Magdalena Jóna Steinunn fæddist í Vatnsdal í Rauðasandshreppi 7. febrúar 1926. Hún lést 3. maí 2018.

Hún ólst upp í Vatnsdal, næstyngst í hópi 14 barna hjónanna Ólínu Andrésdóttur húsfreyju, f. 23.9. 1883, d. 4.9. 1959, og Ólafs Einarssonar Thoroddsen, skipstjóra, kennara og bónda í Vatnsdal, f. 4.1. 1873, d. 17.11. 1964. Systkini hennar voru: Sigríður, Þorvaldur, Svava, Birgir, Einar, Una, Arndís, Bragi, Ólafur, Eyjólfur, Stefán, Auður og Halldóra. Einnig átti hún tvo hálfbræður samfeðra, Odd og Kjartan.

Magdalena giftist árið 1958 Þorvarði Kjerúlf Þorsteinssyni, f. 24.11. 1917, d. 31.8. 1983, deildarstjóra í samgönguráðuneytinu og síðar sýslumanni, lögreglustjóra og bæjarfógeta á Ísafirði.

Dætur Magdalenu og Þorvarðar eru Ólína Kjerúlf, f. 8.9. 1958, þjóðfræðingur og fv. alþingismaður, og Halldóra Jóhanna, f. 23.11. 1959, sóknarprestur og prófastur.

Ólína Kjerúlf er gift Sigurði Péturssyni, f. 13.6. 1958, sagnfræðingi. Börn þeirra eru: 1) Þorvarður Kjerúlf, f. 1975, giftur Erlu Rún Sigurjónsdóttur, þeirra börn eru Daði Hrafn, Jökull Örn og Sædís. 2) Saga, f. 1982, í sambúð með Guðmundi Jóhanni Óskarssyni, þeirra sonur er Sigurður Benjamín. 3) Pétur, f. 1983. 4) Magdalena, f. 1985, gift Garðari Stefánssyni. Þeirra dætur eru Guðbjörg Lóa og Gunnhildur. 5) Andrés Hjörvar, f. 1994, unnusta hans er Katrín Björg Hjálmarsdóttir.

Halldóra Jóhanna er gift Sigurjóni Bjarnasyni skólastjóra, f. 17.9. 1959. Börn þeirra eru: 1) Þorvarður Kjerulf, f. 1982, hans kona er Kristín Lena Þorvaldsdóttir, f. 1982, og þeirra synir Óttar Kjerulf og Kári Kjerulf. 2) Sigurjón Bjarni, f. 1988, sambýliskona hans er Sara Margrét Ragnarsdóttir. 3) Vésteinn, f. 1994, sambýliskona hans er Marieke Huurenkamp.

Magdalena settist í Húsmæðraskóla Reykjavíkur einn vetur en sigldi síðar til Svíþjóðar og nam við blaðamannaskóla í Stokkhólmi. Heim komin starfaði hún sem blaðamaður á Tímanum og Morgunblaðinu og ritstýrði ýmsum tímaritum. Hún var ein af stofnendum kvikmyndaklúbbsins Filmíu og félagi í kvæðamannafélaginu Iðunni í áratugi.

Magdalena og Þorvarður bjuggu um tíu ára skeið á Ísafirði á meðan hann var þar sýslumaður. Eftir fráfall Þorvarðar 1983 hóf hún nám í íslenskum bókmenntum við Háskóla Íslands. Eftir hana liggja ýmis ritverk og ljóð, bæði birt og óbirt.

Útför Magdalenu verður gerð frá Háteigskirkju kl. 13 í dag, 14. maí 2018.

Hún kvaddi í mildu vorhreti. Hafði dagana á undan dáðst að fuglum í hreiðurgerð og grósku jarðar. Sátt við guð og menn mætti hún skapara sínum eftir langa og góða ævi. Hún gekk inn í ljósið lauguð tárum okkar, þakklæti og ást, og englarnir lögðu hvíta blæju á vorþíða jörð.

Með móður okkar er gengin stórbrotin kona, skáldhneigð og tilfinningarík. Ástrík ættmóðir. Höfðingi í fasi og lund. Sannkallaður ættarstólpi.

