Ketill Ágúst Kierulf Larsen fæddist í Reykjavík 1. september 1934. Hann lést á Landspítalanum 26. apríl 2018.

Foreldrar hans voru hjónin Axel Larsen, f. 12.11. 1879 í Kaupmannahöfn, d. 1938, og Helga Þórðardóttir Larsen, f. 14.05. 1901 að Vola í Flóa, d. 1989. Systur Ketils eru Zoe Fanney Sóley, f. 1929, d. 1943, og Ingibjörg Guðrún Sólveig, f. 1937. Dóttir Ingibjargar er Helga Fanney Bergmann, f. 1969.

Sambýliskona Ketils var Ólöf Benediktsdóttir bókasafnsfræðingur, f. 1947. Þau byggðu sér hús í Grafarholtinu sem þau nefndu Tjarnarengi og þar bjó Ketill til æviloka. Þau hættu sambúð árið 2003. Börn þeirra eru 1) Hólmfríður Þórunn, f. 1971, gift Ugo Morelli. Börn þeirra eru Alma Sól, Benedikt Axel, Immanuel Ketill, Kristófer Tómas, Emil Þorlákur og Agata Líf. 2) Sólveig Dögg, f. 1974, gift Brynjari Hilmarssyni. Börn þeirra eru Axel Enok og Esther Ólöf. 3) Axel, f. 4.4. 1980 og d.10.4. 1980. 4) Ívar Helgi, f. 1981.

Ketill stundaði nám við Bændaskólann á Hvanneyri á árunum 1960-62, Leiklistarskóla Ævars Kvaran árin 1962-64 og útskrifaðist úr Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1967. Hann sótti einnig tíma í söng og myndlist.

Ketill vann á býli móður sinnar, Engi v. Vesturlandsveg, 1952-60. Hann var starfsmaður Æskulýðs- og tómstundaráðs Reykjavíkur á Fríkirkjuvegi 11 frá árinu 1963 og þar til hann lét af störfum vegna aldurs. Hann stofnaði þar unglingaklúbba og fór með barnahópa í Saltvík á Kjalarnesi og í Víðidal á sumrin. Hann var einnig umsjónarmaður hússins á Fríkirkjuvegi 11 og gætti þess af mikilli samviskusemi. Hann starfaði í leikflokki Litla sviðsins í Þjóðleikhúsinu 1967-68 og í Leiksmiðjunni 1968-69. Hann lék ýmis hlutverk í Þjóðleikhúsinu frá 1969, m.a. í sýningunni Inuk, sem sýnd var í 19 löndum á árunum 1974-78. Ketill var þekktur skemmtikraftur fyrir börn, lék jólasveininn Askasleiki og stjórnaði jólasveinaskemmtunum á Austurvelli frá árinu 1969. Hann skapaði persónuna Tóta trúð og lék fyrir börn. Hann málaði í frístundum og hélt yfir 40 málverkasýningar frá 1970-2017.

Útför hans fer fram frá Dómkirkjunni í dag, mánudaginn 14. maí kl. 13.

Pabbi reyndist mér afar vel, hann var skilningsríkur, raungóður og hvetjandi. Hann var húsvörður hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur. Mér fannst ævintýralegt að fá að vera með honum í vinnunni á Fríkirkjuvegi 11, í þessu stórkostlega húsi þar sem voru leynileg herbergi, langir gangar og brakandi stigar. Háaloftið var mest spennandi en til að fara þangað þurfti að fara upp draugalegan stiga baka til í húsinu.

Við fórum líka stundum með honum í Saltvík á sumrin þar sem hann hélt uppi skemmtun fyrir börnin á reiðnámskeiðinu. Hann sagði sögur og stóð fyrir ýmsum skemmtilegum uppákomum. Honum fannst gaman að koma fólki á óvart. Hann sagði alltaf að maður ætti að lífga upp á lífið með því að gera eitthvað skemmtilegt. „Lífið er leikur,“ sagði hann oft.

Ég hafði líka gaman af að fara í bæinn með pabba en eins og margir vita var hann þekkt andlit í mannlífi bæjarins. Hann þekkti annan hvern mann og það gat verið svolítið þreytandi fyrir barn að stoppa á hverju götuhorni til að spjalla við einhvern. Stundum fórum við niður að smábátahöfn og settumst inn í kaffivagninn, það þótti mér ævintýralegt. Við fórum líka á Hverfisgötuna og fengum pönnsur hjá henni Fríði í hattabúðinni. Núna á síðustu árum fóru barnabörnin með honum í bæjarferðirnar. Minnisstætt er mér atriði út þættinum Sjálfstætt fólk þar sem Jón Ársæll var að ræða við pabba á Mokka og ungur sonur minn var með honum. Pabbi stendur upp þarna meðal kaffihúsagesta á Mokka og tekur eina af sínum flottu aríum, en hann gat brostið í söng hvar og hvenær sem var. Myndavélinni er þá beint að syni mínum sem sýnir engin svipbrigði en sötrar sitt barnakakó með röri eins og ekkert sé eðlilegra. Svona vorum við öll vön þessum óvæntu uppákomum hans pabba.

Pabbi lék Tóta trúð og Askasleiki, foringja jólasveinanna. Við börnin lékum alltaf með honum þegar við vorum lítil og svo stóð barnabörnum það til boða einnig. Sem barni fannst mér ævintýri að taka þátt í þessu með honum. Það var eftirminnileg upplifun að standa á þaki kökuhússins á Austurvelli með mannhafið fyrir framan mig og taka þátt í skemmtun jólasveinanna. Þegar ég varð eldri reiddi pabbi sig á mína hjálp með því að undirbúa sveinana, sminka og hjálpa til með búninga og skegg. Þegar hann fór að eldast kom hann í leikskólann þar sem ég var að vinna og lék jólasvein á jólaballi. Ég sá hann síðast skemmta börnum í október síðastliðnum, hann lék þar við hvern sinn fingur og börnin veltust um af hlátri. Þá var hann bara að sýna einföld töfrabrögð, brjóta saman vasaklút og þykjast spila á penna. Hann hafði ótrúlegt lag á börnum og náði að fanga athygli þeirra án þess að vera með læti. Sem barn man ég eftir brúðunni Hvutta sem hann dró stundum fram fyrir okkur og mér fannst brúðan lifna við í höndunum á honum. Röddin var líka svo raunveruleg, ég var algerlega heilluð.

Pabbi var alltaf að gefa manni ráð og ég ætla að enda á ráði frá honum. Dveldu ekki við neikvæða hluti heldur gerðu líf þitt að leik. Ég mun aldrei gleyma þér, elsku pabbi minn.

Þín

Sóldögg.

Afi spurði mig oft hvað mér þætti skemmtilegt við sig.

Hann var skemmtilegur, hann var alltaf að ferðast og hann sagði skemmtilegar sögur. Hann kenndi mér að vera ekki hræddur við flugur, hann sagði að Tarsan kæmi og bjargaði mér.

Það var gaman að fara í bæinn með afa, á Mokka og í Ráðhúsið. Hann hitti fullt af fólki í Ráðhúsinu en skrifaði og sagði fullt af sögum inni á Mokka.

Einu sinni vorum við í bænum að fá okkur pylsur í Pylsuvagninum. Afi keypti handa mér tvær pylsur og þegar ég var búinn með fyrri pylsuna þá kom máfur og rændi hinni pylsunni. Afi var rólegur en ég spurði hvort ég fengi aðra fría. Afi reddaði því.

Hann var góður afi.

Axel Enok.

