Hryðjuverk Lögreglumenn rannsaka svæðið utan hvítasunnukirkjunnar í Surabaya, þar sem ein af árásunum þremur var framin.
Hryðjuverk Lögreglumenn rannsaka svæðið utan hvítasunnukirkjunnar í Surabaya, þar sem ein af árásunum þremur var framin. — AFP
Alexander Gunnar Kristjánsson alexander@mbl.is Að minnsta kosti 13 eru látnir og tugir særðir eftir hryðjuverk í Surabaya, annarri stærstu borg Indónesíu, í gær.

Alexander Gunnar Kristjánsson

alexander@mbl.is

Að minnsta kosti 13 eru látnir og tugir særðir eftir hryðjuverk í Surabaya, annarri stærstu borg Indónesíu, í gær. Að sögn lögreglu stóð sex manna fjölskylda að árásunum sem beint var að þremur kirkjum í borginni og voru börn notuð í einni þeirra.

Árásirnar þrjár voru allar gerðar utan við kirkjur á áttunda tímanum í gærmorgun að staðartíma og voru tímasettar til að hæfa þá sem voru á leið í morgunmessu.

Fjölskyldufaðirinn keyrði bíl fullum af sprengiefni utan í hvítasunnukirkju í borginni. Á sama tíma hafði móðirin bundið sprengjur um sig og tvær dætur þeirra, níu og tólf ára, og sprengdu þær sig í loft upp við Diponegoro-kirkjuna í borginni. Um fimm mínútum áður höfðu synirnir tveir, sextán og átján ára, sprengt upp aðra kirkju, hina kaþólsku Maríukirkju, en þeir keyrðu á mótorhjólum inn í kirkjuna og sprengdu þar sprengjur.

Undir áhrifum frá Ríki íslams

Að sögn lögreglu tilheyrðu foreldrarnir hópi sem innblásinn er af Ríki íslams og er talið hugsanlegt að fjölskyldan hafi dvalið um tíma í Sýrlandi með liðsmönnum samtakanna. Sprengingarnar eru að öllum líkindum tengdar atviki fyrr í mánuðinu er fimm liðsmenn öryggislögreglu voru drepnir í baráttu við herskáa fanga í öryggisfangelsi í útjaðri höfuðborgarinnar Jakarta.

Indónesía er fjórða fjölmennasta land veraldar en þar búa um 260 milljónir. Rúm 87 prósent landsmanna eru múslimar en um tíundi partur kristinn og eru fjölmargar kirkjur í landinu.

Hryðjuverkaárásum hefur fjölgað í Indónesíu undanfarna mánuði, en árásin í gær er sú mannskæðasta frá árinu 2005, þegar tuttugu dóu í sjálfsmorðssprengingum á eyjunni Balí.

Joko Widodo, forseti landsins, hefur lýst árásunum sem villimannslegum og falið lögreglu að rannsaka og uppræta glæpagengi sem herja á landsmenn.

Mannskæðasta hryðjuverkaárás í landinu var árið 2002 þegar 202 létust í sprengjuárás á Balí, flestir ferðamenn. Síðan þá hafa indónesísk stjórnvöld lagt mikla áherslu á baráttu gegn hryðjuverkum, með handtökum, drápum og meðferðarúrræðum fyrir hryðjuverkamenn þar sem þeim gefst kostur á að snúa við blaðinu. Sú barátta hefur hingað til þótt vel heppnuð en uppgangur Ríkis íslams í Mið-Austurlöndum hefur orðið til þess að blása lífi í lauslega tengda hryðjuverkahópa landsins.