Hún bar uppeldi sínu vitni, alin upp á menningar- og rausnarheimili þar sem dugnaður og heiðarleiki voru veganesti barnanna út í lífið. Þeim arfi skilaði hún áfram til afkomenda sinna, óf hann saman við sögur og minningar frá Vatnsdal, þar sem ort var og sungið og lífsreglurnar lagðar með orðum og athöfnum. Hún var fulltrúi þeirra dýrmætu gilda að bera virðingu fyrir öðrum, sýna hlýleika og vináttu, vera sönn í orði og verki og raungóð manneskja.

Þegar mamma var að alast upp þótti ekki sjálfgefið að konur færu til mennta. Það gerði hún þó. Eftir Húsmæðraskóla Reykjavíkur fór hún til Svíþjóðar í blaðamannaskóla og starfaði heimkomin sem blaðamaður, ein af fáum Íslendingum sem þá höfðu aflað sér menntunar á því sviði. Ritfærni hennar og máltilfinning duldist engum enda var oft til hennar leitað um greinaskrif og ritgerðir löngu eftir að hún var hætt störfum.

Eftir að foreldrar okkar giftu sig tók mamma að sér húsmóðurhlutverkið á heimilinu, nema auðvitað ef kosningar voru í nánd, því þá hafði Framsóknarflokkurinn forgang. Við systur minnumst bernskustunda á kosningaskrifstofum „flokksins“ þegar við undum við að lita og teikna meðan hún sinnti flokksstarfinu. Mamma var nefnilega samvinnumaður að hugsjón og aðeins 16 ára gömul þegar hún gekk til liðs við Framsóknarflokkinn.

Við skyndilegt fráfall föður okkar 1983 sýndi mamma hvað í henni bjó. Hún fór að læra á bíl og tók bílpróf. Því næst skráði hún sig í Háskóla Íslands og hóf þar nám í íslenskum fræðum þar sem bókmennta- og ljóðaást hennar fékk að njóta sín til fulls. Var hún þar á heimavelli, svo víðlesin og skáldmælt sem hún sjálf var. Ljóð voru í sérstöku uppáhaldi, og þó að sjóndepurð hafi hrjáð hana á efri árum var bót í máli að ógrynni þeirra kunni hún utanbókar.

Mamma var einstök kona og eftirminnileg öllum sem henni kynntust. Skarpgreind og athugul til síðustu stundar fylgdist hún með dægurmálum og deiglu samfélagsins. Alltaf sjálfri sér samkvæm í stóru sem smáu og fundvís á það sem gladdi og var gefandi. Hún umvafði og elskaði fólkið sitt og fylgdist grannt með því sem var að gerast í lífi afkomendahópsins. Gladdist með okkur á góðum stundum, styrkti og huggaði í armæðu og sorgum, ævinlega hollráð og raungóð. Að alast upp við slíkt atlæti er mikil gjöf.

Elsku mamma, auðnudjásn þín glóa,

ævi þinnar lýsa gengna braut;

á vegi þínum vænir laukar gróa,

þó varðaður sé bæði líkn og þraut.

Móðir kær við eigum gjöf að gjalda

sem goldin aldrei verða mun til fulls,

en nýta munu niðjar þúsundfalda

og njóta, þótt ei metin sé til gulls.

(ÓKÞ)

Blessuð sé minning þín.

Ólína og Halldóra

Þorvarðardætur.

Við kveðjum stjúpu okkar Maddý í dag með þakklæti og hlýju.

Það var alla tíð gott samband á milli fjölskyldunnar á Kiðafelli og fjölskyldunnar á Miklubraut. Maddý tók stjúpbörnin á 17. júní-skemmtun í borginni og dætur hennar heimsóttu systkini sín á Kiðafelli í sveitina.

Við systur bjuggum hvor um sig um tíma hjá Maddý og föður okkar á Miklubrautinni. Sigga sem barn en Gauja menntaskólaárin með séríbúð við hlið þeirra og í fæði hjá Maddý, sem var mjög góður kokkur. Var það skemmtilegur tími og margt rætt við eldhúsborðið, svo sem pólitík, hestar og Íslendingasögur.