Í dag minnist ég frænda míns og vinar, Ketils Larsen. Við Ketill vorum þremenningar að skyldleika, föðuramma mín og móðurafi Ketils voru systkin. Alla tíð var mikill samgangur og kærleikar milli fjölskyldna okkar. Ég man Helgu Larsen og þau systkin þegar þau bjuggu á Hjalla við Sogaveg og við í næsta nágrenni. Þá var oft komið við hjá frænku til að þiggja einhverjar góðgerðir. Þegar ég var níu ára var ákveðið að senda mig sumarlangt í sveit til fólks, sem við þekktum ekki, en var sómafólk og góðkunningjar Helgu. Það sem réð úrslitum var að Ketill fór á sama stað og mér fannst ég vera öruggur að eiga hann sem stoð til að halla mér að meðan ég var fjarri foreldrum mínum og systkinum. Þetta var ógleymanlegt sumar, Ketill var alltaf að segja mér sögur sem hann bjó til sjálfur. Eitt sinn sátum við á sunnudegi inni í stofu og Ketill las fyrir mig spennandi glæpasögu upp úr Dýraverndaranum. Ketill fletti blaðsíðum og virtist lesa af síðunum, sem auðvitað var hreinn spuni. Lesturinn féll niður þar sem við þurftum að bregða okkur frá til að stugga kindum úr túninu. Þegar við komum aftur inn í stofuna var kona nokkur, sem hafði hlustað á, að blaða fram og aftur í Dýraverndaranum. Hún skildi ekkert í því að hún fann ekki söguna, en var spennt að vita hvernig þetta endaði allt saman. Svona leið sumarið, Ketill var ótrúlega hugmyndaríkur og mér leiddist aldrei. Eftir þetta hef ég litið á Ketil sem verndarengilinn minn, fyrir utan frændskapinn.

Síðar, þegar við systkinin vorum orðin fullorðin og búin að stofna fjölskyldur, kom Ketill til okkar í jólaboðin, hann lék og söng, börnum og fullorðnum til mikillar gleði. Það setti sannarlega skemmtilegan og góðan svip á jólaboðin að fá Askasleiki í heimsókn.

Katli var mjög margt gott gefið í vöggugjöf, mikið hugmyndaflug og listfengi og hann var einn af þeim mönnum, sem tókst að varðveita barnið í sjálfum sér. Hann var því gleðigjafi þar sem hann kom og lagði aldrei illt til nokkurs manns. Það fer vel á því að útför Ketils er á afmælisdegi móður hans, sem reyndar er líka afmælisdagurinn minn. Ég fékk þann heiður að halda undir horn á kistu Helgu þegar hún var jarðsett í Lágafellskirkjugarði vorið 1989.

Ég og fjölskylda mín þökkum Katli samfylgdina og allar ógleymanlegu stundirnar og sendum fjölskyldu hans samúðarkveðjur. Við biðjum þeim blessunar um ókomna tíð.

Guðmar Magnússon.

Þá hefur Ketill vinur minn kvatt. Seinast sáumst við þegar hann sýndi mér þá vinsemd að sækja móttöku í höfuðstöðvum Morgunblaðsins 17. janúar sl. Hann var glaðbeittur með glettnisglampann í augum, þótt nokkuð hefði þyngst fyrir fæti. Við höfðum um margt að tala, eins og jafnan þegar fundum okkar bar saman, en í fjölmenninu þennan dag fengum við einungis smástund einir.

Ketil hafði ég þekkt í 55 ár. Þá hittumst við í okkar fyrsta tíma í Leiklistarskóla Ævars R. Kvarans, leikara, lögfræðings og lífskúnstners. Þann heimilislega skóla sóttum við í tvö ár og töldum báðir að þeim tíma hefði verið vel varið. Þeir nemendur Ævars sem ætluðu sér stærri hlut í leiklistinni héldu síðar í forframaðri skóla þar sem fjölmennur hópur kennara tók við þeim. Það má segja að hjá mörgum hafi þar með stærra skref verið stigið. Ketill var einn af þeim sem sóttu sér meiri menntun í listgreininni. Ég fór annað, þótt halda megi því fram að þar með hafi leiklistin ekki endilega verið yfirgefin. Ketill var elsti nemandinn í hópnum okkar hjá Ævari en ég var yngstur. En við urðum þó fljótlega góðir vinir og það breyttist aldrei, þótt síðar yrði stundum alllangt á milli funda. Ketill, sem var lengur en aðrir „foringi jólasveinanna“, fékk mig í lið með sér og í allmörg ár skemmtum við saman á jólaböllum og þegar mest var stundum á mörgum á dag. Pétur Pétursson útvarpsþulur, sem átti bækistöð í húsi Hreyfils við suðvesturhornið á Arnarhóli, var okkar umboðsmaður og hlóð á okkur verkefnum. Síðar bjuggum við að því hversu vel Ketill var kynntur sem jólasveinn, en sumir vinir hans héldu því fram að Ketill væri í raun í dulargervi 11 mánuði á ári, þ.e. þegar hann birtist ekki sem foringi jólasveinanna í aðdraganda jóla og fram að þrettánda. Þótt þessi vertíð stæði aðeins fáeinar vikur, þar til Grýla kallaði sitt hyski í hellinn aftur, þá fékk maður forsmekkinn af fjárhagslegu sjálfstæði þarna og gat staðið á eigin fótum gagnvart jólagjöfum og nokkuð umfram það. Ketill var hinn fæddi jólasveinn. Aðstoðarmenn hans komust ekki með tærnar þar sem hann hafði hælana og ég hafði iðulega ástæðu til að vera þakklátur fyrir að vera ósýnilegur og óþekkjanlegur innan í hinu mikla gervi.

Ketill var góðviljaður, hrekklaus og hjálpsamur og hvarf iðulega með mann inn í heima sem enginn kynntist án hans. Sömu heimar sáust einnig í myndum sem aðeins hann hefði getað málað. Þær voru litskrúðugar og bjartar og hétu gjarnan nöfnum sem tengdu þær við heima sem stundum eru viðkunnanlegri en þessi eini sem flestir aðrir láta sér nægja að þekkja. Nú er Ketill horfinn úr heimi og á örugglega innangengt í aðra. Hvað sem því líður er víst að honum verður hvarvetna tekið fagnandi. Hans barnslega hjarta var samt við sig og sló ætíð í þeim takti sem ég heyrði fyrst fyrir 55 árum. Enginn veit með algjörri vissu hvernig farið er á milli landamæranna sem Ketill hefur nú gert, en á meðan nákvæmari fréttir hafa ekki borist um annað er ekki úr vegi að gefa sér að Ketill muni sennilega hafa farið þetta á puttanum.

Davíð Oddsson.

Ljúfur drengur er látinn.

Allt frá unglingsárum höfum við þekkt Ketil, annað okkar úr drengjaflokki í Vatnaskógi, hitt sem ungan puttaling sem stóð við Vesturlandsveginn nálægt Engi eða Grafarholti og beið þess að fá far til Reykjavíkur. Á þeim árum var þetta landsvæði í sveit, talsvert langt frá Reykjavík. Tveimur áratugum síðar eða svo kynntist 10 ára sonur okkar svo æskulýðsfulltrúanum Katli og naut góðs af vinsemd hans, frásagnargleði og umhyggju á námskeiði í Saltvík. Vinskapur þeirra hefur enst alla tíð síðan.

Ketill var hugmyndaríkur með ólíkindum svo að ævintýrapersónur og nýir heimar spruttu upp og voru honum sem opinberun, hann hafði unun af því að skálda og segja frá. Hann tók sögusögnum með fyrirvara og talaði aldrei illa um nokkurn mann. Ketill málaði myndir, hélt fjölda sýninga á þeim og hann hlustaði mikið á tónlist, alls konar tónlist. Einstakur, dálítið sérkennilegur, oft kjagandi í bænum með burðarpokana sína, afar eftirminnileg persóna sem vildi allt gera fyrir þá sem minna máttu sín og áttu við sjúkdóma eða erfiðleika að stríða. Ketill Larsen sagði stundum eitthvað á þessa leið: Ganga lífsins er alltaf leit að ró og jafnvægi. Hann fann sínar leiðir í þeirri leit.

