðilar yrðu kallaðir að borðinu og stefnt að niðurstöðu í haust.

Fram kemur í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu að úttekin muni fjalla um þjóðhagsleg áhrif hvalveiða og áhrif þeirra á aðrar atvinnugreinar.

Slík úttekt hafi verið gerð árið 2010 og hafi þá komið fram að þjóðhagslega hagkvæmt væri að halda hvalveiðum áfram. Þær niðurstöður og aðrar verði því endurmetnar miðað við þróunina síðustu ár. Ráðherra hefur einnig óskað eftir því að Hafrannsóknastofnun meti fæðuþörf hvala og vægi hennar í lífríki sjávar við Ísland.