Er eftirminnilegt þegar Maddý tókst að fá Gauju til að vinna á kosningaskrifstofu Framsóknarflokksins og mæta á kosningavöku á eftir, þrátt fyrir að Gauja væri á þeim tíma hinn mesti róttæklingur. Trygg framsóknarkona var Maddý alla tíð.

Það voru skemmtilegar heimsóknir á Hrannargötuna á Ísafirði eftir að fjölskyldan flutti vestur en þá bjuggum við systur erlendis. Var það töluvert ferðalag í þá daga og gaman að uppgötva fallega Ísafjarðardjúpið í góðum félagsskap.

Maddý var mjög umhugað að halda upp á minningu föður okkar Þorvarðar. Var komið saman hjá Maddý árlega á afmælisdegi hans. Minnisstætt er þegar Maddý bauð í 100 ára minningu pabba ári fyrr, þar sem hún bjóst ekki við að lifa fram á 100 ára afmælið hans. Þegar 100 ára afmæli pabba var ári síðar sló Maddý upp mikilli veislu til að fagna því og að vera enn lifandi.

Þegar ljóst var hvert stefndi og ekki byði hún í fleiri veislur var aðdáunarvert hversu æðrulaus og sátt hún var við lífið og tilveruna.

Maddý var stórbrotin kona og margt til lista lagt. Afar skemmtileg í frásögnum og kveðskap alveg fram á síðasta dag. Heimsótti Gauja hana á Landspítalann síðustu viku hennar þar og veltist um af hlátri við að hlusta á sögurnar hennar.

Maddý var skapstór, hæfileikarík og afburðagreind kona.

Þökkum við Maddý fyrir góða samfylgd í gegnum árin.

Guðbjörg og Sigríður Þorvarðardætur.

Magdalena Thoroddsen tengdamóðir okkar kvaddi þennan heim þegar vorið var að vakna og lóan byrjuð að kvaka í mó. Þannig lokast kafli í lífsins bók um leið og annar opnast. Við minnumst með þökkum þess tíma sem við áttum samleið með merkiskonu.

Magdalena var Barðstrendingur að ætt og uppruna, fædd í Vatnsdal í Rauðasandshreppi. Þar ólst hún upp í stórum systkinahópi við árvökul kærleiksaugu foreldra sinna. Í Vatnsdal var jafnan margt um manninn og oft á tíðum mikill gestagangur og þótt munnar hafi margir verið til að metta, þá var ætíð nóg til að víkja að þeim sem minna máttu sín. Samheldnin var mikil og eldri systkinin hlúðu að þeim yngri. Fjölskyldan öll söngvin, ljóðelsk og skáldmælt. Þeim varð ekki skotaskuld úr því að koma saman kviðlingum og vísum, jafnvel var stílvopninu beitt til leikritsgerðar. Þá var æfður söngur og systkinin mynduðu raddaðan kór. Veganesti sem veitti styrk og festu um langa og farsæla ævi.

Lifandi frásagnir hennar af æskuheimilinu í Vatnsdal, barnaleikjum og bernskubrekum, heimilisaðstæðum og viðhorfum, festust í minni fjölskyldunnar. Persónur og atburðir stigu fram ljóslifandi í munni hennar, litaðar græskulausum húmor og mannúð.

Maddý var stór í sniðum í allri sinni framgöngu. Skapferlið vestfirskt. Þar gat hvesst með byljum, en í stafalogni á sléttum sjó var náðugt að eiga þar félagsskap og njóta samræðna um sögu landsins, þjóðhætti, stjórnmál og bókmenntir. Þegar komið var að skáldskap og ljóðum var sem sólstafir stæðu af himni í návist hennar.

Heimili þeirra Þorvarðar og Magdalenu í sýslumannshúsinu á Ísafirði einkenndist af rausnarskap og gestrisni. Þar stjórnaði húsfreyjan af skörungsskap. Var sama hvort í hlut áttu ættingjar og vinir, sýslunefndarmenn eða stjórnmálaskörungar. Öllum var heimilið opið. Húsmóðirin mat mannkosti framar mannvirðingum og innræti framar umgjörð.

Maddý tengdamóðir okkar sýndi barnabörnum sínum umhyggju og ástúð. Ekki ónýtt að eiga kost á að bergja af óþrjótandi brunni skáldskapar og sagna þeirra kynslóða sem á undan gengu. Slík kynni jafnast á við áralangt háskólanám.