Vinskapur okkar hélst stöðugt. Við eigum margar góðar minningar um samveru, meðal annars frá heimsókn til hans í súpuveislu fyrir mörgum árum. Tvö barnabörn okkar fengu eitt sinn að skoða strætisvagninn hans – neðanjarðar. Ógleymanlegt.

Áðurnefndur sonur okkar kom fram í nokkur skipti með Katli þar sem báðir voru í trúðahlutverki á þjóðhátíðum. Einstakt samband var á milli þeirra vinanna. Okkur þótti vænt um að frétta af því að sonur okkar hringdi í vininn fyrir fáeinum vikum. Ketill kvaðst vera lasinn svo að hann spurði þá hvort hann gæti eitthvað gert fyrir hann. Ketill svaraði að bragði: „Já, syngdu fyrir mig. Eitthvað sem þú velur sjálfur.“

Hann valdi til flutnings norskan söng, og þar sem systir hans var nærstödd sungu þau saman keðjusöng – í símann – um göngu á skógarstíg í leit að friði og ró: „Jeg gikk en tur på stien og sökte skogens ro.“ Einstök kveðjustund.

Ketill talaði stundum um unglingsár sín í KFUM í Laugarnesinu og hvað honum hefði þótt vænt um leiðtogann Bjarna Ólafsson. Hann sótti oft samkomur KFUM og Kristniboðssambandsins og átti ljúfar og góðar minningar úr Vatnaskógi. Vinahópur Ketils er mjög stór og ljúflyndi hans kunnugt öllum þeim sem hann umgekkst. Við fjölskyldan þökkum alla elskusemi Ketils á samleiðinni. Innilegar samúðarkveðjur til barna hans og fjölskyldunnar.

Blessuð sé minning Ketils Larsen.

Rúna Gísladóttir og

Þórir S. Guðbergsson.

Ég kynntist Katli fyrst í Landssambandi hugvitsmanna, en hann hafði ýmsar hugmyndir til bóta fyrir land og þjóð.

Ekki var neinn skortur á slíkum hugmyndum hjá Katli, en eins og oft er til vandkvæða varðandi góðar hugmyndir er að það vantar fjármögnun til verkefna.

Veit ég um þó nokkur mál sem hægt væri að koma í framkvæmd af hans hugmyndum, þá er slíkt gert í fullri samvinnu við afkomendur.

Talsvert var um samskipti og Ketill var glettinn og hafði gaman af ýmsum uppákomum. Til dæmis hafði hann mjög góða rödd. Eitt sinn hringdi ég í Ketil, en var þá að sækja dæturnar á leikskólann, og sagði við þær að ég ætluðu að hringja í jólasveininn, þetta vakti mikla athygli meðal leikskólabarnanna. Ketill ræddi við börnin í dágóða stund, og allir höfðu gaman að uppátækinu.

Ketill sagið mér að „heiðra skaltu skálkinn þannig að hann skaði þig ekki“. Ég hef nú alist upp við það að þegar menn sýna af sér siðleysi í athöfnum á að taka á slíkum málum af eindrægni og hörku, og þó að menn standi saman.

Ketill valdi að fylgja Jesú Kristi og hans boðskap, þar var um engan ágreining okkar á milli. Nú er hann kominn á annan og betri stað.

Erlingur Thorsteinsson.

Fjöllistamaðurinn Ketill Larsen, vinur okkar allra, er látinn. Það er sjónarsviptir að þessum einstaka manni, er við sáum daglega í miðbænum með farangur sinn. Ketill þekkti marga og margir þekktu hann, ef ekki, kynntist hann fólki auðveldlega með fuglablístri og brosi. Það var hans háttur að nálgast fólk. Að kveðja góðan vin eftir sextíu ára hnökralausa vináttu er þakkarvert.

Í Leiklistarskóla Ævars Kvaran og Leiklistarskóla Þjóðleikhússins áttum við samleið sem var einstaklega ánægjulegur og gefandi tími. Ketill var góður félagi og traustur vinur, sagði heiðarlega sinn hug og var alltaf uppörvandi og leiðbeinandi, á jákvæðan hátt, varðandi listina. Minnismiðar Ketils voru margir og penninn alltaf með í för, því hugmyndaflugið var einstakt og oft var lófinn allur útskrifaður og teiknaður. Er ég kvaddi Ketil á dánarbeðnum, var hann ekki sáttur að hverfa úr þessum heimi, átti mörgu ólokið. Allar sögurnar, ævintýrin og ljóðin áttu að verða að bók. Nú taka börnin hans við ævistarfinu og greiða úr öllum hugmyndunum, því þau eru fær um það, Fífa, Sólveig og Ívar. En Ketill og Ólöf eignuðust fjögur börn, misstu dreng nýfæddan sem þau syrgðu mjög.

Margt upplifði Ketill, ferðaðist mikið, lék og sprellaði, stundaði kristilegt félagsstarf og var fullur af áhuga fyrir lífinu. Á yngri árum var hann léttur og lipur, sem jólasveinn sást hann á þökum í miðbænum og veifaði til barnanna. Ketill var mjög barngóður enda leiðbeinandi barna til margra ára. Mér vildi hann einnig leiðbeina sem best og ég þakka nú fyrir það. Í lok samtals okkar hvort sem það var að kvöldlagi í síma eða á förnum vegi lauk samtali okkar alltaf á þessa leið „og vertu sigurviss“. Ég bið Guð að blessa Ketil, Ólöfu, börn og afkomendur, með þessum orðum, verið sigurviss. Blessuð sé minning góðs vinar.

Jónína H. Jónsdóttir,

Heiðdalshúsi, Eyrarbakka.

Meðan aðrir unglingar fóru sína gandreið á flöskustútum og hasspípum vorum við í Klúbbi 71 á allt annars konar flugi undir dyggri leiðsögn Ketils Larsen. Við flugum á vit ævintýra, skapandi lista og fórum í helgarútilegur upp um fjöll og firnindi. Þar var mikið samið og spilað, heimsmálin rædd og heimspekilegar vangaveltur ígrundaðar.

Sem starfsmaður íþrótta- og tómstundaráðs vann Ketill Larsen mikið og gott starf með unglingum, þar sem hann meðal annars stofnað Klúbb 71. Klúbburinn hélt til í veglega timburhúsinu að Fríkirkjuvegi 11, sem Thor Jensen byggði á sínum tíma Það var mikil gróska í starfseminni. Samin leikrit, lög, textar og ljóð sem flutt voru á sjúkrastofnunum, sambýlum, fangelsum og á litla sviðinu á jarðhæð höfuðstöðvanna við Fríkirkjuveg. Um árabil aðstoðuðu klúbbsfélagar Ketil við að undirbúa komu jólasveinanna til Reykjavíkur og skemmtu áhorfendum við hátíðlega athöfn þegar ljósin voru tendruð á stóra jólatrénu á Austurvelli. Allt undir dyggri stjórn Ketils. Nokkur okkar fengu auk þess vinnu sem aukaleikarar hjá Þjóðleikhúsinu gegnum tengslanet Ketils, sem var lærdómsríkt og gott veganesti. Margoft var farið í skálaferðir í hina ýmsu skála og engum datt í hug að reyna að smygla með sér áfengi. Ketill setti ekki margar reglur, en ein regla var ávallt í hávegum höfð. Það mátti aldrei hafa áfengi um hönd, né önnur vímuefni í tengslum við starfsemi Klúbbs 71. Þetta var á þeim tíma þegar notkun áfengis var mjög algeng meðal unglinga og þó ýmsir klúbbfélagar neyttu þess við aðrar aðstæður bárum við það mikla virðingu og hlýhug til Ketils að það kom aldrei til greina að brjóta þá reglu.

Um leið og ég þakka Katli áratuga kynni sendi ég afkomendum hans og öðrum aðstandendum samúðarkveðjur.

Ásgeir R. Helgason.

