Heilbrigði Könnun sýnir að 80% þjóðarinnar eiga nákominn ættingja eða vin sem greinst hefur með krabbamein, segir Halla Þorvaldsdóttir.
Heilbrigði Könnun sýnir að 80% þjóðarinnar eiga nákominn ættingja eða vin sem greinst hefur með krabbamein, segir Halla Þorvaldsdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
Siguður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Auðvitað er full ástæða til að meta reglulega hvernig þjónustu í heilbrigðiskerfinu er best fyrir komið.

Siguður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Auðvitað er full ástæða til að meta reglulega hvernig þjónustu í heilbrigðiskerfinu er best fyrir komið. Ég tel þó víst að slíkt leiði í ljós að betra sé að fela félagasamtökum eða sjálfstætt starfandi aðilum sum verkefni en að þau séu flutt inn í opinberar stofnanir,“ segir Halla Þorvaldsdóttir, framkvæmdastjóri Krabbameinsfélags Íslands.

„Heilbrigðiskerfið hefur lengi notið góðs af starfi ýmissa félagasamtaka. Hjá slíkum félögum er brennandi áhugi á málefnunum, lítil yfirbygging og mikill sveigjanleiki. Ef niðurstaða ráðherra er að færa þjónustu til stofnana ríkisins er mikilvægast að það sé gert að vel athuguðu máli svo sá árangur sem náðst hefur tapist ekki eða þjónusta rofni.“

Ganga að þjónustu vísri

Meðal mála sem fjallað var um á aðalfundi Krabbameinsfélags Íslands sem haldinn var í fyrri viku var mikilvægi þess að sá sjúklingahópur sem þarfnast sérhæfðrar líknarþjónustu í heimahúsum fái hana áfram. Er þar vísað til þess að hjúkrunarþjónustan Karitas, sem lengi hefur sinnt líknandi þjónustu við krabbameinssjúka, hættir starfsemi í haust, þar sem ekki hafa náðst viðunandi samningar við Sjúkratryggingar Íslands.

„Líknarþjónusta í heimahúsum léttir auðvitað á sjúkrahúsunum. Ef sá aðili sem sinnt hefur sinnt þessari starfsemi hættir verða aðrir að taka við. Það verður líka að gera sem allra fyrst svo þeir sem njóta þjónustunnar geti gengið að henni vísri áfram og þurfi ekki að upplifa óöryggi, kvíða og vanlíðan,“ segir Halla.

Krabbameinsáætlun er afar mikilvægt plagg

Í ályktun Krabbameinsfélagsins Íslands er skorað á stjórnvöld að gerð verði krabbameinsáætlun með skilgreindum markmiðum um forvarnir, greiningu, meðferð, endurhæfingu og líkn. Í Danmörku var svona áætlun fyrst gefin út árið 2000 og hefur verið uppfærð fjórum sinnum síðan. Í fyrstu var áherslan á að auka aðgengi að meðferð en nú er – ásamt öðru – horft til þess að sjúklingurinn sé þátttakandi í meðferðinni og ákvarðandi. Drög að fyrstu íslensku krabbameinsáætluninni liggja nú fyrir en vinna þarf málið áfram.

„Krabbameinsáætlun er afar mikilvægt plagg til að hægt sé að tryggja sem bestan árangur í baráttunni við krabbamein, til að tryggja að unnið sé nægilega markvisst á öllum stigum, m.a. þannig að fjármunir nýtist sem best. Hún verður mikið framfaraskref þegar til kemur, sem verður vonandi fljótlega. Þetta er líka mál sem snertir okkur öll. Þriðjungur Íslendinga greinist með krabbamein einhvern tíma á lífsleiðinni og nýleg könnun sýnir að 80% þjóðarinnar eiga nákominn ættingja eða vin sem greinst hefur með krabbamein,“ segir Halla og heldur áfram:

„Um 40% krabbameina má fyrirbyggja og þar hefur heilbrigður lífsstíll mikið að segja. Almenningur þekkir tengsl tóbaks og krabbameins og hefur tekið til sín. Almenn þekking á fleiri áhættuþáttum eins og svo sem áfengi, hreyfingarleysi og ofþyngd er hins vegar mun minni.“

Einn af helstu þáttunum í starfi Krabbameinsfélags Íslands hefur lengi verið skimun fyrir krabbameini meðal kvenna, en því starfi sinnir félagið samkvæmt samningi við stjórnvöld. Konur eru boðaðar reglulega í skimun fyrir meini í brjóstum og leghálsi. Brjóstakrabbamein er algengasta krabbamein íslenskra kvenna en með skimun má greina sjúkdóminn snemma og draga þannig úr dauðsföllum. “

Vilja betri mætingu í skimum

„Þátttaka íslenskra kvenna í krabbameinsleit er of lítil. Konur á aldrinum frá 23 til 65 ára eru boðaðar á þriggja ára fresti í skimun fyrir leghálskrabbameini og 66% næta. Í skimun fyrir brjóstakrabbameini eru konur á aldrinum frá 40 til 69 ára boðaðar í skimun á tveggja ára fresti en þátttaka þeirra er 57%. Þátttakan hefur farið hægt minnkandi en er misgóð eftir landsvæðum, til dæmis áberandi best á Austurlandi. Við vitum ekki nægilega vel hvað það er sem veldur því að þátttakan er ekki meiri en raun ber vitni, nema ef vera skyldi framtaksleysi,“ segir Halla og bætir við:

„Við teljum mikilvægt að auka þátttöku kvenna í skimun og höfum sett í gang aðgerðir til þess, sem mun sjást meira af á næstunni. Nýjar upplýsingar frá Svíþjóð sýna að konur sem standa fjárhagslega veikar að vígi mæta síður í skimun. Þar brugðust stjórnvöld við með því að gera skimun gjaldfrjálsa, sem er nokkuð sem Krabbameinsfélagið hvetur íslensk stjórnvöld einnig til að gera. Ef þátttaka kvenna er lítil blasir við að árangurinn af skimuninni á landsvísu verður ekki nægilega mikill. Svo má ekki gleyma skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi meðal karla. Þar er undirbúningur langt kominn og vantar bara ákvörðun stjórnvalda svo hrinda megi þessu í framkvæmd.“