Maddý lét sig aldrei vanta í sauðburðinn í Fellsmúla á vorin. Hún kom, hjálpaði til og fylgdist með og naut þess að vera í beinu sambandi við dýrin og náttúruna enda tengd menningu landsins sterkum böndum. Það voru dýrmætar stundir.

Um langt skeið var Magdalena höfuð sinnar fjölskyldu, þar sem börn og barnabörn leituðu skjóls og stuðnings í annríki og erli daganna. Út um gluggann á Aflagranda sá hún sama hafið og hún lék sér við í fjöruborði æsku sinnar í Vatnsdal. Sólarlagið er baðað mörgum litum, skærum og djúpum, hvort heldur er við Patreksfjörð eða Faxaflóa, líkt og farsæl ævi. Síðasta systkinið úr Vatnsdal hefur kvatt.

Við sem um langan tíma fengum ómælda hlýju hennar og kærleika, félagsskap og stuðning beygjum höfuð okkar í djúpri þökk fyrir traust og elsku sem við fengum að njóta. Minning hennar mun lifa.

Sigurður Pétursson og Sigurjón Bjarnason.

Elsku amma mín. Það er furðuleg tilfinning að standa frammi fyrir því að ein stærsta festan í lífi mínu er horfin. Því það varstu. Minningarnar um þig lifa með mér og sonum mínum. Barnæskuminningar af Miklubrautinni geyma ilm af ristuðu brauði, kaldri kók og byssó með tóbakshornunum. Ég naut þess frá unga aldri að rökræða við þig um það hvort Þorgrímur eða Þorkell hefði vegið Véstein í Gíslasögu Súrssonar og ekki síst þegar rökræðurnar enduðu í sjónvarpsherberginu heima þar sem við horfðum saman á Útlagann. Sunnudagskvöld á menntaskólaárunum geyma minningar af ljúfum stundum með þér á Aflagrandanum en þér þótti mikilvægt að öll barnabörnin fengju heita ömmumáltíð einu sinni í viku. Þú varst stór hluti af jólunum mínum og verður það ljúfsár skylda mín að viðhalda þeirri hefð að spila Hornafjarðarmanna við börnin mín á meðan rjúpuilmur fyllir húsið. Þú varst stoð mín og stytta í gegnum öll mín uppvaxtar- og fullorðinsár og ég mun aldrei gleyma þeim bandamanni sem ég átti í þér.

Með ást og söknuði,

Þorvarður Kjerulf Sigurjónsson.

Í dag kveðjum við elskulega móðurömmu mína, Magdalenu Thoroddsen. Amma var einstök kona, hún var fyrirmynd mín og traust vinkona.

Fyrstu minningarnar sem ég á af Maddý ömmu eru á Miklubrautinni. Þar kom fjölskyldan oft saman og voru það fagnaðarfundir þar sem við frændsystkinin lékum á als oddi. Amma var mátulega afskiptalaus sem gerði það að verkum að leikirnir sem urðu til hjá frændsystkinahópnum voru einstaklega litríkir og frumlegir. Bestar voru stundirnar í sólríkum garðinum á milli birkitrjánna í feluleikjum, klifri og handahlaupum.

Með unglingsárunum jukust samverustundirnar með ömmu og gæðin sömuleiðis. Amma hafði áhuga á ungu fólki og gaf sér alltaf tíma til að spjalla, gefa ráð og deila reynslu sinni. Frá þessum tíma á ég mínar dýrmætustu minningar af ömmu. Hún hafði einstaklega góða nærveru og við gátum setið og talað saman svo klukkutímum skipti heima hjá henni á Aflagrandanum. Sambandið okkar breyttist í einlæga vináttu og við urðum trúnaðarvinkonur. Amma var tilfinningarík og listræn og reyndist alltaf sérlega vel þegar eitthvað bjátaði á. Þegar þörf var á að leita til einhvers eldri og reyndari var hún alltaf til taks og örlát á tíma og ráð. Hún gaf sér tíma í að ræða málin í þaula og oft gróf hún upp vísur og ljóð sem áttu við hverju sinni. Þannig kenndi hún mér að mannskepnan er alltaf eins, tilfinningar og þrár eru sammannlegar og óháðar tíma eða aldri.