Sjónarsviptir er að Katli Larsen, sem nú hefur lokið jarðvist sinni. Óvenjulegur maður og dýrmætur fyrir alla þá sem fengu að kynnast honum. Askasleikir er þagnaður og lurkurinn góði ekki lengur um hönd hafður.

Upp frá miðjum sjöunda áratugnum var það árlegur viðburður og tilhlökkunarefni nálægt upphafi aðventu, að Ketill hringdi í mig til að spjalla fram og til baka í smáu og stóru um komandi jólasveinavertíð og lífið og tilveruna almennt, fá góð ráð og setja sig og okkur báða í jólaskap. Þetta gerði hann í áratugi eftir að ég var hættur að annast jólastúss Gáttaþefs og Ketkróks og þekkti því ekki lengur einstök atriði komandi jólaskemmtana í efnahagslegu og dagskrárlegu tilliti. Það voru ekki jól hjá mér þessi ár nema að Ketill hefði hringt.

Hann hafði einstaka innlifunar- og frásagnarhæfileika. Seint gleymist þegar hann varð samferða mér og undirleikara mínum í bíl frá Reykjavík til Suðurnesja og fór að segja okkur frá ljónsunga, sem móðir hans hefði tekið að sér til leynilegrar varðveislu að Engi. Svo mikil innlifun fylgdi kynngimagnaðri frásögn hans, að við trúðum henni algerlega alla leið til Njarðvíkur. Þá fóru loks að renna á okkur tvær grímur þegar ljónsunginn var orðinn að fullvöxnu ljóni í frásögninni og ljónin meira að segja orðin þrjú og farin að dreifast um víðan völl. Þá var ljóst að þessi lífskúnstner var að uppfylla þörf sína og samferðamanna sinna fyrir dásamleg ævintýri sem krydduðu tilveruna og auðguðu hana.

Ketill var einhver yndislegasta og blíðasta persóna, sem ég hef kynnst. Hann ræktaði barnið í sér til æviloka betur en ég veit dæmi um hjá nokkrum öðrum manni, og það er ekki hver sem er, sem getur þannig uppfyllt skilyrði meistarans frá Nasaret fyrir inngöngu í himnaríki. Blessuð sé minning míns góða og trygga vinar. Innilegar samúðarkveðjur til hans nánustu.

Ómar Ragnarsson.

Ketill, vinur minn í áratugi, er látinn. Óskasteinninn ósýnilegi, sem leysti öll hans vandamál og færði honum ótal góðar hugmyndir er endanlega á braut. Mannlífsflóran er fábrotnari þegar einum lífskúnstner, jólasveini og trúð, er færra hér á landi. Í sex sumur unnum við Ketill saman í Víðidal á hinum geysivinsælu reið- og leikjanámskeiðum ÍTR. Okkur varð strax vel til vina og sú vinátta hélst allt til loka. Ketill undi sér vel við störf í hópi barna. Hann samdi sögur og leikrit tveggja heima fyrir börn með gott ímyndunarafl. Boðskapurinn var friður, sátt og samlyndi allra manna og dýra. Hann lagði sig sérstaklega fram við að ná til þeirra barna sem stóðu höllum fæti félagslega eða leið af einhverjum ástæðum ekki vel. Hann hvatti þau áfram með sinni bjartsýni og lífsgleði.

Ketill Larsen vakti eftirtekt hvar sem hann fór eða kom. Hann var sannur fjöllistamaður með ríka sköpunarþrá. Til að skapa þurfti efnivið sem Ketill sótti sér út í náttúruna eða í hluti sem ekki reyndist lengur not fyrir. „Ævintýrahöll“ reisti hann við heimili sitt, ætlaða börnum í leik. Dýrin og náttúran voru honum hugleikin, nokkuð sem hann drakk í sig með móðurmjólkinni, enda Helga móðir hans landsþekkt dýraverndarkona. Í matargerð var Ketill á undan sinni samtíð. Grös, arfi, hvönn og hundasúrur voru oftar en ekki uppistaðan í hádegismatnum og virtist honum undantekningarlaust verða gott af.

Eftir að samstarfi okkar Ketils lauk við reiðskólann í Víðidal hélst vináttan áfram og fundum okkar bar saman í kringum tilefni eða tilviljanir. Í seinni tíð einbeitti Ketill sér meira og meira að listmálun. Málverk sín, oftar en ekki úr öðrum heimi, heimi blóma og fegurðar, tileinkaði hann bjartsýni og ást til lífsins. Í langan tíma fékk Ketill aðstöðu á veitingastofu BSÍ með liti sína og pappír. Þar undi hann hag sínum vel og málaði viðstöðulaust, allt að 2.000 málverk á ári. Síðasta fund okkar Ketils bar upp á 80 ára afmælishátíð sem hann hélt vinum sínum í Gullhömrum, næsta húsi við heimili sitt, Engi. Þar lék afmælisbarnið á als oddi í góðra vina hópi, skemmti gestum með gríni, söng og spili eins og honum einum var lagið.

Heilsu Ketils hrakaði síðustu árin, fæturnir gáfu sig og þrekið þvarr. Ógleymanlegur vinur er á braut og söknuður ríkir hjá öllum þeim sem kynntust Katli á hans litríku lífsleið. Ég votta fjölskyldu hans innilega samúð og lýk þessum minningarorðum með tilvitnun í Biblíuna, sem Ketill mat mest allra bóka: „Góður maður ber gott fram úr góðum sjóði“.

Helgi Árnason.

Ketill Larsen, stórvinur minn og listamaður, er fallinn frá. Ketill var einstaklingur gæddur miklum hæfileikum og eftir hann liggur langur og fjölskrúðugur listamannsferill. Mig langar að minnast hans í örfáum ljóðlínum sem ég orti þegar eiginmaður minn, Ævar R. Kvaran, féll frá en Ketill lærði leiklist hjá honum:

Stirðnuð er fífilsins brosmilda brá

og brostinn er lífsins strengur.

Helkaldan grætur hjartað ná

því horfinn er góður drengur.

Sorgmædd sit við mynd af þér

og sárt þig ákaft trega.

Herrann helgur gefur mér

huggun náðarvega.

Tekinn var litríkur fífill frá mér

og ferðast einn um sinn.

Í kærleiksljósi leita að þér

og leyndardóminn finn.

Kyrrum klökkum tregarómi

kveð nú vininn hljóða.

Af sálarþunga úr sorgartómi

signi drenginn góða.

Farinn ert á friðarströnd

frjáls af lífsins þrautum.

Styrkir Drottins helga hönd

hal á ljóssins brautum.

Englar bjartir lýsi leið

lúnum ferðalangi.

Hefst nú eilíft æviskeið

ofar sólargangi.

Vonarkraftur vermir trú

og viðjar sárar brýtur.

Ótrúleg er elska sú

sem eilífðinni lýtur.

Í Gjafarans milda gæskuhjúpi

gróa öll mín sár.

Með sólargeisla úr sorgardjúpi

sendi þér kveðjutár.

(Jóna Rúna Kvaran)

Ég votta aðstandendum Ketils mína innilegustu samúð.

