Reynir Ragnarsson
Reynir Ragnarsson
Eftir Reyni Ragnarsson: "Umhverfisstofnun er enn við sama heygarðshornið um lokun Dyrhólaeyjar á tímabilinu 8. maí til 25. júní til verndunar fuglalífi á eynni."
Samkvæmt grein eða tilkynningu um lokun Dyrhólaeyjar á umræddu tímabili frá kl. 19 á kvöldin til níu á morgnana er þetta gert til verndunar fuglalífi fyrir ágangi ferðamanna. Eftir áratuga lokun Dyrhólaeyjar á þessu tímabili og eftir að hafa næstum gert út af við allt fuglalíf á eynni með þessum lokunum og friðunum hefur þessi stofnun ekkert lært um atferli fugla eða manna. Allir þeir fuglar sem stofnunin segist vera að vernda leitast við að gera hreiður sín í skjóli manna og mannvirkja og þarf enga fræðinga til að sjá það. Því meiri umgangur um varplönd, þeim mun meiri vernd er það fyrir ágangi vargfugls, refs og minka, sem eru fljótir að læra á hvaða tíma er öruggast að ná sér í æti. Það er sorglegt að ferðast um friðland Hornstranda þar sem öllu mófuglsvarpi hefur verið útrýmt af refum, sem núna eru farnir að nýta sér manngerð skjól og kofa á svæðinu fyrir greni sín, og ekki heyrist fuglskvak en grenjalyktin liggur í loftinu eins og komið sé inn í refabú. Ef einhver löngun væri hjá Umhverfisstofnun til friðunar fuglalífs á Dyrhólaey ætti hún að hafa eyna opna allan sólarhringinn og láta heldur einn eða tvo eftirlitsmenn vakta hana um nætur. Þar fyrir utan virðist það vera árátta Umhverfisstofnunar að standa ekki við loforð sín um opnun á þeim svæðum sem stofnunin hefur lokað. Nefni sem dæmi lokun á vegi upp Skógaheiði að gosstöðvunum á Fimmvörðuhálsi (Magna og Móða). Því var lofað að gera aðra leið framhjá bæjarhlaðinu á Skógum og þá yrði leiðin opnuð. Þetta var árið 2010 og ennþá hefur leiðin ekki verið opnuð. Þá var í vor lokað vinsælli gönguleið að jarðhitasvæði norðan Hveragerðis og átti aðeins að vera lokuð í nokkra daga en er ennþá lokuð. Þrátt fyrir að starfsfólk Umhverfisstofnunar sé orðið fjölmennara en lögreglulið Suðurlands virðist það ekki geta svo mikið sem lagað eða gert gönguhæfan einn smá göngustíg og þeirra eina ráð eða ráðleysa er að loka loka loka.

Höfundur er fyrrverandi lögreglumaður. reynirr@simnet.is

Höf.: Reyni Ragnarsson