Kópavogur Verið er að styrkja umgjörð dagforeldra í bænum.
Kópavogur Verið er að styrkja umgjörð dagforeldra í bænum. — Morgunblaðið/Ómar Óskarsson
Bæjarstjórn Kópavogs hefur ákveðið að grípa til aðgerða til að bregðast við skorti á daggæsluúrræðum yngstu barna í bænum. Meðal þess sem gripið verður til er þreföldun á stofnstyrk til dagforeldra sem hækkar úr 100.000 kr. í 300.000 krónur.

Bæjarstjórn Kópavogs hefur ákveðið að grípa til aðgerða til að bregðast við skorti á daggæsluúrræðum yngstu barna í bænum. Meðal þess sem gripið verður til er þreföldun á stofnstyrk til dagforeldra sem hækkar úr 100.000 kr. í 300.000 krónur. Stofnstyrkur gerir dagforeldrum kleift að undirbúa húsnæði sitt fyrir daggæslu og kaupa nauðsynlegan búnað. Þá fá allir dagforeldrar 150 þúsund króna aðstöðustyrk fyrir viðhaldi og endurbótum á húsnæði og leiktækjum og er hann greiddur árlega. Loks verða framlög bæjarins til dagforeldra hækkuð til að koma til móts við mismun á leikskólagjöldum annars vegar og dvalarkostnaði hjá dagforeldrum hins vegar þegar börn ná 15 mánaða aldri. Nemur hækkunin 20 þúsund krónum. Ný gjaldskrá tekur gildi 1. ágúst.

Markmið aðgerðanna er annars vegar að laða nýja dagforeldra að starfinu og styrkja þá faglega og hins vegar að efla starfskrafta dagforeldra í Kópavogi.

Í frétt frá Kópavogsbæ segir að í samráði við stjórn Félags dagforeldra í Kópavogi verði skipulögð aukin starfsþjálfun og fræðsla verði á vegum daggæslufulltrúa og leikskólaráðgjafa. Bætist hún við starfsréttindanámskeið sem gerð er krafa um að dagforeldrar ljúki.

Þá segir að haldinn verði kynningarfundur fyrir foreldra til upplýsingamiðlunar varðandi þjónustu dagforeldra og hlutverk Kópavogsbæjar gagnvart daggæslumálum. Fyrsti slíkur fundur verður haldinn í haust og verður hann með svipuðu sniði og fundir sem haldnir eru fyrir nýja foreldra í leikskólum í Kópavogi.