Jóna Rúna Kvaran

Ketill Larsen hóf störf hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur (sem seinna varð Íþrótta- og tómstundaráð) 1963 sem leiðbeinandi og húsvörður á Fríkirkjuvegi 11. Þar var í áratugi helsta félagsmiðstöð ungs fólks í borginni og bækistöð fjölda frjálsra félaga. Hin gamla villa Thors Jensen iðaði af lífi. Margir sem seinna urðu framámenn í samfélaginu stigu þar sín fyrstu spor í félagsstarfi eða skapandi greinum. Fjöldi fólks fann sér þar farveg fyrir hugðarefni sín, oft unglingar sem ekki fundu sig í öðru skipulegu félagsstarfi eða bjuggu við erfiðar aðstæður. Í Katli eignuðust krakkarnir bandamann og vin. Ketill hafði einstakt lag á að safna að sér krökkum og mynda með þeim einhvers konar hóp. Verkefni hópanna gátu verið af ýmsum toga en þess var gætt að allir hefðu hlutverk og væru jafningjar. Margir sem sóttu félagsstarf eða tómstundaklúbba á Fríkirkjuvegi 11 minnast þessa sem mjög skemmtilegs tíma í sínu lífi. Ketill mætti til vinnu seinnipartinn á virkum dögum þegar skrifstofutíma lauk og var yfirleitt í húsinu um helgar. Ketill bar mikla umhyggju fyrir húsinu og hélt mjög í heiðri minningu Thors Jensen og fjölskyldu. Deginum lauk með því að athuga glugga og dyr. Ketill hafði til umráða eitt af herbergjum hússins. Þangað flutti hann margskonar leikmuni, búninga og græjur sem hann notaði og þar gat hann málað myndirnar sínar. Herbergi Ketils var fljótt að fyllast og lenti hann oft á hrakhólum um húsið með dót sem þar komst ekki fyrir. Fjórum sinnum þurfti hann að skipta um herbergi. Það voru erfiðir tímar, bæði fyrir Ketil og ekki síður okkur hin á skrifstofunni. Á sumrin vann Ketill við reiðskóla Æskulýðsráðs í Saltvík á Kjalarnesi og síðar í Víðidal. Í Saltvíkurrútunni sagði Ketill sögur sem hann samdi jafnóðum og tók jafnframt upp á segulband. Í Saltvík þróuðust mál svo að Ketill tók gjarna að sér krakka sem áttu erfitt uppdráttar og sinnti þeim. Hann hafði sínar sérviskur og hafa margar bráðskemmtilegar sögur af því spunnist. Sem Tóti trúður eða Askasleikir, foringi jólasveinanna, fór hann víða um land að skemmta börnum og fullorðnum. Enginn hefur jafn oft troðið upp á 17. júní eða þegar kveikt var á jólatrénu á Austurvelli. Fræg er sagan af því þegar sendiherra Sovétríkjanna tók „Tóta trúð“ upp í bíl sinn austur í sveitum og bauð honum til kvöldverðar með sér í sumarbústað. Hafði sendiherrann ekki fyrirhitt svo bráðskemmtilegan og athyglisverðan karakter. Ketill brá oft fyrir sig ýmsum hlutverkum. Hann átti til að heilsa nýjum starfsmönnum á skrifstofunni með því að draga annað augað í pung, setja stút á munninn og með miklu handapati ávarpa viðkomandi á golfrönsku. Fólk tók þessu misvel. Þeir sem þekktu Ketil geta án efa séð fyrir sér þegar starfsmannastjóri ÍTR tók við hann svokallað starfsþróunarsamtal. Umfram allt var Ketill drengur góður sem setti lit á sinn samtíma, eftirminnilegur öllum sem honum kynntust. Katli eru að leiðarlokum þökkuð störf hans í þágu barnanna í borginni. Fjölskyldu hans sendum við samúðarkveðjur.

Fyrir hönd skrifstofu ÍTR,

Gísli Árni Eggertsson,

Ómar Einarsson.

Ketill Larsen fjöllistamaður er látinn.

Hann gekk fyrir um tveim áratugum í Vináttufélag Íslands og Kanada, VÍK, þar sem ég er formaður, og var síðan lengst af í stjórn þess félags. Var það ekki að hann hefði komið til Kanada, heldur taldi hann að það væri, sem bókmenntalega sinnað menningarfélag, gott haldreipi fyrir sig í menningarlífinu.

Hann mætti síðan gjarnan á árlega upplestrarfundi ljóðskálda, Hellas-hópinn, er tengist VÍK, og las þar úr ljóðum sínum. Taldist hann vera vel frambærilegt ljóðskáld þar þótt hann kysi frekar að birta ljóð sín á netinu en á bók. Mér þótti síðan vænt um er hann orti langt og fallegt afmæliskvæði um mig er birtist síðan í Fréttablaði VÍK. Einnig keypti hann af mér nokkrar ljóðabækur mínar.

Hann hélt líka fyrirlestur um lífshlaup sitt hjá okkur í VÍK og sýndi okkur þá líka nokkur málverk sín.

Einnig kynntist ég honum sem aðkeyptum skemmtikrafti á barnasamkomum í Ásatrúarfélaginu.

Þennan hjartahlýja félagsmálamann vil ég nú kveðja með broti úr ljóði mínu: Um marmarans yfirlæti en þar fjalla ég um sögu marmarans í evrópskri myndlist og segi þar m.a. svo:

En kannski er þá marmarinn sjálft guðið?

Þessi glæsilegi fulltrúi hins steinda al heims;

sem guð eða ekki guð stendur að baki?

Þá er glettilega við hæfi

að við höfum marmarahellur á gólfum

sem við hnjótum ekki um

í eiginlegri né óeiginlegri merkingu;

heldur njótum fegurðar kristalkvoð unnar;

sem er nú hvorki góð né vond...

þótt sumir skriki á hennar svellinu...

Tryggvi V. Líndal.

Mér er tregt tungu að hræra er ég minnist vinar mín Ketils. Kynni okkar hófust er við settumst á skólabekk í leiklistarskóla Ævars Kvaran fyrir 55 árum. Minntist Ketill oft á það síðar á lífsleiðinni hversu ágætur skólinn var og hversu góður kennari Ævar var. Þó að nokkur aldursmunur væri á okkur náðum við strax mjög vel saman. Sóttum við báðir nokkru seinna um inngöngu í leiklistarskóla Þjóðleikhússins sem var þriggja ára skóli með nemendaleikhúsi fjórða árið. Vorum við, þessi hópur sem komst inn í skólann, saman nánast hvern dag og bundumst við öll sterkum böndum. Ketill er annar í hópnum sem kveður og skólasystkini hans minnast hans með þakklæti og eiga um hann góðar minningar frá skólaárunum. Í Þjóðleikhúsinu lék Ketill meðal annars nafna sinn Ketil Skræk í Skugga-Sveini en stóra tækifærið fékk hann í verki Brynju Benediktsdóttir Inuk sem byrjaði sem lítil sýning á litla sviði Þjóðleikhússins en endaði sem ein víðförlasta leiksýning Íslandssögunnar, leikin í 19 löndum árum saman. Þar var Ketill í essinu sínu enda eins og sniðinn í hlutverkið. Katli og Brynju varð vel til vina og mat hann Brynju mikils og taldi hana einhverja mestu leikhúsmanneskju sem Ísland hefur alið. Eitt er það hlutverk sem margir tengja við Ketil en það er jólasveinninn. Hann hafði mikið yndi af því að leika Askasleiki og gerði það í mörg ár á Austurvelli við tendrun norska jólatrésins. Hann lék líka Tóta trúð árum saman og þar fyrir utan gerði hann mikið af því að koma fram á samkomum ýmiskonar og árshátíðum með skemmtiatriði. Var þar vinsælust Gudda nokkur símamær á skiptiborðinu sem vissi óþarflega mikið um einkalíf starfsmanna fyrirtækjanna. Auk þess var Ketill afkastamikill listmálari og hélt ótal sýningar á verkum sínum. Ketill hóf störf hjá Æskulýðsráði Reykjavíkur þar sem hann vann meðal annars við opið hús á kvöldin og á sumrin við leikjanámskeið lengst af í Saltvík á Kjalarnesi þar sem ég vann með honum í mörg sumur. Það var fastur liður að Ketill sagði sögur og ævintýri sem hófust strax í rútunni við Fríkirkjuveg 11 og enduðu uppi í Saltvík og börnin vildu þá heyra enn meira. Í nokkur ár var Ketill eins konar húsvörður á Fríkirkjuvegi 11, því fagra og merka húsi sem Thor Jensen lét byggja, þar sem aðsetur Æskulýðsráðs Reykjavíkur var þá. Þá gerðist það að misvitrir menn vildu rífa húsið og reisa þar nýja seðlabankabyggingu. Ketill safnaði liði og fékk með sér góða menn og hófu þeir undirskriftasöfnun til bjargar húsinu sem Ketill unni svo mjög. Tókst að afstýra þessu umhverfisslysi á síðustu stundu þökk sé Katli. Ketill hóf sambúð með Ólöfu Benediktsdóttur og reistu þau sér hús á erfðafestulandi móður hans og nefndu það Tjarnarengi. Þau eignuðust fjögur börn en misstu einn dreng í vöggu og var hann Katli mikill harmdauði. Ketill kynnti mig og Eygló sem síðar varð eiginkona mín og sagði hann alltaf að mörg fyrirtæki hefði hann stofnað en þetta væri það best heppnaða. Fyrir það er ég honum ævinlega þakklátur. Við töluðum saman ýmist í síma eða hittumst daglega í marga áratugi, brölluðum margt saman og vorum viðstaddir allar gleði- og sorgarstundir í lífi hvor annars. Ketill stappaði í mig stálinu og studdi mig endalaust. Ég er honum ævarandi þakkátur og sakna hans mjög.

