Einar Már Sigurðarson
Einar Már Sigurðarson
Eftir Einar Má Sigurðarson: "Sameinuð félagshyggjuöfl í nýrri Fjarðabyggð halda áfram á sömu leið og bjóða nú fram Fjarðalistann í sjötta sinn."

Það er ekki algengt að fólk eldra en 65 ára sitji á framboðslistum til sveitarstjórna í sætum væntanlegra sveitarstjórnarfulltrúa. Of fá dæmi eru um slíkt því mikilvægt er að sveitarstjórnir endurspegli samsetningu íbúa sveitarfélaga og tryggi þannig að sem flest sjónarmið komi fram þegar ákvarðanir eru teknar. Góð blanda af reynslu, þekkingu og nýjum hugmyndum íbúanna er líkleg til að tryggja farsæla niðurstöðu í þeim fjölbreyttu verkefnum sem framundan eru.

Sveitarfélögin og ríkisvaldið

Hér á landi hefur ekki tekist að tryggja eðlilega verkaskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Hlutur ríkisins er of mikill og mörg verkefni sem flokkast undir nærþjónustu sveitarfélaga verið í höndum ríkisins. Við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga hefur í mörgum tilfellum hallað á sveitarfélögin hvað fjármögnun varðar og undirbúningur oft verið ófullnægjandi. Mjög brýnt er að talsmenn sveitarfélaga hafi burði, traust og framtíðarsýn til að leiða þá vinnu sem framundan er varðandi verkefnaflutninga og fjárhagsleg samskipti við ríkisvaldið.

Talsmenn landsbyggðanna þurfa að tileinka sér markvissan málflutning til að viðhalda lífsgæðum íbúanna. Mörg dæmi er hægt að nefna þar sem þjónusta við íbúa landsbyggðanna hefur verið skert og færð til. Margir benda á þau mistök sem urðu þegar svæðisstöðvar RUV voru aflagðar og fáir sem engir héldu uppi vörnum fyrir þá þjónustu. Enn hallar á og stöðugt aukið hlutfall útvarpsefnis fjallar fyrst og fremst um menn og málefni á höfuðborgarsvæðinu.

Mikilvægi sveitarfélaga

Sveitarfélög eru það stjórnsýslustig sem næst stendur íbúunum. Nærþjónusta er verkefni sem sveitarfélögin eiga að sinna og almennt er slíkri þjónustu betur sinnt ef ákvarðanir eru teknar sem næst þeim sem þjónustuna nota. Með allri virðingu fyrir því fólki sem situr á skrifstofum á höfuðborgarsvæðinu er ekki hægt að ætlast til þess að það hafi fullkomna yfirsýn yfir þarfir þeirra sem búa vítt og breitt um landið.

Eitt þeirra stóru mála sem bíða næsta kjörtímabils er endurskoðun launastefnu sveitarfélaga. Það er ekki ásættanlegt að starfsmenn sveitarfélaga sé sá hópur sem lægst laun hefur, eins og kemur fram í gögnum Hagstofu Íslands. Hvar varð sú stefna til að t.d. umönnunarstörf skuli vera láglaunastörf? Það á ekki að vera launastefna sveitarfélaga að þar starfi lægst launaða starfsfólkið. Verkefnið framundan er að umbylta þessari stefnu þannig að það verði eftirsóknarvert að starfa hjá sveitarfélögunum.

Á Austurlandi hefur á stundum farið of mikil orka í deilur milli einstakra sveitarstjórnarmanna t.d. um samgöngumál, slíkar deilur vekja gjarnan athygli fjölmiðla og fóðra þá sem í deilunum standa. Afleiðingin er oft sú að athyglin verður allsráðandi og hagsmunir fjöldans fyrir borð bornir. Fulltrúar stærsta sveitarfélags fjórðungsins, þ.e. Fjarðabyggðar, þurfa að leita leiða til að tryggja sem besta samstöðu, því þannig og aðeins þannig tryggjum við farsæla niðurstöðu í stærri málum.

Fjarðabyggð og Fjarðalistinn

Í tuttugu ár hefur Fjarðabyggð og Fjarðalistinn átt farsæla samleið. Strax eftir að sameining þeirra þriggja sveitarfélaga, sem upphaflega mynduðu Fjarðabyggð, var samþykkt hófst vinna við að sameina félagshyggjuöflin í hinu nýja sveitarfélagi. Sú sameining tókst með ágætum og hafa þessi öfl æ síðan haldið hópinn. Sameinuð félagshyggjuöfl í nýrri Fjarðabyggð halda áfram á sömu leið og bjóða nú fram Fjarðalistann í sjötta sinn.

Nauðsynlegt er að snúa af braut minnkandi kosningaþátttöku. Viðhalda þarf þeim aukna áhuga á þátttöku í sveitarstjórnarmálum sem kom vel fram í undirbúningi Fjarðalistans fyrir komandi kosningar. Virkja þarf sem flesta bæði unga sem aldna svo Fjarðabyggð verði betri fyrir alla íbúa Fjarðabyggðar. Vonandi verða kosningarnar þann 26. maí upphaf aukinnar kosningaþátttöku og virkni.

Höfundur skipar 4. sæti á framboðslista Fjarðalistans í Fjarðabyggð.