Á Aflagrandanum hélt amma áfram að þjappa okkur frændsystkinunum saman. Hún bauð öllum skaranum í mat nánast vikulega og borðhaldið var oft með líflegasta móti. Málefni líðandi stundar voru tekin fyrir og var hópurinn ekki endilega sammála. Þá kom staðfestan og hreinskilnin í ömmu hvað best í ljós og urðu samræðurnar oft ansi skrautlegar fyrir vikið. Minningarnar um þessar stundir eru í dag svo dýrmætar og við frændsystkinin stöndum í þakkarskuld við ömmu fyrir þær.

Amma var sjálfri sér samkvæm og ófeimin við að láta skoðun sína í ljós. Það er sá eiginleiki sem ég kunni hvað mest að meta í hennar fari. Hún var fróð og ljóðelsk og því nutum við góðs af þegar hún fór með kveðskap við ýmis tækifæri. Ég dáðist alltaf að því hversu ótrúlegt minni hún hafði. Maður kom aldrei að tómum kofunum þegar íslensk ljóð og bókmenntir voru annars vegar. Hún gat þulið upp heilu vísnaflokkana og sálmana án þess að bikka auga. Hún kunni að meta fróðleik og kunnáttu og lagði mikla áherslu á að við barnabörnin gengjum menntaveginn. Amma stóð alltaf þétt við bakið á mér í náminu og hvatti mig til að gera vel. Fyrir það er ég óendanlega þakklát í dag.

Allir persónueiginleikar Maddý ömmu gerðu hana að einstaklega skemmtilegri og eftirminnilegri konu. Hún var staðföst og greind og sjálfri sér samkvæm. Örlát við þá sem stóðu henni næst og fyrst til að bjóða fram hjálparhönd þegar eitthvað bjátaði á. Ég á henni svo margt að þakka og hún mun alltaf vera mér fyrirmynd. Ég kveð Maddý ömmu full kærleika, þakklætis og virðingar.

Guð blessi minningu Magdalenu ömmu.

Magdalena Sigurðardóttir.

Þegar við Óli kynntumst um þrítugt, komumst við fljótt að því að föðursystir hans, Magdalena, og föðurbróðir minn, Þorvarður, voru hjón. Okkur þótti það merkileg tilviljun sem það og er.

Fyrsta minning mín um Magdalenu er frá því að ég, nýflutt til landsins með pabba, mömmu og Eiríki bróður og fer í boð til Diddu frænku, föðursystur minnar. Þar var verið að kynna Magdalenu, sem tilvonandi eiginkonu Þorvarðar. Þá var Magdalena rúmlega þrítug og Þorvarður um fertugt. Ég á minningu þar sem ég, 7 ára gömul, horfi á þau sitja saman í tveggja manna sófa. Þetta var í fyrsta sinn sem ég var kynnt fyrir kærustupari og þótti það merkilegt, en man að mér fannst þau svolítið fullorðið kærustupar. Ég man einnig að oft var talað um að Magdalena væri menntuð erlendis frá og væri gáfuð kona. Á þeim árum, þegar jafnréttismálin voru á allt öðrum stað en þau eru í dag, þótti mér þetta mjög merkilegt. Óli man líka eftir því, þegar hann sem strákur velti því fyrir sér hvernig Magdalena gæti verið blaðamaður, því hún væri, jú kona. Tímarnir hafa breyst.

Svo man ég eftir hesta/fjölskylduferð ekki svo löngu eftir að ég hitti Magdalenu fyrst. Þá er Magdalena með Ólínu litla og mamma með tvíburasystur mínar Ingu og Möggu. Þær sitja í sólinni með litlu stelpurnar, hestarnir eru þarna, og við, Eiríkur, pabbi og Þorvarður. Það er góð tilfinning og bjart yfir þessari minningu.