Jón Símon Gunnarsson og fjölskylda.

Ketill var einstakur maður. Hann var hlýr og umhyggjusamur, lét sér annt um náungann, sérstaklega þá sem minna máttu sín. Hann hafði fjörugt ímyndunarafl og mikla kímnigáfu og sagði skemmtilega frá. Honum var margt til lista lagt, m.a. góður leikari, myndlistarmaður, skáld og söngvari. Hann kom víða við og þekkti marga og öllum sýndi hann glaðlegt viðmót og vingjarnlega framkomu. Ketill var trúaður maður og sótti reglulega fundi í Kristniboðsfélagi karla í Reykjavík. Hann fékk tækifæri til að heimsækja Keníu um aldamótin og kynnast kristniboðsstarfinu í Pókot-héraði með eigin augum. Hann mat mikils þá vináttu og samfélag sem hann átti við kristniboðana og var það gagnkvæmt. Nokkur málverka hans urðu eftir nærri miðbaug að lokinni heimsókn.

Samfélagið í Kristniboðsfélaginu og samkomur Kristniboðssambandsins á miðvikudagskvöldum auðgaði hann með sinni góðu nærveru. Við vinir hans í Kristniboðsfélaginu þökkum samfylgdina og biðjum góðan Guð að blessa minningu hans og vera með ættingjum hans og ástvinum.

Bjarni Árnason,

Halldór Konráðsson.

Ég var sjö eða átta ára í rútu á leiðinni í Víðidal á reiðnámskeið. Þar sat Ketill fremst, þessi sérstaki maður sem sagði okkur sögur og miðlaði sinni skemmtilegu sýn á heiminn og lífið. Hann náði að gera hversdagslega atburði að ævintýri og sýndi okkur börnunum einstaka virðingu og skilning.

Mörgum árum síðar lágu leiðir okkar aftur saman á Mokka. Þar var koma hans fastur liður í deginum. Dyrnar opnuðust, Ketill gekk inn þungum og hægum skrefum klyfjaður töskum og pokum, létt yfir honum, alltaf glaður að sjá okkur sem þar sátum, brosið breitt og hugurinn úti um allt. Best fannst honum að sitja í gluggasætinu þar sem hann skemmti gestum með söng og ýmiss konar bulli á ímynduðum tungumálum. Hann kunni ótal sögur af fólki, bæði raunverulegar sögur af raunverulegu fólki sem og uppspunnar sögur af ímynduðu fólki. Hann sagði mér sögur af forfeðrum mínum og fólkinu sem gekk framhjá glugganum. Hann söng á kínversku og spilaði á ósýnilega fiðlu. Hann gerði fuglahljóð og penninn hans varð að flautu.

Ketill náði að skapa einstaka tengingu við hvern þann sem hann hitti. Það var alltaf kærleikur í röddinni hans, öll hans tilvist fannst mér vera einn stór kærleikur, ein stór lofgjörð til lífsins. Að hitta hann fyllti daginn af lífi og fjöri, heimurinn stækkaði, allt varð mögulegt, hugmyndum hans voru engin takmörk sett. Og honum fannst hver manneskja dýrmæt. Hann sá það einstaka við hvern og einn. Ég man eftir að hafa hlustað á hann gefa sig á tal við þá sem sátu einir á Mokka, hann sýndi þeim raunverulegan áhuga og spurði spurninga sem fengu þá til að sjá sjálfa sig í nýju ljósi.

Mér fannst stundum eins og hann vissi meira en við hin um lífið, um það sem við getum ekki útskýrt og það sem við sjáum ekki. Stundum rakst ég á hann og hann vissi einhvern veginn nákvæmlega hvað ég var að ganga í gegnum og sagði einmitt það sem ég þurfti að heyra, ég hafði oft á orði við hann að hann væri skyggn. Stundum í miðju bulli kom hann nefnilega með tæran sannleik.

Þegar meiri hraði og alvara færðist yfir lífið urðu ferðir mínar á Mokka færri og hættu svo eiginlega alveg. En ég gladdist í hjarta mínu í hvert sinn sem ég gekk Skólavörðustíginn og sá Ketil í gegnum gluggann, það var tímaleysi sem róaði hugann. Og þegar ég rakst á hann á götum bæjarins skipti ekki máli hve langt hafði liðið frá því síðast, það var alltaf eins og við hefðum hist í gær, það urðu alltaf fagnaðarfundir og mér fannst hann alltaf þekkja mig öðruvísi en aðrir. Síðasta skipti sem ég hitti Ketil var við Tjarnargötu í mikilli sól, hann var hress og ímyndunaraflið og sagnagleðin upp á sitt besta. Við áttum langt samtal og svo settist hann upp í bíl og kvaddi með sínum sérstaka hætti: veifaði lengi sínu drottningarveifi með blik í augum og hlýlegt bros á vör. Þannig sé ég hann fyrir mér yfirgefa þennan heim.

Takk, elsku Ketill, fyrir vináttuna, gleðina og sannleikann. Takk fyrir kærleikann sem þú sýndir mér og öllum þeim sem fengu að kynnast þér.

Kristín Anna Hermannsdóttir.

Ketill breytti andartakinu í ævintýri, hann gat talað frönsku án þess að hafa lært hana og skrifað endalausar skemmtisögur sem komu aldrei út. Einu sinni mætti hann heim til mín í barnaafmæli og flautaði með eyrunum, þá hlógu krakkarnir dátt.

Nú falla gullmolarnir ekki lengur af gnægtaborði Ketils og íbyggnar athugasemdir hans heyrast ekki oftar. Ég mun sakna hans á götum Reykjavíkur og á alls kyns mannamótum þar sem leiðir okkar hafa legið saman. Ég minnist hans af þjóðvegi lífsins, hann stendur við vegarbrún með stóru axlatöskuna sína, fulla af draumum, og spyr kankvís: Má ég kannski fá far, gæskurinn?

Hvíldu í friði, Ketill minn.

Bjarki Bjarnason.

