Senn líður að því að gengið verði að kjörborðinu enn á ný. Nú eru það sveitarstjórnarkosningar hinn 26. maí nk. Þriðju kosningarnar á rúmu einu og hálfu ári. Kjósendur sýna minnkandi áhuga á að taka þátt og nýta atkvæðisrétt sinn. Það er miður.

Senn líður að því að gengið verði að kjörborðinu enn á ný. Nú eru það sveitarstjórnarkosningar hinn 26. maí nk. Þriðju kosningarnar á rúmu einu og hálfu ári. Kjósendur sýna minnkandi áhuga á að taka þátt og nýta atkvæðisrétt sinn. Það er miður.

Flokkur fólksins býður fram í Reykjavík nú, í fyrsta sinn. Ég er stolt af því að hafa stofnað Flokk fólksins og náð þeim árangri sem þegar hefur náðst. Að hugsjónin um að útrýma fátækt og spillingu hafi verið umvafin af öllu því góða fólki sem er að berjast fyrir Flokk fólksins. Fólki sem hefur lagst á árarnar af öllu afli til að ná því markmiði sem að er stefnt. Tæplega fjórtán þúsund kjósendur gáfu Flokki fólksins sitt dýrmæta atkvæði í kosningunum í október 2017. Um leið eignaðist flokkurinn fjóra þingmenn sem fengu aðgang að öflugasta ræðupúlti landsins, sjálfs Alþingis Íslendinga. Þið eigið sanna málsvara sem hafa einskis látið ófreistað að berjast fyrir þá sem höllustum fæti standa. Það erum við kjósendur sem veljum valdhafana, það er hinn dýrmæti lýðræðisréttur okkar.

Gullfiskaminnið

Ég velti því fyrir mér hvort það sé rétt að því meiri peningum sem eytt í kosningarbaráttu því fleiri atkvæði. Er nóg að dusta rykið af gömlum kosningaloforðum sem ekki voru áður efnd og klifa á þeim úti um allt, daginn út og inn. Er nóg að segja „ég lofa ef þú kýst mig“. Getur verið að þetta sé satt með gullfiskaminnið margumtalaða. Mér er nánast ómögulegt að trúa að nokkur sé svo gleyminn. Nei, það getur ekki staðist að þeir sem eiga ekkert öryggi, ekkert heimili, engin úrræði fyrir börnin sín eða sitja hér fastir í umferðinni klukkustundum saman á hverjum einasta degi, séu búnir að gleyma að það er í boði núverandi borgarstjórnar.

Fólkið fyrst

Það er sannarlega ánægjulegt að sjá hve margir flokkar aðhyllast stefnu Flokks fólksins. Þeir freista þess nú að gera hana að sinni. Allt það sem Flokkur fólksins berst fyrir er nú að rata inn á borð þeirra sem áður sýndu því engan áhuga að hjálpa þeim sem eiga bágt og búa við lökustu kjörin. Þvert á móti hafa þeir haldið stórum hluta þjóðarinnar í fátæktargildru sem engin leið hefur verið að losna úr. Eru þeir trúverðugir nú? Flokkur fólksins mun ætið setja fólkið í fyrsta sæti. Ef þið viljið raunverulegar breytingar til batnaðar þá veljið þið þá sem eru sannir í baráttunni gegn óréttlæti, mismunun og fátækt. Ég bið ykkur að varast eftirlíkingar, þær munu ekki virka.

Höfundur er alþingismaður og formaður Flokks fólksins