Óli á minningu frá svipuðum tíma og ég var kynnt fyrir Magdalenu. Þá tók hún við heimilisrekstri meðan Elín mamma hans eignast síðasta barnið, hana Ólínu. Hann hugsar til þess í dag að það hafi sennilega ekki verið auðvelt verk að taka þrjá stráka að sér, sem voru vanafastir og áttu t.d. erfitt með að sætta sig við að hafragrauturinn væri ekki alveg eins og hjá mömmu.

Magdalena hafði þann hæfileika að tala við börn eins og fullorðnar manneskjur. Maður fann svolítið til sín.

Eftir að við Óli kynntumst urðu kynni mín nánari við fjölskyldu Magdalenu. Minningarnar um samverustundirnar með þeim systkinum frá Vatnsdal eru ógleymanlegar, enda voru þau söngvin og

mikið sagnafólk. Magdalena er sú síðasta í 14 manna systkinahópi sem nú kveður.

Svona vefast lífsþræðirnir saman og minningarnar eru margar nú þegar kemur að kveðjustund. Við Óli þökkum Magdalenu fyrir allt og sendum dætrum hennar, afkomendum og aðstandendum og öðrum samúðarkveðjur. Minningin um mikilhæfa og góða konu lifir.

Sigríður Jónsdóttir.

Magdalena Thoroddsen

Fallin er frá Magdalena Thoroddsen móðursystir okkar, síðust 14 alsystkina. Margs er að minnast þegar horft er til baka. Þegar ég, sá eldri okkar bræðra – heimsótti Maddý nýlega hafði ég með mér bréf sem hún hafði ritað í Stokkhólmi 1951 og var stílað á staulann mig, fimm ára gamlan. Sumarið áður hafði ég þurft að leggjast inn á spítala í Reykjavík. Enginn sérstakur barnaspítali var til og mæðrum svo ungra barna var því bannað að heimsækja þau. Því tók Maddý mig upp á sína arma og fór með mig einan niður í bæ. Allt var þetta ævintýri ungum dreng en um leið stórt og ógnvekjandi. Lítil hönd læddist því alltaf ósjálfrátt í hönd þessarar góðu frænku sem allt vildi fyrir frænda sinn gera og lítt mælt sælgæti flaut með. Þegar ég vaknaði eftir aðgerð var frænka mín þar til staðar. Annað frændfólk kom en var mér næsta framandi; það var bara Maddý, hlýja hennar og dagleg koma sem hresstu litla sál. Þannig byrjuðu okkar kynni þar sem hún gekk mér nánast í móðurstað. Síðar meir sá ég hversu annt frænku minni var um ætt sína og sitt fólk. Fyrir alllöngu fékk ég fullan tilstyrk hennar við að semja sögu ættargrips sem hafnað hafði í foreldrahúsum okkar vestra; það var skatthol Ólafs Teitssonar úr Sviðnum, smíðað ca. 1840, brúðargjöf föður til Sigríðar langömmu.

Ísafjarðarár frænku var sá tími sem mér finnst að leiðir fjölskyldna mömmu og Maddýjar hafi legið hvað mest saman enda nándin þá meiri. Ég man ekki betur en Ólína eldri dóttir Maddýjar kæmi til dvalar hjá okkur á Núp, bæði sem barn og unglingur. Þetta var gagnkvæmt og er þá komið að yngra bróðurnum Brynjólfi sem var í ,,kost og logi“ hjá frænku sinni er hann gekk í MÍ. Það var góður og eftirminnilegur tími að vera hjá frænku minni á Ísafirði einn vetur. Fyrst vil ég þó rifja upp þann sið móður okkar að heimsækja systkini og ættingja í Reykjavík á hverju sumri. Fékk ég sem snáði að fljóta með í þessar sumarferðir allt þar til ég fór sem unglingur ellefu ár í sveit að Látrum til Diddu frænku. Á þann hátt kynntist maður þessum mikla frændgarði að einhverju marki og oftar en ekki var dvalið í góðu yfirlæti hjá Maddý og fjölskyldu. Veturinn á Hrannargötu, fjórir á sýslumannsheimilinu, var lærdómstími og tímamót fyrir ungan mann sem ekki hafði dvalið á mölinni fyrr. Mér var tekið sem hluta af fjölskyldunni og á yndislegar minningar um þau hjónin og systurnar tvær. Á heimilinu var oft mikill gestagangur og þótti Maddý gaman að halda veislur og var þá jafnan vel veitt í mat og drykk og hún hrókur alls fagnaðar. En kannski eru mér eftirminnilegastar þær stundir okkar Maddýjar þegar við sátum tvö fyrir framan sjónvarpið á föstudagskvöldum og spáðum í tilveruna og lífið. Gjarnan tvö staup af „púrtara“ sem Maddý skenkti og kenndi frænda sínum hvernig ætti að umgangast vín og njóta á

„kúltiveraðan“ hátt. Hún var jú sigld manneskja og minntist studum á veru sína í Svíþjóð.