Hann setti svip á bæinn, er oft sagt um litríka karaktera sem fara sínar eigin leiðir og falla ekki í kramið. Ketill Larsen var kennileiti í miðborg Reykjavíkur. Gangandi kennileiti í miðbænum sem allir Reykvíkingar könnuðust við og ótrúlega margir þekktu persónulega. Hokni listamaðurinn sérkennilegi með allar töskurnar og pinklana, sem gerði í því að tolla ekki í tískunni. Viðkomustaðirnir voru Landsbankinn, pósthúsið, Ráðhúsið, Mokka, Tíu dropar, Eymundsson og svo framvegis. Smátt og smátt hægði á göngulaginu með árunum og áratugunum. Pinklunum fækkaði nokkuð og þeir léttust eftir því sem fæturnir gáfu sig. Þegar kom að því að staf og síðar hækjur þurfti til að komast leiðar sinnar um miðbæinn og einhver bauðst til að útvega honum túristatösku með hjólum og útdraganlegu handfangi í staðinn fyrir axlatöskurnar tók hann því fálega. Í staðinn kom hann við í Brynju á Laugaveginum og keypti húsgagnahjól sem hann skrúfaði undir þyngstu pinklana á eldhúsborðinu heima á Tjarnarengi. Eitthvað reyndust gömlu axlatöskurnar á nýju hjólunum óþægar í taumi og vildu stefna í aðrar áttir en hann sjálfur, en það gerði ekkert til, hann fór sér bara hægar. Við Ketill fórum í marga ævintýraleiðangra að hans frumkvæði. Einu sinni fórum við í jeppaferð upp í Bleiksárdal í Esju að leita að helli sem Ketill var sannfærður um að leyndist í dalnum. Hann taldi víst að áin sem rann undan fjallinu innarlega í dalnum hefði grafið út helli í aldanna rás. Engan fundum við hellinn en ferðin var eftirminnileg og segir allt sem segja þarf um þann ævintýraheim sem Ketill lifði og hrærðist í. Annað sinn skruppum við upp í Borgarnes að skoða gamla númerslausa rútu sem Ketill hafði áhuga á að kaupa og bæta í flota númerslausra bíla á hlaðinu á Tjarnarengi. Ketill safnaði fleiru í kring um sig á Tjarnarengi. Frægasti safngripurinn var strætisvagninn sem hann kom fyrir í garðinum og lét moka og tyrfa yfir. Neðanjarðarstrætó í garðinum lýsir Katli betur en flest annað. Svo voru það smáhýsin og kofarnir. Hann lét traktorsgröfu grafa fyrir þeim í holtið fyrir ofan Tjarnarengi og skírði þá viðeigandi nöfnum. Ég man eftir nokkrum; Gróðurhúsið, Lystihúsið og Bankinn. Það var mikil hvíld að setjast niður með Katli yfir kakóbolla og vöfflu, hvort sem það var á Mokka, í Eymundsson á Skólavörðustig eða í Ráðhúsinu. Að setjast niður í amstri hversdagsins með viðskiptin á bakinu og hlusta á ævintýrin sem engum takmörkum voru háð og lutu engum lögmálum. Ekki einu sinni þyngdarlögmálinu því að allir hlutir gátu flogið í huga Ketils Larsen. Maður gekk léttum skrefum frá fundi með Katli, og vandamálin virtust auðleystari. Það er stundum sagt að það komi maður í manns stað, en kennileiti miðbæjarins er horfið og það skarð verður aldrei fyllt. Það kemur enginn í staðinn fyrir Ketil Larsen, og miðborg Reykjavíkur verður fátækari um alla framtíð.

Einar Eiríksson.

„Ég er Inúk maðurinn. Þetta er snjóhúsið mitt. Það er hlýtt og notalegt, þegar hríðin geisar dag eftir dag og engir geta verið úti nema hundarnir.“

Með þessum orðum byrjaði Ketill sýninguna okkar INÚK í 231. skipti. Hún var samin fyrir skólana á Íslandi og leikinn á öllum skólastigum, frá barnaskóla upp í háskóla, og erlendis í 36 borgum 19 þjóðlanda Evrópu og Mið- og Suður-Ameríku.

Ketill var stjarnan. Það var mikið snjallræði hjá Brynju Benediktsdóttur leikstjóra að fá hann til þessa starfs. „Hann var meistari að herma eftir fuglum og jafnvel furðuskepnum. Sem barn undi hann sér úti í móa og talaði tímum saman við mófugla á þeirra máli. Hann hafði lokið námi í Þjóðleikhúsinu 1967 en ekki enn fengið neitt bitastætt hlutverk“ (Brynja og Erlingur. Fyrir opnum tjöldum, bls.168).

Við hin, Kristbjörg Kjeld, Helga E. Jónsdóttir, Þórhallur Sigurðsson og Brynja, vorum öll starfandi leikarar og leikstjórar við Þjóðleikhúsið, og með í öllum ferðum var Þorlákur Þórðarson tæknimaður. Textann skrifaði Haraldur Ólafsson mannfræðingur.

Það reyndi auðvitað mikið á hópinn á öllum þessum ferðalögum og sýningum við ýmsar aðstæður. Ketill var engum líkur. Ef upp komu einhver vandamál hafði hann lausnina á reiðum höndum. Hann bar alltaf tösku um öxl og varð meira að segja að hafa hana í augsýn á sýningum. Við höfðum það á tilfinningunni að í henni væri að finna allt sem hægt væri að nota við óvæntar aðstæður, hlý föt, kannski gúmmíbátur og fallhlíf.

Við vorum á leiðinni upp að Bifröst að sýna í Samvinnuskólanum. Börnin okkar höfðu fengið að fara með og eitt þeirra gubbaði yfir Helgu í bílnum. Þá dró Ketill upp úr töskunni hvíta, síða nærbrók og stoppað var í Botnsskála. Helga kom síðan svífandi til baka á skyrtu og brók og mætti þannig á áfangastað. Ketill var stöðugt skrifandi og teiknaði endalaust í litlar bækur, sem hann geymdi í töskunni góðu.

Í viðtali við útvarpið 1.4. 2016, í tilefni af einni af fjölmörgum málverkasýningum hans, Blóm frá öðrum heimi, sagði hann: „Það er nóg af vondum verkum í heiminum og ekki þarf að mála myrkrið.“ Veitingahús í Venesúela. Ketill situr einn við borð og teiknar. Dauf birta. Hann dregur kerti upp úr töskunni og kveikir á því. Eftir skamma stund hafa allir gestir beðið þjóninn um kerti og salurinn ljómar.

Úr viðtali við Ketil í Morgunblaðinu 5. apríl 2008:

Blaðamaður: Hvað í samfélaginu gerir þig dapran?

Ketill: Að Íslendingum komi ekki nógu vel saman. Eyða of miklum tíma í óþarfa vesen og þras. Það væri betra ef þeir byrjuðu á því að syngja saman í þinginu áður en vinna hefst. Tala nú ekki um ef þeir tækju upp á því að dansa gömlu dansana.

Blaðamaður: Hverjir eru styrkleikar þínir?

Ketill: Ég held þeir felist í hugarfluginu. Ef maður hefur bjartan huga þá er það eins og himinn sem hægt er að mála á fallegar myndir.

Blaðamaður: Hvað langaði þig að verða þegar þú varst lítill?

Ketill: Ég ætlaði að verða læknir og flugmaður, svo breyttist það en samt breyttist það í raun ekki. Ég geri þetta tvennt í huganum, að fljúga og lækna. Sumir eru þannig að þá má lækna með því að segja eitthvað skemmtilegt. Ég held að ég sé feginn því að vera ekki dr. Ketill.

Við Inúk félagarnir sendum börnum og ástvinum Ketils okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hann var góður, einstakur maður.

Helga E. Jónsdóttir,

Kristbjörg Kjeld,

Þórhallur Sigurðsson.

Ég kveð að sinni kæran vin, Ketil Larsen, mikinn mannvin og friðarins manneskju.

Heill og þakkir fyrir áratuga vinskap og fjölskylduvináttu, lærdómsrík kynni og glaðar stundir.

Fyrst í Ananda Marga fyrir rúmum þrjátíu árum, svo á Snæfellsásmótum og myndlistarsýningum. Margt skemmtilegt var spjallað um listir, andleg mál, náttúrulækningar, heilun, jurtir og flest mannleg málefni í heimsóknum, símtölum og svo líka í bílferðunum til og frá Þingvöllum á sumarblót.

