Keppendur í Eurovision eru fulltrúar sinna þjóða og landa, enda fylgir lögunum og flytjendum margt sem minnir á upprunann.

Keppendur í Eurovision eru fulltrúar sinna þjóða og landa, enda fylgir lögunum og flytjendum margt sem minnir á upprunann. Sjónvarpskabarett þessi sem Víkverji fylgdist með á laugardagskvöld er því svona öðrum þræði skemmtileg landafræði, ferðalag um heila heimsálfu á nokkrum klukkustundum. Lögin sem flutt voru eru hins vegar í flestum tilvikum án allrar melódíu og því ómögulegt að syngja þau og læra laglínu á núll einni. Aðalatriðið í flutningi laganna er sjónhverfingar og sviðsframkoma.

En sú var tíðin að Ísland var eins og lítið Eurovision þar sem í bæjum og byggðum landsins voru starfandi hljómsveitir sem fluttu lög og texta sem hvert mannsbarn kann. Þetta er breytt, en söngurinn ómaði og hljómsveitirnar urðu frábær kynning fyrir viðkomandi byggðarlög. Á Akranesi voru Dúmbó og Steini sem sungu Angelíu , Glaumbæ og Fiðrildi og flugur . Á Bifröst í Borgarfirði voru samvinnuskólastrákar sem héldu úti sveitinni Upplyftingu og lagið Traustur vinur var spilað út í það óendanlega í Óskalögum sjúklinga í Ríkisútvarpinu. Vestan af Ísafirði heyrðist síðan ómur frá BG og Ingibjörgu og allir þekkja lagið fallega Þína innstu þrá .

Í Skagafirði kom sveiflufjör Geirmundar Valtýssonar og Álftagerðisbræður eru rokkarar af fíngerðu sortinni. Lagið Sem lindin tær eiga Siglfirðingar algjörlega skuldlaust og á Akureyri voru Hljómsveit Ingimars Eydal , Skriðjöklar og seinna 200 þúsund naglbítar . Greifarnir voru Húsavíkurbandið. Annars má segja að Selfoss hafi verið höfuðbólið í þessari hljómsveitamenningu; þar voru til dæmis Steini spil , Mánar og seinna Skítamórall ; strákaband sem átti sumarsmellinn árið 1998, lagið Farin? Í Vestmannaeyjum var hljómsveitin Logar og frá Eyjum er reyndar kominn fjöldi Þjóðhátíðarlaga sem svo oft eru rauluð við gítarglamur á góðri stundu.

Tökum lagið, landar góðir. Fjörið er rétt að byrja.