Við bræður vottum báðum dætrum hinnar látnu og fjölskyldum þeirra dýpstu samúð við fráfall elskaðrar móður, tengdamóður og ömmu.

Einar og Brynjólfur

Magdalenu Thoroddsen kynntist ég fyrst þegar ég kom inn í fjölskylduna sem kærasta elsta barnabarns hennar, hans Dodda míns, fyrir tæpum 20 árum. Ekki grunaði mig að kröfurnar til þess hlutverks míns væru eins miklar og raun bar vitni, en Magdalena hefði nú ekki samþykkt hvaða stelputrippi sem var fyrir augasteininn sinn, hann Dodda. En ég komst greinilega gegnum nálaraugað því Magdalena, eða Maddý eins og ég kallaði hana alltaf, tók mér vel frá fyrstu stundu. Ég var svo endanlega búin að bræða hana þegar það kom í ljós eftir fyrsta árið okkar Dodda í sambúð að sláninn sá hafði bætt aðeins á sig. Hún kunni vel að meta það að ég skyldi ala hann svona vel. Reyndar var henni umhugað um það að fólk væri í passlegum holdum og ein síðustu orðin sem hún lét falla þegar við hittumst í hinsta sinn fyrir stuttu voru hrósyrði um holdafar mitt, enda hef ég þyngst aðeins.

Og ekki lét hún sitt eftir liggja þegar kom að góðgjörðum. Oft nutum við Doddi ásamt fleirum í fjölskyldunni gestrisni hennar í blokkaríbúðinni á Aflagrandanum þar sem við fengum heimabakaða ástarpunga eða pönnukökur. Og alltaf mundi hún að ég drakk te en ekki kaffi. Þá var líka oft tekið í spil, og spilað ýmist vist eða Hornafjarðarmanni eftir því hversu margir spilamenn voru. Maddý var slyng í spilum en reyndi stundum laumulega að dumpa með fingrinum á spilið ef hún henti hund í slag sem einhver annar átti. Það tók mig langan tíma að átta mig á að þá var hún sterk í þeirri sort. Í heimsóknum okkar til Maddýjar fengum við svo iðulega að heyra sögur af Dodda frá fyrstu árunum í lífi hans heima hjá þeim hjónum Magdalenu og Þorvarði heitnum í sýslumannshúsinu á Ísafirði, en Ólína tengdamóðir mín bjó þá enn í foreldrahúsum. Þar svaf Doddi fyrstu fjóra mánuði ævinnar allar nætur á bringu ömmu sinnar svo Ollý gæti hvílst á nóttunni og gengið í menntaskólann á daginn, en þess á milli stóðu allar heldri frúr bæjarins og dáðust að sápuþvegnum drengnum í blúnduskreyttri vöggu í stofunni. Ég held að það hafi reynst Magdalenu mjög erfitt þegar að því kom að Ólína flutti að heiman og úr bænum með son sinn því hún mátti varla af dóttursyninum sjá. En seint á unglingsárum flutti Doddi aftur til ömmu sinnar sem þá átti heima á Miklubrautinni og bjó hjá henni í nokkur ár. Er því varla furða að Maddý hafi tengst Dodda nánum böndum.

Magdalena var sannur skörungur. Hún sætti sig ekki við neitt hálfkák enda dugnaðarforkur sjálf og stóð vörð um alla þá sem stóðu hjarta hennar næst. Hún var greind kona og ég er þakklát fyrir að hún fékk að halda reisn sinni allt til enda. Gengin er góð kona, guð blessi minningu Magdalenu Thoroddsen.

Erla Rún Sigurjónsdóttir.