Hvorki fyrr né síðar hef ég kynnst neinum með jafn mikið fljúgandi sköpunarflæði á mörgum sviðum samtímis og af sinni stöku hógværð var samt efst í huga að allir aðrir, börn sem fullorðnir gætu notið sín, þroskað og notið sinna hæfileika. Þannig var Ketill.

Í samskiptum við fólk gerði hann engan mun þvert á lífsskoðanir, trú aldur eða stöðu og vitna ég í dóttur mína Sigurbjörgu Ösp að þau börn sem ekki hefðu upplifað eða kynnst Katli Larsen hefðu farið á mis við svo mikið; fyndna leikþætti, söng, töfra, Tóta trúð og skrýtnar dæmisögur og lífið hefði verið eitthvað skrítið án þess.

Ég votta fjölskyldu og vinum Ketils innilega mína samúð. Góðar minningar lifa um einstakan mann.

Jónína Kristín Berg.

Ketill, vinur minn til 55 ára, er látinn eftir erfið veikindi.

Við kynntumst er ég mætti á fund í Leikhúsi æskunnar og þekkti engan. Hann gaf sig á tal við mig og þá þegar var hann farinn að laða að sér ungt fólk. Við náðum strax vel saman þótt aldursmunur væri nokkur. Við vorum svo í mörg ár í þessu áhugamannaleikfélagi og fórum m.a. til Þýskalands með því á vegum Æskulýðsráðs Reykjavíkur. Þarna unnum við saman í nokkur ár. Hann var þar húsvörður og sá um nokkra klúbba. Hann vann líka með börnum í reiðskólanum í Saltvík á Kjalarnesi á sumrin. Þar hafði hann ofan af fyrir þeim m.a. með því að segja þeim sögur og alls konar ævintýri, sem hann spann upp jafnóðum. Börnin voru spennt að hlusta á framhaldið.

Ketill útskrifaðist frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins 1967. Hann vann um tíma þar og er eftirminnilegastur sem tungulipur uppboðshaldari í söngleiknum Oklahoma. En merkast var þó þegar hann lék inúíta í leikritinu Inúk, sem var um menningu inúíta á Grænlandi. Þessi sýning var alveg mögnuð og var farið með hana í leikför um fjölmörg lönd. Efast um að nokkur önnur sýning hafi farið jafn víða. Ketill vildi fremur starfa óháður að list sinni, sem fólst í að skapa þekkta karaktera eins og Tóta trúð, en hann skemmti sem slíkur í fjölda ára. Hann var fastagestur sem jólasveinninn Askasleikir og muna margir eftir honum á Austurvelli og víðar.

Katli var margt til lista lagt og samdi ljóð og málaði málverk, sem flest áttu að vera í einhverjum undraveröldum og mjög litrík. Hann hélt fjölda málverkasýninga, bæði hérlendis og erlendis.

Hann var góður vinur vina sinna og var alltaf velkominn í heimsókn. Hann var af dönskum ættum, faðir hans var Axel Larsen, en móðir hans Helga Larsen, löngum kennd við Engi við Vesturlandsveg. Um árabil fór hann á hverju ári til Danmerkur. Hann ferðaðist einnig víða um lönd og fór einu sinni í kringum hnöttinn að mestu einn síns liðs.

Ketill var ekki allra. Hann var skapmikill og átti það til að móðgast, því stundum var hann misskilinn listamaður. Kímnigáfan var aldrei langt undan og Ketill var oftast í essinu sínu að gantast. Mest fannst mér gaman að því þegar hann talaði tungum og bjó til einhver tungumál, sem líktust t.d. frönsku eða rússnesku í framburði og bullaði eitthvað, söng hástöfum og skipti ört um lög. Hann hafði ágætis söngrödd.

Ketill hafði alltaf gaman af mannlegum samskiptum og fór iðulega á puttanum um landið. Það var ekki af því að hann kynni ekki að keyra bíl heldur af því að honum fannst svo gaman að kynnast og tala við fólk á leiðinni.

Það var ekki hægt að ganga með Katli í miðborginni án þess að hann væri að heilsa fólki. Hann sat oft löngum stundum á Mokka og var þá mög oft að semja eitthvað eða skissa upp myndverk. Það er vel við hæfi að jarðarförin skuli fara fram frá Dómkirkjunni.

Samúðarkveðjur til ástvinanna, barnanna Hólmfríðar, Sólveigar og Ívars, einnig Ólafar móður þeirra og barnabarna.

Blessuð sé minning Ketils Larsen. Hann var engum öðrum líkur.

Harpa Jósefsdóttir Amin.

...og svo legg ég til að Árni verði formaður rútubílanefndar, sagði Ketill fyrir margt löngu, sennilega haustið 1968, að Fríkirkjuvegi 11 á fyrsta fundi Saltvíkurhópsins sem starfaði síðan um veturinn, hópur 40-50 barna sem höfðu verið þátttakendur í sumarstarfinu í Saltvík um sumarið. Þetta fannst 11 ára dreng bera vott um gríðarlegt traust og gerði sitt besta til þess að sjá til þess að rútumál Saltvíkurhópsins yrðu í góðu lagi, sem varð eins og hjá öllum hinum krökkunum sem öll höfðu hvert og eitt mikilvæg hlutverk. Ketill var æskulýðsfrömuður í víðasta skilningi þess orðs og hafði á þessum tíma og síðar verið duglegur að sækja námskeið í æskulýðsmálum, m.a. hjá samtökum danskra félagamiðstöðva, Ungdomsringen, enda bar allt starf hans á vettvangi æskulýðsmála vott um fagmennsku og djúpa þekkingu á eðli starfsins, ekki síst mikilvægi hópastarfs. Starfsemi sem byggðist á sjálfseflingu einstaklinga og hvata til virkrar þátttöku í leik og starfi og ekki síst að láta málefni þeirra sem minna mega sín, eða standa höllum fæti, sig varða. Allt hans starf á þessum árum bar keim af þessu og verkfærin til að ná þessum markmiðum voru mörg, leiklistarhópar, opið starf og klúbbastarf. Viðfangsefnin margvísleg, margt brallað og ævintýrin endalaus. Vettvangur reynslu og þroska, nám í víðasta skilingi þess orðs hjá fjölmörgum börnum og ungmennum. Enda svo að margt vel virkt ungmennið á honum mikið að þakka, m.a. sá sem þetta ritar. Að hafa fengið tækifæri til þess að vera honum samferða um stund í leik og starfi var ómetanlegt og fyrir það er ég ákaflega þakklátur. Minning um hrekklausan mann, einstakan mannvin, sem leitaðist ávallt við að ganga til góðs og láta gott af sér leiða lifir. Börnum hans og fjölskyldu votta ég mína dýpstu samúð.

Árni Guðmundsson.

Fallinn er Ketill nú frá,

farinn til himnanna ríkis.

Mörg er hans minning hjá

mannfólki jarðar ríkis.

Leikari af lífi og sál,

lipurt sagði hann frá.

Leit ekki lífsins tál,

en lifandi hans sköpunarþrá.

Lék hann og málaði, skrifaði og söng,

sagði frá lifandi draumum,

hans ævi var orðin erfið og löng

og erfitt að fylgja nýjustu straumum.

Ef átti einhver vinur erfitt og bágt

oft átti hann huggun og ráðin,

hjálpsemi Ketils horfði ekki lágt,

hans var göfgin og dáðin.

Mörgum unglingi meitlaði braut

máttug hans orð, þeim í huga.

Að nóttu var lokið hans lífsins þraut

líkaminn hætti að duga.

Til friðar, hans sálarleið liggur,

lifandi framkvæmdasaga,

leikarinn lífinu tryggur,

lofaður alla daga.

Vinarkveðja,

Björn Finnsson.

HINSTA KVEÐJA
Farinn er góður maður. Afar víðsýnn, hugmyndaríkur og góðhjartaður. Það er sárt að hugsa til þess að hitta þig ekki aftur í þessu lífi, Ketill minn. En við sjáumst.
Benedikt Sigmundsson.