Guðvarður Jónsson
Guðvarður Jónsson
Eftir Guðvarð Jónsson: "Það er umhugsunarvert að menn ferðist yfir hálfan hnöttinn í þeim tilgangi að halda hér ráðstefnu um getnaðarlim ungbarna og reyni að stöðva lagasetningu á Alþingi okkar Íslendinga."

Undarlegt mál er nú til umfjöllunar á Alþingi, umskurður drengja sem er beintengdur trúarbrögðum í kristnitöku okkar Íslendinga, sem var enginn dans á rósum, heldur blóðroðin og sálsýkisköstum stráð. Þeir sem trúarleiðtogar töldu andsnúna trúnni, voru úthrópaðir sem galdramenn og á valdi þess illa. Slíkt fólk var tekið, bundið á höndum og fótum og brennt á hrískastarbáli. Konum var haldið í ísköldu vatni Drekkingarhyls á Þingvöllum, þar til lífið fjaraði út. Við þessar athafnir átti fjölmenni að vera svo fólk gæti séð hvernig fyrir því færi, hlýðnaðist það ekki sínum æðri boðurum, um kristilegt líferni.

Allt var þetta gert til að þóknast trúnni, sem átti að vera okkar andlega leiðarljós í mannlegum samskipum og kristilegu hugarfari. Þar sem íslenska þjóðin átti ættir sínar að rekja, að stærstum hluta, til afkastamikilla fjöldamorðingja og stórþjófa, sætti hún sig ekki við þessa kúgun og reis upp gegn kristilegu ofbeldi, tók þá er erfiðastir voru og sneið af höfuðin, svona til öryggis. Í framhaldi af þessari hreinsun voru aflagðar trúarlegar aftökur og þróuð þjóðfélagslega hagkvæmari trúarstefna sem byggðist aðallega á mildari hugleiðslu og hjálpsemi við vanmáttuga, börn og fullorðna. Það að afleggja aftökur, virtist ekki hafa andlegar afleiðingar til hins verra, né refsingar af hálfu guðanna, eins og mönnum var hótað, heldur styrkja trúarsamfélagið.

Ofbeldisvaldið hafði samt ekki lagt árar í bát. Umskera skyldi stúlkur og drengi. Hinn mannlegi þáttur nýrrar trúarstefnu náði ekki til mállausra barna og hinir hámenntuðu stjórnsýslufulltrúar á löggjafasamkomu þjóðfélaga, skrikuðu á manndómnum til að verja rétt þessara málvana þegna þjóðfélaga og stöðva misþyrmingu trúarleiðtoga á kynfærum ungbarna.

Síðan vaknar samkennd með þjáningum barna gagnvart umskurði og varð sú andstaða svo öflug í fjölmennum þjóðfélögum að aflagður var umskurður stúlkna. Án þess að heilagur andi hafi refsað þeim er að banninu stóðu. Enn er samt haldið í hálmstráið og umskurður drengja staðreynd. Lögð hefur verið fram tillaga á alþingi okkar um að banna umskurð drengja og hafa fjölmargir heiðarlega hugsandi stutt þá tillögu. Aftur á móti telja kerfiskóngar slíkt hættulegt viðskiptahagsmunum landsins og sumir látið að því liggja að hætta gæti stafað af hryðjuverkamönnum ef bannið yrði samþykkt.

Í framhaldi af þessu var haldin alþjóðleg ráðstefna í Norræna húsinu þar sem mættir voru fulltrúar þeirra trúfélaga sem mestan áhuga á því hafa að halda umskurði sem réttlætisatriði í sínum trúarbrögðum. Án þess að hugleiða þann sársauka sem þolandinn þarf á sig að taka. Það er umhugsunarvert að menn ferðist yfir hálfan hnöttinn í þeim tilgangi að halda hér ráðstefnu um getnaðarlim ungbarna og reyni að stöðva lagasetningu á Alþingi okkar Íslendinga. Þarna hafa harðlínumenn fengið vísbendingu um að hægt sé að hafa áhrif á hvaða lög séu sett á Alþingi.

Þeim alþingismönnum sem standa gegn banni á umskurði á þjóðin að vísa af Alþingi. Umskurður er ekkert annað en barnaníð.

Höfundur er eldri borgari.

Höf.: Guðvarð Jónsson