Belinda Theriault
Belinda Theriault
Eftir Belindu Theriault: "Bæði Ísland og Bandaríkin setja netöryggi í forgang. Þess vegna ákvað Fulbright-stofnunin á síðasta ári að leggja áherslu á þennan málaflokk."

Netöryggi hefur áhrif á daglegt líf okkar allra og á atvinnustarfsemi um allt land. Það er ekki ofsögum sagt að netöryggi er í dag ein grunnforsenda þess að tryggja öryggi borgaranna, vernda lýðræðið og tryggja afkomu okkar. Ljóst er að Ísland er ekki eyland þegar kemur að netöryggi. Öflugt samstarf við önnur ríki er forsenda árangurs. Netöryggi er ekki bara tæknilegt viðfangsefni heldur kemur inn á stjórnsýslu, löggæslu, efnahagsmál og alþjóðasamskipti, svo nokkur dæmi séu nefnd. Öll svið ríkisvaldsins þurfa að huga að netöryggi, sem og fyrirtæki, stofnanir og almennir borgarar. Rannsóknir og þróunarstarf á þessu sviði eru í eðli sínu fjölþjóðleg. Að mörgu er að huga og þróunin er hröð.

Bæði Ísland og Bandaríkin setja netöryggi í forgang. Þess vegna ákvað Fulbright-stofnunin á síðasta ári að leggja áherslu á þennan málaflokk og setja á stofn nýja styrkjaáætlun á sviði netöryggismála í samstarfi við Vísindastofnun Bandaríkjanna (NSF), en fyrstu styrkirnir eru veittir á þessu ári. Í tilefni af því að þessi áætlun er nýfarin af stað stendur Fulbright-stofnunin fyrir netöryggisviku Fulbright dagana 14.-18. maí í Reykjavík. Netöryggisráð hefur aðstoðað við undirbúning dagskrárinnar, en Fulbright-sérfræðingurinn Eileen Decker mun halda stutt námskeið og erindi í Reykjavík fyrir ýmsa hópa sem láta sig netöryggi varða. Hún er lögfræðingur með langa reynslu af starfi á sviði netöryggismála, bæði sem fyrrverandi alríkissaksóknari og aðstoðarborgarstjóri Los Angeles, og jafnframt hönnuður og kennari nýs námskeiðs um netöryggismál fyrir University of Southern California. Á þessum fundum mun hún deila reynslu sinni og ræða um hinar ýmsu hliðar netöryggismála. Að netöryggisvikunni lokinni heldur Eileen norður til Akureyrar þar sem hún mun halda áfram samstarfi sínu við Háskólann á Akureyri, en sem Fulbright-sérfræðingur veitir hún þar ráðgjöf varðandi þjálfun lögreglunema á sviði netöryggismála.

Í júní eru svo tveir Fulbright-sérfræðingar í viðbót á sviði netöryggismála væntanlegir, en gestgjafar þeirra eru stjórnmálafræðideild og Rannsóknasetur um norðurslóðir við Háskóla Íslands. Í haust er svo væntanlegur sérfræðingur á sviði tölvufræði sem verður gestur Háskólans í Reykjavík. Fleiri heimsóknir eru fyrirhugaðar. Á næsta ári er stefnt að því að fá hingað bandaríska fræðimenn á sviði netöryggismála sem dvelja munu heila önn við háskóla á Íslandi við kennslu og rannsóknir. Fyrirséð er að samstarf fræðimanna á þessu sviði geti gagnast báðum ríkjunum vel og leitt af sér bætt netöryggi, nýjar lausnir og aukið samstarf háskóla.

Það er Fulbright-stofnuninni mikið gleðiefni að geta stuðlað að auknu samstarfi Íslands og Bandaríkjanna á þessu mikilvæga sviði sem netöryggismál eru. Fulbright-stofnunin og stjórn hennar hafa á síðustu árum einsett sér að leggja áherslu á málaflokka sem bæði ríkin setja á oddinn hverju sinni og þar sem talið er að samvinna geti komið að verulegu gagni.

Auk þeirra funda sem fyrirhugaðir eru með embættismönnum og fleiri í tengslum við netöryggisviku Fulbright verður opinn fundur föstudaginn 18. maí kl. 12 í Odda, stofu 101. Fundurinn er haldinn í samstarfi við Lagastofnun HÍ og bandaríska sendiráðið og eru allir velkomnir. Fleiri opnir fundir eru fyrirhugaðir í framtíðinni. Allt áhugafólk um netöryggi er hvatt til að fylgjast með á www.facebook.com/fulbrighticeland

Höfundur er framkvæmdastjóri Fulbright-stofnunarinnar á Íslandi. fulbright@fulbright.is